06.07.1917
Neðri deild: 4. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2295 í B-deild Alþingistíðinda. (2401)

30. mál, bjargráðanefnd

Flm. (Bjarni Jónsson):

Vjer höfum Íslendingar hlotið vandræði ýmiskonar af þeim miklu Hjaðningavígum, sem nú geysa um heim allan. Er þess fyrst að geta, að þessi vandræði hófust með þeim hætti, að þær ófriðarþjóðir, er til náðu, tóku að hefta viðskifti vor við önnur lönd, og höfum við af því beðið tjón allmikið. Auk þess var tekið það ráð að beita sultinum sem aðalvopni, og með því var oss Íslendingum stíað frá verslun við þá þjóð, sem oss hafði um langan aldur reynst hagstæðast að versla við, nefnilega Þjóðverja. Jeg hjelt því fram í fyrirlestri í ársbyrjun 1916, að vjer ættum að hafa menn í Englandi, Þýskalandi og Vesturheimi til að gæta hagsmuna vorra, svo að sem minst tjón hlytist af ófriðnum fyrir siglingar og verslun þessa lands, með því að komast að hagkvæmum samningum við stórþjóðirnar og hinar helstu hlutlausu þjóðir.

Þá verður enn þrengra um oss og meiri bönd lögð á verslun Íslands, er Englendingar meinuðu oss að skifta við hlutlaus lönd austan hafs, Norðurlönd og Holland. Það sjá allir, hvílík vandræði hlutu að stafa þar af, enda er kunnugt orðið, hversu mikill hnekkir viðskiftum landsins hefir staðið af þessu. Þó versnar enn um allan helming, er hafnbannið var lagt á England. Urðum vjer við það algerlega milli steins og sleggju, þar sem önnur aðalófriðarþjóðin segir: »Þjer megið ekki sigla til annara landa, án þess að koma við hjá oss«, en hin þjóðin segir: »Við sökkvum vægðarlaust hverju skipi, sem til Englands siglir«. Þetta horfði til stórvandræða, en fyrir milligöngu breska ræðismannsins hjer fengum vjer þó að láta skip sigla beina leið frá Danmörku til Íslands, án þess að koma við í Englandi, og höfum vjer þann veg fengið nokkuð af vörum og skipum austan um haf. Og síðasti liðurinn, sem veldur oss mestri hættu, er það, er Bandaríkin gengu í ófriðinn.

Jeg skal þá með örfáum orðum rekja það, sem gert hefir verið af hálfu stjórnar og þings til að afstýra vandræðum síðan ófriðurinn byrjað.

Mönnum mun vera það í minni, að fyrst var leigt skip, sem Hermod hjet, og látið fara eina ferð til Vesturheims, en síðan ekki söguna meir. Þá var skipaleiga ekki nema 14000 kr. fyrir þetta stóra skip, og hefði því, ef um nokkra framsýni hefði verið að ræða hjá oss, verið sjálfsagt að halda áfram leigunni, eða jafnvel að festa kaup á skipinu, en stjórnin, sem þá sat að völdum, mun ekki hafa treyst sjer til að ráðast í slíkt stórfyrirtæki, sakir þess, að hún var þá farin frá og gegndi að eins störfum um stundarsakir. Jeg fór þá til kaupmanna og leitaðist við að leiða þeim fyrir sjónir, hvern hag siglingar vorar og verslun gætu haft af því að vjer hefðum sjálfir ráð á skipum til vöruflutninga, og reyndi að fá þá til að halda áfram leigunni. En sú ferð fór á sömu leið og tvær ferðir aðrar, sem jeg fór þegar jeg var sá öfundlausi viðskiftaráðunautur hjer á landi. Í annað skiftið vildi jeg fá þá til að hefja siglingar milli Íslands og Liverpool, og hugðist með því að ryðja braut hugmyndinni um að vjer kæmum oss upp verslunarflota sjálfir. Þeir sögðu: »Það er ljómandi falleg hugmynd, sem þú kemur með, en hvernig dettur þjer í hug, að samtök náist hjá íslenskri kaupmannastjett til slíkra framkvæmda?«

Nú geta menn sjeð eftir á, hvor hafði rjettara, sá maður, sem ekkert vit átti að hafa á viðskiftum og verslun, eða hinir, sem talið var að hefðu einir alla þekkinguna.

1915 kom sá flokkur, sem jeg hefi talist til, með tillögu um að birgja landið að kornvöru, og var í framsögunni einnig talað um kaup á steinolíu og kolum. Tillagan var feld, en stjórnin lýsti yfir því, að hún hefði í hyggju að gera alt hvað hún gæti til að sjá landinu fyrir nægilegum birgðum. Svo tók hún líka skip á leigu, Bisp, en þá var skipaleiga stigin svo mjög, að þetta skip, sem var miklu minna en Hermod, kostaði nú 65000 kr., í stað þess sem Hermod kostaði að eins 14000 kr.

Ekki myndi það Þjóðverjum líkt að sjá svo illa borgið hag sínum og sjá ekki svo langt fram í tímann og að hverju myndi reka um vöruflutninga í skipalausu landi. Það hefði því verið sjálfsagt að gera leigusamning til lengri tíma eða jafnvel öllu heldur kaupa skip, því að þessi háa skipaleiga borgar skipsverðið að mestu á einu ári. En þetta var mönnum ekki ljóst þá. Menn hjeldu, að stríðið gæti aldrei lengi staðið; sjerstaklega þóttust menn tryggir um, að Þjóðverjar gætu ekki haldið út lengur en svo sem 2—3 mánuði, enda þótt það væri bersýnilegt hverjum hugsandi manni, að þjóðirnar stóðu svo jafnt að vígi, og viðureign þeirra hlaut að verða löng og að líkindum jafntefli.

Annað var það og, sem stjórnin gerði, sem sje samningarnir við Breta. Hefir mörgum þótt þeir orka tvímælis að ýmsu leyti. Á síðasta þingi voru þeir til umræðu, og ljet jeg þá í jós þá skoðun mína, að þeir væru góðir að því er snertir rjettindi landsins, en að öðru leyti efasamir, og ekki gott að segja, hversu sjálfráður annar málsaðilinn hefir verið.

Svo stóð þegar aukaþingið kom saman, að ekki var komið í nein stórvandræði og engin bersýnileg hætta á því, að atvinnuvegirnir stöðvuðust eða siglingar teptust, svo að landið lenti í sveltu. En þegar leið fram til jóla, var það auðsjeð hverjum glöggum manni að hverju fór. Það hlaut að reka að því, að Þjóðverjar hertu á káfbátahernaðinum fram úr hófi.

Jeg gat þess þá til styrktar till., sem jeg bar fram viðvíkjandi matjurtarækt og kolanámi hjer á landi, þar sem jeg sá, að af hafnbanninu myndi leiða skort á kolum og matvælum, að innan skamms mundu Þjóðverjar herða á kafbátahernaðinum og leggja fullkomið hafnbann á England, og mundi oss þá lítið lið í samningum við Engla. Þetta er nú komið fram hvorttveggja að sumu leyti. En því miður hafði aukaþingið ekki nógu opin augun til að sinna þessu máli. Það hefði þó vel mátt vera búið að útvega útsæði á þeim tíma, sem leið frá þessu þar til hafnbannið hófst, því að þá var ekki komið útflutningsbann í Danmörku.

Eins er með kolin. Hefði verið byrjað að brjóta þau í vetur, hefði ekki farið svo, að menn hjer í Reykjavík hefðu þurft að hætta vinnu sinni vegna kolaleysis. Hitt mun aftur verða miklu erfiðara, þótt byrjað sje í sumar að brjóta kolin, að ná þeim hingað þegar vetur fer að.

Nú er svo komið, að kol eru orðin ofdýr til að reka fiskveiðar, og hefi jeg sjeð þess ljósan vott út um gluggann minn, þar sem 14—15 botnvörpuskip hafa nú legið aðgerðalaus mánuðum saman úti á höfninni,

Nú heyri jeg sagt, að komið hafi fram hlutur í síðustu samningum, sem ekki hefir þekst áður, þar sem verkun á síld er svo ákveðin, að ekki tekur tali að veiða hana, því að kostnaðurinn verður helmingi meiri en ella, vegna þeirrar verkunaraðferðar, sem nú er til skilin. Má búast við, að kostnaður við útgerðina sje orðinn svo hár, og skilyrðin að öðru leyti svo ill, að útgerðin stöðvist með öllu.

Eina ráðið, sem þó ekki er ráð nema framkvæmt sje, liggur ekki í valdi neins Íslendings að framkvæma. Það er, að stjórnin fengi verð afurðanna hækkað um 100%. Þá mætti reka útgerðina í sumar án stórtjóns. Þetta hefir þingmálafundur á Skarðsströnd og aðrir þingmálafundir í Dalasýslu skorað á stjórnina að reyna. En þetta er ekki nein skyldukvöð. Ekkert er heimtað af stjórninni nema tilraun, því að allir vita, að hún hefir eigi mátt til þess að knýja það fram.

Það er þá auðsjeð, að þessi atvinnuvegur liggur í kaldakoli. Og það er töluvert vafamál, hvort hægt verður að nota gufuskipin og vjelbátana til að afla fiskjar til soðningar mönnum, þar sem kol og olía eru bæði dýr og lítt fáanleg. Þá væri hugsanlegt, að eigi yrði í annað hús að venda en nota opna báta, og þá kæmi sjer illa, hve sá atvinnuvegur er úr sjer genginn og bátar orðnir fáir. Jeg get vel fallist á þá skynsamlegu tillögu eins útgerðarmanns, Elíasar Stefánssonar, að vissast væri, að landsstjórnin næði í tæka tíð viðarfarmi frá Ameríku til þess að geta smíðað sjer fleytu, ef í nauðir ræki. Það annað er öllum auðsætt, að framleiðsla Vesturheims eða Bandaríkjanna er takmörkuð, og gróði jarðarinnar á hverju ári hefir ekki gert mikið betur en fæða íbúana.

Enn fremur er mörgum þúsundum smálesta sökt í sjó. Því er hugsanlegt, að þar sem svo miklu er sökt og Bandaríkjamenn ætlast til, að þeirra bandamenn sitji fyrir hlutlausum þjóðum um vörukaupin, geti svo farið, að Íslendingar geti engin matvæli fengið vestan um haf eða annarsstaðar að, fremur en aðrar hlutlausar þjóðir. Það virðist koma ljóst fram í þessari styrjöld, að framvegis muni hyggilegast og varlegast, að hver þjóð geti búið að sínu. T. d. gæti þetta komið fyrir Íslendinga þegar í haust, en hjer er lítill forði. Því ríður á að gera ráðstafanir áður en sá háski dettur á, er mestur getur orðið, að sultur taki að þjaka þessari þjóð. Hefði jeg verið einvaldur í landinu í vor, hefði jeg skipað öllum bændum að færa frá öllum ám sínum og sent þeim 5 þúsundir manna úr kaupstöðunum til að vinna fyrir þá í sumar, gegn því að þessir kaupstaðabúar fengju góðan viðurgerning og sæmilegt kaup til að geta lifað veturinn af. Hjer í Reykjavík er hættast við sultinum, og liggur því nærri að gera ráðstafanir. Hingað til hafa menn verið svo bjartsýnir, að þeir hafa ekki hirt að gera ráðstafanir. Niðurstaða minnar ræðu verður þá þessi: »Búist við hinu illa; hið góða skaðar ekki«. Skipum nefnd til að íhuga, hvaða ráð eru til að afstýra hættu þeirra, er getur að minsta kosti vofað yfir, ef hún vofir ekki yfir þegar.

Að svo mæltu vil jeg æskja þess, að þessi þingsályktunartillaga, sem hjer liggur fyrir, verði samþykt og nefndin kosin.