06.07.1917
Neðri deild: 4. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 28 í C-deild Alþingistíðinda. (2429)

20. mál, sala þjóðgarða, sala kirkjujarða

Pjetur Þórðarson:

Jeg bjóst satt að segja ekki við, að umræðurnar um þetta mál teygðust svo mjög, sem raun er á orðin. Jeg ætlaði mjer ekki að taka til máls en af því að einn háttv. þm., sem er umboðsmaður þjóðjarða (Sv. Ó.), tók það fram, að þetta mál ætti ekki heima hjá landbúnaðarnefnd, þá datt mjer í hug, ef svo kynni að fara, að jeg fjallaði ekki um málið í nefnd, að rjett væri, að jeg ljeti nú þegar í ljós það álit mitt, að því meira sem menn eru hindraðir í því að eignast ábýlisjarðir sínar, því meira tjón hlýst þjóðfjelaginu í heild sinni af því. Jeg get annars verið stuttorður, því að hv. l. þm. Húnv. (Þór. J.) hefir tekið flest það fram í seinni ræðu sinni, sem jeg vildi sagt hafa.

Jeg hefi komið á hvert heimili í minni sýslu og skoðað hverja einustu jörð og alt, sem þeim heyrir til, og hefi jeg jafnan getað sagt það fyrirfram, hvort hver einstök jörð væri í sjálfsábúð eða leigujörð. Þær jarðir, sem eru opinber eign, eru venjulega meira eða minna niður níddar og vanhirtar, og ætti því fremur að ýta undir menn að eignast ábýlisjarðir sínar en að hindra menn í því. (Sigurður Sigurðsson: Jeg hefi sjeð jarðir í sjálfsábúð þar sem túnið var á sínu). Það eru kann ske til undantekningar, en hitt er áreiðanlega reglan, að þær jarðir, sem í sjálfsábúð eru, eru mun betur ræktaðar og hirtar heldur en hinar. Og jeg geri ráð fyrir, að það mæti mjög mikilli mótspyrnu að hætta að selja jarðir hins opinbera, og þá sjerstaklega þær jarðir, sem menn eru búnir að kosta miklu til að umbæta og undirbúa að fá keyptar. Það er t. d. áreiðanlega víst um þær mörgu kirkjujarðir, sem seldar hafa verið í mínum hreppi, að þær hafa, jafnóðum og þær hafa komist í sjálfsábúð, tekið greinilegum stakkaskiftum. Hinar hrekjast milli snauðra manna, eftir því sem eftirlitsmaðurinn hefir sjeð sjer haga bezt í þann og þann svipinn, og ganga æ meir og meir úr sjer, einmitt vegna þess að þær hafa ekki fengist keyptar. Menn hafa oft og einatt staðið í stímabraki með að fá samþykki sýslunefndar til sölu jarða, en að því fengnu hefir svo staðið á því svo að misserum skiftir að fá frá stjórnarráðinu ýmislegt, er að sölunni lýtur. Jarðirnar hafa svo beðið eftir því, að þeim væri sómi sýndur, þangað til menn hafa loks getað klófest þær, en þá hefir þess ekki verið langt að bíða, að þær tækju miklum umbótum. Jeg veit með vissu, að sumar opinberar jarðeignir halda áfram að vera í niðurlægingarástandi þangað til þessari hindrun verður rutt úr vegi.

Jeg sje svo ekki ástæðu til að lengja umræðurnar frekara. Býst við, að við hv. 1. þm. Árn. (S. S.) stöndum á öndverðum meiði í þessu máli, hvort sem umræður verða lengri eða skemri. Að lokum skal jeg leyfa mjer að mæla með því, að málinu verði vísað til landbúnaðarnefndar.