06.07.1917
Efri deild: 4. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2302 í B-deild Alþingistíðinda. (2405)

29. mál, skipun bjargráðanefndar

Flm. (Sigurður Eggerz):

Jeg hefi leyft mjer, ásamt þremur öðrum háttv. þm., að koma fram með tillögu þessa, sem fer fram á að skipuð verði fimm manna nefnd til þess að íhuga vandræði þau, er yfir vofa vegna Norðurálfuófriðarins, og koma fram með till. til bjargráða.

Jeg hygg óþarft að eyða mörgum orðum til rökstuðnings því, hve brýn þörf er á nefndarskipun þessari.

Ófriðurinn sjálfur og vandræði þau, er af honum stafa, eru þar besta röksemdaleiðslan. Eins og kunnugt er hefir stríðið harðnað ár frá ári og aldrei hafa afleiðingar þess verið ískyggilegri og horfurnar kuldalegri en einmitt nú, síðan Alþingi kom saman.

Sjávarútvegurinn er í stórhættu og samgöngur ótryggar og erfiðar, svo að búast má við því, að aðflutningar teppist þá og þegar, og má þá segja, að stórvandræði standi fyrir dyrum.

Vandræðamál þetta hefir tvær hliðar; aðra út á við, en hina inn á við. Til þess að stemma stigu fyrir vandræðunum út á við þarf bæði að birgja landið upp að vörum til almennra nauðsynja og sömuleiðis sjá um, að nóg föng sjeu fyrir hendi, svo að haldast megi uppi aðalatvinnuvegir landsmanna. Vandræðin inn á við eru ef til vill ekki eins alvarleg, en þó að mörgu leyti íhugunarverð.

Vel gæti farið svo, að þótt nægar vörur flyttust til landsins, þá yrði verðlag svo hátt, að ókleift yrði fátæklingum að afla sjer vörunnar.

Jeg lít svo á, að þetta tvent sje meira en nóg íhugunarefni fyrir eina nefnd, og það er sannfæring mín, að hlutverk þessarar nefndar sje erfiðasta og vandasamasta hlutverkið, sem lagt verður fyrir nokkra nefnd á þessu þingi.

Að þessu sinni ætla jeg ekki að fara í langa leit að ástæðunum fyrir vandræðum þeim, er yfir vofa, þótt ef til vill megi þær fleiri finna en stríðið sjálft, og ef til vill megi okkur sjálfum um kenna að ýmsu leyti.

Jeg get ekki stilt mig um í því sambandi að minnast á gerðir þingsins 1915. Ómögulegt er annað að segja en að það þing hafi verið helsti fyrirhyggjulítið.

Þá var borin fram tillaga frá mjer og öðrum fleiri háttv. þm. um það að tryggja landið með kornvörum og öðru fleiru, og í ræðum, sem tillögu þeirri fylgdu, var sjerstaklega lögð áhersla á að birgja landið að kolum.

En það var síður en svo, að tillögu þessari væri vel tekið af hinum almáttuga meiri hluta, og lá nærri að við formælendur till. sættum árásum fyrir.

En mótbárurnar voru flestar hjegóminn einn og sumar blátt áfram hlægilegar. Því var t. d. haldið fram, að ekki væri hægt að geyma hjer vörur, sökum húsleysis.

Flestir mundu brosa að slíkum mótbárum nú.

Þá var því haldið fram, að engin hætta væri á því, að ófriðurinn tepti samgöngurnar. En nú hefir tíminn sýnt og sannað þá hættu.

Jeg minnist þess líka, að jeg benti á það í framsöguræðu minni þá, að svo gæti farið, að Ameríka lenti í stríðinu.

Að öllu samanlögðu verð jeg því að álíta, að þingið 1915 hafi verið altof fyrirhyggjulítið, því að ef Alþingi hefði frá byrjun ófriðarins haft vakandi auga á því, er gerðist í heiminum, mundi eflaust mörgum vandræðum hafa verið afstýrt. Á síðasta þingi voru horfurnar orðnar illar og ískyggilegar og gerði það þó ýmsar nytsamar ráðstafanir; t. d. má benda á heimildir þær, er það veitti landsstjórninni til skipakaupa, og margt annað, sem það á þakkir skilið fyrir. Jeg ætla ekki að fara inn á það nú, hve margar syndir núverandi stjórn hefir drýgt í þessu máli, að eins vil jeg benda á það, að hún hefir átt við miklu meiri erfiðleika að stríða en undanfarandi stjórnir, og ætti að því leyti að fyrirgefast meira.

En hvernig sem á alt er litið og hvort sem við getum kent okkar eigin óforsjálni um eða ekki, þá er það ekki aðalíhugunarefnið nú, heldur það, að þingið þori að horfast í augu við hættuna, hefjist handa og taki til sinna ráðstafana, en kasti ekki öllu á herðar stjórnarinnar.

Að síðustu eru það tilmæli mín, að vandað verði sem best valið í nefndina.