06.07.1917
Efri deild: 4. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2308 í B-deild Alþingistíðinda. (2408)

29. mál, skipun bjargráðanefndar

Magnús Kristjánsson:

Það er nú ef til vill ekki þinglegt, en jeg verð að segja það, að mjer duttu í hug þessi orð meðan háttv. 2. landsk. þm. (S. E.) var að tala: »Þykir ykkur það vera gorgeir í honum, piltar!«

Jeg skil ekki, hver er meiningin með þessari stóryrðaræðu og ráðningunni, sem háttv. 2. landsk. þm. (S. E.) var að tala um.

Það er mikið sjálfsálit, er kemur fram í ræðu hans, en jeg hefi þó ekki fundið neitt annað markvert við hana.

Og í þessu máli þarf jeg ekki að bera kinnroða fyrir neitt. Jeg þurfti ekki að berjast á móti till., því að hún var andvana fædd. Hún dæmdi sig sjálf. Hún var borin fram að ástæðulausu, og eins og jeg hefi áður tekið fram þá sagði hún ekkert annað en það, sem þingið hafði áður gert. Og vitna jeg hjer til alls þingheims um, að jeg fer með rjett mál.

Það, sem lá í till., var ekkert annað en starf velferðarnefndar, og þar sem háttv. 2. landsk. þm. (S. E.) skipaði nefndina, þá á hann sína sök á því, ef starf hennar hefir verið slælega int af hendi.

Alt ber það að sama brunni og jeg sagði áðan, að tillagan var að eins borin fram til þess að láta bera á sjer, og þessi ræða mun hafa verið flutt í sama tilgangi.

Þar sem háttv. 2. landsk. þm. (S. E.) var að reyna að slá því föstu, að kaupmannastjettin gerði hvað hún gæti til að vinna landinu ógagn, þá nær það nú ekki svo mjög til mín, því að jeg er ekki lengur starfandi meðlimur þeirrar stjettar. En við nánari athugun held jeg, að háttv. 2. landsk. (S. E.) ætti að geta sjeð það, að það er ekki nóg að hafa stór orð. Það er að minsta kosti viðkunnanlegra að geta staðið við eitthvað af þeim. Það vita allir, að kaupmannastjettin hefir lagt mikið á sig til að birgja landið upp að allskonar vörum. Og það er ekki hægt að gefa kaupmannastjettinni sök á því, þótt margt hafi mishepnast og mörgum skipum verið sökt, og þeir hafi orðið fyrir tilfinnanlegu tjóni af kafbátahernaðinum.

Og víst er um það, að jafnórökstudd ummæli og háttv. 2. landsk. þm. (S. E.) geta ekki orðið til þess að rýra álit kaupmannastjettarinnar. Betur má, ef duga skal.