15.09.1917
Sameinað þing: 7. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2293 í B-deild Alþingistíðinda. (2396)

191. mál, milliþinganefnd til að íhuga fossamál landsins

Frsm. (Magnús Torfason):

Það eru að eins fáein orð. Jeg verð að segja það fyrir mitt leyti, að jeg skil ekki, hvernig annað eins mál og þetta, sem svo er til komið, sem raun er á orðin, getur verið hafið yfir flokkana. Jeg sje ekki betur en ef flokkarnir eiga að taka afstöðu til nokkurs máls, þá sje það þetta. Flokkarnir hafa þegar tekið fasta afstöðu til þess og lýst yfir sínum vilja, hvað það snertir.

Annars skal jeg geta þess, að það var ekki jeg, sem talaði um, að nefndina ætti að skipa eftir tillögum flokkanna; það var hv. 1. þm. Rang. (E. P.), en eins og jeg tók fram áðan, var það skoðun nefndarinnar, að þessi nefnd ætti að hafa þá fylstu ábyrgð, sem hægt væri, og það verður vitanlega með því, að flokkarnir í þinginu kjósi mennina. Í þessu liggur ekkert vantraust til stjórnarinnar á neinn hátt.

Einn hv. þm. var að tala um, að það þyrfti að vera sjerfræðingur í nefndinni; vildi jeg þá beina þessari spurningu til háttv. þm.: Hversu margir sjerfræðingar voru í fossanefndinni norsku? Getur háttv. þm. sagt mjer það? Annars er það ekki í fyrsta sinn, sem úr þeirri átt er reynt að »slá sjer upp« á því að fara lastyrðum um þingstörfin í þinglokin, og kippi jeg mjer því ekki upp við það, enda voru ummælin tiltölulega meinlaus í þetta sinn.