06.07.1917
Neðri deild: 4. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 20 í C-deild Alþingistíðinda. (2425)

20. mál, sala þjóðgarða, sala kirkjujarða

Benedikt Sveinsson:

Jeg ætla mjer ekki að fara út í það atriði, hvort aðhyllast beri þjóðjarðasölu eða eigi; hygg þó, að ef jeg hefði átt sæti á þeim þingum, er um það fjölluðu, þá hefði jeg orðið mótfallinn sölu, — þó að eins með því skilyrði, að kjör ábúenda hefðu verið bætt að mun, svo að ábúðarrjetturinn hefði getað orðið þeim sem hagfeldastur og sem minstur munur á sjálfsábúð og byggingu. Það hefir oft verið talað um að bæta svo kjör leiguliða, að þeir sæktust minna eftir að kaupa ábúðarjarðir sínar, en ekkert hefir verið gert í þá átt, að því er sjeð verði. Nú horfir nokkuð öðruvísi við um sölu þjóðjarða, þar sem lögin hafa staðið um allmörg ár og fjöldi manna fært þau sjer í nyt. Þetta frv. nær því varla tilgangi sínum, þeim að tryggja það, að miklar fasteignir haldist í eigu landssjóðs. Allar bestu jarðirnar hafa þegar verið seldar, og ekki eftir nema útkjálkajarðir og heiðarkot, að undantekinni einstaka jörð, sem sala hefir verið heft á, af því að hún hefir þótt hæf til almenningsnota og hefir þar þó oft ráðið meira „hreppapólitík“ og stjórnmálafylgi heldur en þarfir hjeraðsins. Ef frv. nær fram að ganga, kemur það allþungt niður á fátækustu mönnunum, sem á hinum jörðunum búa. Það, að þeir hafa ekki farið fram á að fá keyptar ábúðarjarðir sínar fyr en nú, stafar ekki af verðfalli peninganna, eins og hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) hjelt fram, heldur hinu, að þeir hafa ekki haft efni á því að kaupa jarðirnar, þótt þeir vildu. En þeir hafa haft hag af styrjöldinni og því orðið færari um að kaupa en áður. Ef hagur þeirra hefði verið betri fyrir styrjöldina, hefðu þeir vafalaust sótt um kaup. Jeg tek í sama streng og hv. þm. að það er hart fyrir þá, sem hafa lokið öllum undirbúningi undir kaup, að vera nú alt í einu sviftir rjetti sínum, en ekkert hefir verið til fyrirstöðu áður. Ýmsir þeirra hafa verið búnir með allan undirbúning, hafa kostað til að meta jarðirnar, fengið sjer umboðsmann hjer í Reykjavík, til þess að annast kaupin, og svo þegar til kemur, dregur stjórnin þá á kaupunum þangað til þing er komið saman, en þá er ný stefna uppi, mennirnir eru dregnir á tálar og öll fyrirhöfn þeirra til ónýtis. Þeir hafa starfað með það fyrir augum að fá kauparjett á ábúðarjörð sinni, en svo þegar til kemur, er alt um garð gengið og þeir fá ekkert, en hefðu ef til vill verið búnir að kaupa sjer aðra hentugri jörð, ef þeir hefðu ekki haft von um þjóðjörðina. Mjer finst, að stjórnin hefði átt að koma fram með endurbótatillögur á ábúðarlöggjöfinni jafnframt þessu frumvarpi.

Höfuðástæða sú, er hæstv. forsætisráðherra færði fyrir frv. og einnig er fram tekin í athugasemdum stjórnarinnar við það, — verðfall peninga eða óvíst peningaverð — finst mjer harla ljettvæg. — Fyrst og fremst hafa jarðirnar verið metnar eftir afgjaldi o. fl., samkvæmt lögunum og síðan færðar upp. Efnuðustu landsetar landssjóðs keyptu fyrst og komust að bestum kaupum; síðan hafa jarðirnar verið metnar hærra, og eru því lakari jarðirnar seldar tiltölulega talsvert dýrara.

Verðfall peninga kemur í þessu sambandi alls ekki til greina, því að andvirði jarðanna er fyrst og fremst ekki greitt nú, nema að eins að einum tíunda hluta, heldur með afborgun á 28 árum, — og í annan stað er þessi tíundi hluti jarðarverðsins lagður í fastan sjóð, eins og alt andvirði jarðanna, en er alls enginn eyðslueyrir, er varið sje fyrir vörur eða annað, er nú stendur í háu verði. Krónurnar eru og verða eign sjóðsins og honum alveg jafnmikils virði í bráð og lengd, hvort sem „verð á peningum“ hefir verið hærra eða lægra, þegar þær voru sjóðnum greiddar. Þær hundrað kr., sem sjóðurinn eignaðist fyrir styrjöldina, eru honum engu mætari nje verðmeiri en hinar hundrað krónurnar, sem hann kann að eignast í dag. Það er því hugsunarvilla að tala um verðfall á slíkum peningum. Annað mál er það, ef jörðin væri útborguð í dag og fyrir andvirðið ætti að kaupa kaffi og sykur eða rúsínur tvöföldu verði. En þessu má með engu móti blanda saman.

Í kjördæmi mínu hefir verið heft sala á ýmsum jörðum, og ekki trútt um, að stundum hafi þar ekki þótt kenna fulls jafnrjettis milli stjórnmálaflokkanna, en út í þá sálma skal jeg ekki fara hjer. Hitt er víst, að þar í hjeraði mundu bændur kunna því illa, ef sala þjóðjarða og kirkjujarða yrði dregin á langinn eða heft, eins og frv. stefnir að, og mundu fremur óska, að Alþingi drægi ekki úr stjórninni að selja þær jarðir, sem landssjóði er ekki eftirsjón í og ekki kemur í bága við hagsmuni almennings, að hann láti af hendi.