10.07.1917
Neðri deild: 7. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2314 í B-deild Alþingistíðinda. (2416)

34. mál, sjálfstæðismál landsins

Magnús Pjetursson:

Það er næsta óþarft að fjölyrða mikið um þessa till., því að það mætti segja, að orðalag hennar segði alt, sem segja þarf, en það mun samt viðkunnanlegra að láta henni fylgja nokkur orð.

Jeg býst við því, að háttv. alþingismenn, flestir, hafi látið á sjer heyra og heyrt það annarsstaðar frá, að aðalstarfsvið þessa þings væri það að sjá um, að þjóðin hefði nóg að bíta og brenna, og myndi því þar að mestu markaður bás, en lítt myndi hægt að hugsa um annað en yfirstandandi og yfirvofandi þjóðarvandræði. Þetta er auðvitað að mestu rjett. En þó teldi jeg það ekki vansæmdarlaust þessu þingi, ef það liti ekki nokkuð lengra og hefði ofurlítið víðari sjóndeildarhring.

Undanfarin ár höfum vjer verið að reyna það tvent, að mjer finst, að verja landsrjettindi vor og að ná undir oss þeim málum, sem Danir umboðslaust og því ranglega hafa farið með fyrir vora hönd. Erfiðlega hefir þessi barátta gengið, og hefir það þá ekki síst valdið árangursleysinu, að vjer höfum lítt getað orðið sammála um það hingað til, hvers vjer ættum að krefjast eða á hvern hátt vjer ættum að fá kröfum vorum framgengt. Jeg ætla samt að gera ráð fyrir því, að fyrir öllum eða allflestum úr öllum flokkum hafi blasað sama endatakmarkið, fullkomin yfirráð yfir öllum vorum málum og algert fullveldi. Að vísu virðist svo, sem þetta endatakmark hafi í sumra augum verið nokkurskonar »utopia« eða fjarlægt, eftirsóknarvert draumaland. Til hafa einnig verið þeir menn, sem hafa álitið þetta endatakmark skýjaborg eina, en óhugsandi er, að þeir hafi verið margir.

Nú verður að álíta, að rás viðburðanna hafi sparkað oss, ef svo mætti að orði kveða, miklu nær markinu, sem innanlands-reipdráttur og drotnunargirni Dana hafa bægt oss frá, því að ekki er hægt að neita því, að sem stendur höfum vjer miklu meira sjálfstæði en verið hefir, eða ef það er ekki sjálfstæði, þá er það þó að minsta kosti sjálfræði. Sjálfstæði í orði hefir oss að vísu ekki aukist, en því meira á borði.

En þessu sjálfræði er þannig farið, að ef vjer erum ekki vel vakandi og á vaðbergi, þá ber það oss ekki að sjálfstæðinu, heldur mun sækja aftur í sama horfið, þegar núverandi ófriðarástand líður hjá. En samband vort við Dani, eins og það hefir verið, er auðvitað alveg óviðunandi, og getur ekki komið til mála, að nokkur Íslendingur láti sjer detta í hug að búa við það framvegis, og megum vjer því eigi láta undir höfuð leggjast að ráða þegar ráðum vorum í þessu efni, hvað gera skuli, svo að ekkert tækifæri gangi úr greipum vorum.

Jeg býst við því, og svo gera einnig margir menn fróðari mjer og getspakari um slíka hluti, að þegar friður verður saminn, þá muni þjóðirnar koma sjer saman um einhverja þá skipun landa og ríkja í Norðurálfunni, sem ætluð verði til frambúðar, og muni erfiðara, ef ekki ókleift síðar meir, að fá komið til leiðar nokkurri breytingu á þeirri skipun. Við væntanlega friðarsamninga getur því orðið tækifæri til þess að fá öllum kröfum vorum framgengt, bara ef vjer stöndum allir saman og höfum lag á að koma ár okkar fyrir borð.

Það er margt, sem bendir til þess, að þá sje tækifærið, og þá ekki síst það, að nú virðist vera los á öllum landa- og ríkjasamböndum, og stóru ófriðarþjóðirnar, sem mestu hljóta að ráða um slíkt, hafa hvað eftir annað lýst yfir því, að smáþjóðirnar eigi sjálfar að ráða samböndum sínum og stjórn, og að hvert þjóðerni hafi þar jafnan rjett til þess að segja til, hvernig það vilji að því sje stjórnað.

Það virðist því liggja í augum uppi, að þar með sje viðurkent, að vjer höfum sjálfir rjett til að kveða á um, hvort vjer viljum vera í sambandi við önnur ríki eða standa einir, og þá einnig rjett til að ákveða, í hverskonar sambandi, ef um samband yrði samkomulag.

Það getur varla verið nokkrum vafa undirorpið, að Danir viðurkenni þetta einnig nú orðið, því að hvorir tveggja, Danir og Íslendingar, munu nú orðið nokkru fróðari um nauðsyn og nytsemi sambands landanna heldur en var fyrir ófriðinn.

Íslendingar munu nú allir hafa sannfærst um það, að vjer höfum bæði getu og gáfur til þess að fara með öll vor mál án íhlutunar annara, og augu Dana ættu einnig að hafa opnast fyrir því, að það eitt, að þeir að fullu viðurkenni þetta, getur haldið við sambandi milli ríkjanna, Íslands og Danmerkur.

Það hefir verið gert ráð fyrir því, að þetta þing gerði verulega gangskör að því að fá íslenskan siglingafána, og er það auðvitað svo sjálfsagt, að naumast ætti að þurfa mikið um það að ræða. Að sjálfsögðu erum vjer einhuga um það. Að minsta kosti bendir tillagan einmitt til þess. En fáninn er ekki nema eitt spor í áttina, og því alls ekki takandi í mál, að þingið ráði ekki ráðum sínum um hin önnur fullveldismálin.

Vjer tillögumenn teljum auðvitað sjálfsagt, að þessi till. verði samþ. í einu hljóði, því að fyrsta og helsta skilyrðið til þess að koma fram vilja vorum er það, að vjer stöndum óskiftir. Enda dettur víst engum annað í hug, þar sem till. þessi er í fullu samræmi við yfirlýsing ráðuneytisins, þegar það tók við stjórn landsins, en þá lýsti hæstv. forsætisráðherra yfir því, að stjórnin »vildi vinna að því af fremsta megni, að þjóðin næði fullum yfirráðum yfir öllum sínum málum«. Nú vona jeg, að tækifæri verði fyrir hæstv. stjórn að sýna, að henni hafi verið full alvara.

Ef jeg hefði getað við það ráðið, þá hefði jeg kosið helst, að samhljóða tillaga hefði jafnsnemma komið fram í hæstv. Ed., en þótt jeg hafi fært það í mál við einstaka menn úr Ed., þá hefir ekki enn orðið úr því, en jeg er þess fullviss, að þess verði ekki langt að bíða, frá jafnvöldu liði, sem þar er saman komið. Sú deildin mun aldrei verða eftirbátur í því að sýna, að vjer viljum standa einhuga og samtaka að því að ná öllum vorum málum í eigin hendur og fá viðurkenning fullveldis vors.

Engum getur heldur komið á óvart, þótt þessi till. kæmi fram, og öllum ætti að vera það gleðiefni. Samþyktir á þingmálafundum í Strandasýslu, og reyndar víðar, bentu ótvírætt í þá átt, að þessu yrði hreyft.

Og jeg vildi að endingu óska þess, að allir háttv. alþingismenn gætu orðið jafneinhuga og óskiftir í þessu sem kjósendur mínir eru. Þá verður góður árangur af þessari nefndarskipun og drengilegur afspurnar utan lands og innan.