20.07.1917
Neðri deild: 15. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 40 í C-deild Alþingistíðinda. (2436)

20. mál, sala þjóðgarða, sala kirkjujarða

Þórarinn Jónsson:

Það eru rjett örfá atriði, er jeg vildi drepa á. Hv. 1. þm. Árn.

(S. S.) vitnaði í minni hluta álit frá þinginu 1915. Þar er aðalástæðan móti þjóðjarðasölunni talin sú, að mönnum sje beint gefið fje, þar sem jarðirnar sjeu seldar með altof lágu verði. Hv. l. þm. S.-M. (Sv. Ó.) gekk svo langt að fullyrða, að jarðirnar væru venjulega seldar fyrir ¼ af sannvirði þeirra. Það er næstum óhugsandi, að þessar athugasemdir sjeu á rökum bygðar, og alveg fráleitar þar sem jeg þekki til. Í lögum um þjóðjarðasölu er matsmönnunum gert að skyldu að taka tillit til þess, hvað jarðir eru seldar í sama bygðarlagi. Þetta gerir, að þjóðjarðir hljóta að hækka jöfnum fetum og aðrar jarðir. Umboðsmenn eru og ávalt vanir að benda á, ef þeim finst oflágt virt. Þessi tvö atriði ættu að valda því að jarðirnar kæmust upp undir sannvirði. Hægt væri að nefna mörg dæmi því til sönnunar, að landssjóðsjarðir sjeu ekki seldar miklu lægra verði en aðrar jarðir, eins og fullyrt er. Jeg þekki mörg dæmi til, að stjórnarráðið hafi tekið í sama strenginn, þegar umboðsmenn hafa drepið á, að hagur landssjóðs hafi ekki verið tekinn nægilega til greina. Komi landsstjórnin líka auga á, að matsmenn hafi ekki rækt skyldu sína, getur hún sjálf hækkað verðið.

Hæstv. atvinnumálaráðherra tók fram, að nú væri ekki ástæða til að ræða nein grundvallaratriði þjóðjarðasölumálsins, en frestunin sje ákveðin til þess, að tími vinnist til að ræða síðar vandlega, hvort sölunni skuli hætt eða haldið áfram. Það er náttúrlega rjett að halda þessu fram; frv. nær þá betur fram að ganga. En jeg fæ ekki betur sjeð en að í athugasemdum stjórnarinnar við frumvarpið liggi þessi stefnubreyting til grundvallar, að sölunni skuli hætt.

Það er skylt að líta á, hvílíks misrjettis væri stofnað til með þessu frv. Flestar betri jarðir hafa þegar verið seldar. Það eru því verðminni jarðir, sem eftir eru. Ef ábúendum þessara jarða er nú alt í einu tilkynt, að jarðirnar fáist ekki, er þeim gert mjög rangt til, ekki síst þar sem fátækt hefir oft valdið, að þeir eru ekki þegar búnir að kaupa ábýlisjarðir sínar, eins og búendurnir á stærri jörðunum.

Stjórnin hefir öll skilyrði til að bæta úr göllunum á meðferð þjóðjarðasölulaganna. Hún getur brýnt fyrir sýslunefndum að fylgja fast fram öllum ákvæðum, er að þeim lúta. Stjórnin getur og sjálf tekið í taumana, hve nær sem henni virðist þörf á, en hún á ekki að teppa söluna algerlega. Ef betri jarðir, sem væru hentugar til að skifta í smábýli, eru falaðar, þarf hún ekki að selja þær, samkvæmt lögunum. En yfirleitt held jeg, að jarðir sjeu betur komnar í höndum einstakra manna en í höndum landsstjórnarinnar. (S. S.: Ekki er það alstaðar á landinu). Víðast hvar er mikill munur. Jeg veit, að hv. 1. þm. Árn. er svo kunnugur um land alt, að hann hefir varla sagt þetta af fullri sannfæringu. Þess eru mörg dæmi, að menn hafi byrjað miklar jarðabætur strax er þeir voru búnir að kaupa.

Hv. 1. þm. S. M. (Sv. Ó.) hneykslaðist á, að nefndin telur eftirlit með landsjóðsjörðum víðast hvar bágborið. Jeg get staðfest ummæli nefndarinnar. Jeg hefi eigi óvíða orðið var við, að umboðsmenn hafa ekki rækt skyldu sína. Þeim er oft ant um að fá eftirgjaldið og taka sjötta hlutann frá handa sjálfum sjer, en ekki eins um að bæta kjör leiguliðanna, eða að jarðirnar sjeu vel setnar. Jeg hefi rekið mig á, að ýmsar umbætur á landssjóðsjörðunum eru oft einstakasta kák, sem einungis er stofnað til til að ná í styrk, t. d. byggingar. Eins er það þar sem leiguliðar inna af hendi jarðabótaverk upp í eftirgjaldið. Þeir vita ekki, hve lengi þeir sjálfir njóta jarðabótanna; finst þeir bara vera að borga árleg gjöld. Og þá er að sleppa eins ódýrt og hægt er.

Hæstv. fjármálaráðh. (B. K.) gat þess, að fyrir lægju 80-90 beiðnir um kaup á jörðunni. Jeg hygg, að þar sje mest um smájarðir að ræða. Það væri ekki lítið misrjetti fyrir ábúendurna, ef þeim væru nú bönnuð kaupin alt í einu.

Á það er og að líta, að alt sem lýtur að námum og námurjettindum, er undan skilið í kaupunum, þegar landssjóðsjarðir eru seldar. Svo að ekki eru líkur til, að landið tapi neinu á að selja jarðir til manna, sem sitja þær betur, er þeir hafa eignast þær sjálfir.