06.07.1917
Neðri deild: 4. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 10 í C-deild Alþingistíðinda. (2420)

20. mál, sala þjóðgarða, sala kirkjujarða

Þorleifur Jónsson:

Mín skoðun á þessu máli er sú, að það sje athugaverð stefnubreyting, ef ætti að fara að hefta þjóðjarðasölu fyrir fult og alt. Jeg veit ekki betur en að það hafi hingað til verið vilji þjóðarinnar, að ábúendum væri gefinn kostur á að fá ábúðarjarðir sínar keyptar. Það hefir verið margra skoðun, að þetta væri öruggasta leiðin til að fá landið vel ræktað, og að landbúnaðurinn blómgaðist því betur, sem fleiri væru sjálfseignarbændur. Jeg gæti fyrir mitt leyti vel felt mig við, að söluheimildinni væri skotið á frest, eins og hæstv. forsætisráðherra (J. M.) gat um, meðan stendur á fasteignamatinu. Við rjett og óvilhalt mat mundi fást ábyggilegur grundvöllur til að byggja söluna á. En jeg vil alls ekki, að salan sje heft fyrir fult og alt. Mjer þætti vænt um, ef nefnd sú, sem væntanlega fær málið til meðferðar, vildi íhuga, hvort ekki væri sanngjarnt, að þeir menn, sem þegar hafa fengið ábúðarjörð sína virta og hafa í höndum meðmæli sýslunefnda, fengi að kaupa nú þegar áður en lögin ganga í gildi. Sú virðing hefir farið fram áður en rugl komst á peningaverðið, og þessir menn hafa kostað virðinguna í þeirri von, að þeir fengi jarðirnar keyptar. Jeg veit um menn, er fyrir tveim árum hafa fengið metnar ábúðarjarðir sínar og hafa í höndum meðmæli sýslunefnda. Þetta tel jeg rjett að nefndin athugi. Mjer þætti illa farið, ef hætt yrði með öllu að selja þjóðjarðir, því að jeg tel þjóðjarðasöluna hafa stutt að ræktun landsins.