20.07.1917
Neðri deild: 15. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 44 í C-deild Alþingistíðinda. (2438)

20. mál, sala þjóðgarða, sala kirkjujarða

Jörundur Brynjólfsson:

Þegar þetta mál var hjer til 1. umr., ljet jeg það hlutlaust. Nú vil jeg byrja ræðu mína með því að þakka hæstv. stjórn fyrir frestun þjóðjarðasölunnar og sömuleiðis fyrir frv.

Það er við að búast, að skiftar sjeu skoðanir um mál þetta, því að stutt er síðan það kom á dagskrá þjóðarinnar, að hætta þjóðjarðasölu. Menn eru því ekki til fulls búnir að átta sig á málinu.

Meðhaldsmenn þjóðjarðasölunnar halda því fram, að það muni auka jarðrækt og landbúnaðarframfarir, ef sölunni sje haldið áfram. Jeg hefi jafnvel heyrt jarðabætur þær, er gerðar hafa verið á síðustu árum, settar í samband við þjóðjarðasöluna. Menn hafa tekið rögg á sig, er þeir urðu eigendur jarðanna. Vera kann, að einhver rök mætti færa fyrir þessu, en jeg hygg þó, að þar sjeu aðrar ástæður.

Það er öllum kunnugt, er kynt hafa sjer búnaðarháttu á síðustu árum, að tíðarandinn hefir mjög breyst. Menn eru orðnir framtakssamari og duglegri en áður. Held jeg, að það hafi ráðið meiru í þessu efni en það, sem sjálfseignarábúðin hefir aukist. Jeg held, að meðhaldsmenn sölunnar hafi gert oflítið úr göllunum, sem henni eru samfara. Skoðun mín er sú, að hverju landi muni hollast að eiga sem mest af jarðeignum, hvað sem öðrum fyrirtækjum líður. Reynsla annara þjóða sannar það áþreifanlega, og sömuleiðis okkar stutta reynsla síðan framfarir þær, sem teljandi eru, hófust. Jeg skal nefna eitt dæmi, og það er verðhækkun sú, er leiðir af ýmsum framkvæmdum í stórum stíl, hvort sem gerðar eru af hinu opinbera eða einstökum mönnum. Í grendinni þarf oft að reisa bæi eða dýrar byggingar, sem næst þeim stað, þar sem fyrirtækið er rekið. Fyrir aukna atvinnu fjölgar fólkinu, og því meiri og víðtækari sem atvinnureksturinn er, þess meiri mannafla heimtar hann. Þetta skapar fólksfjölgun. Fólkið þarf, ef vel á að vera, að fá jarðarblett til umráða. Ekki einungis undir húskofa handa sjer, heldur einnig til ræktunar. En það er erfitt að fá land í námunda við þann stað, þar sem atvinnan er rekin; landið hækkar í verði, og þeir, er vilja fá það, verða að borga meira en þeir geta staðið straum af, ef privatmenn eiga það, eða atvinna þolir. Jeg hygg, að þeir, sem sölunni fylgja, hafi ekki minni trú á framförum hjer á landi en við hinir, en jeg held, að þeir taki ekki nægilegt tillit til ýmiskonar áhrifa, er ýmsar framkvæmdir hafa í för með sjer.

Jeg skal nefna til dæmis verðhækkun jarða hjer í grend við bæinn. Auðvitað er mjer ljóst, að ekki dugir að bera saman jarðir úti um land og hjer í Reykjavík, eins og nú standa sakir. En jeg er þeirrar trúar, að svo muni fara víðar við sjó og ef til vill upp til sveita, að þar verði byrjað á framkvæmdum, og af því leiði verðhækkun. Um aldamótin minnir mig, að öll Arnarhólseignin hafi verið metin á 50.000 kr., en menn geta rent grun í hvað hún muni kosta nú, er hver feralin er seld á 8—12 kr.

Eitt sinn gafst Reykjavíkurbæ kostur á að kaupa Elliðaárnar fyrir 16 þús. kr. Því boði var hafnað, en svo voru þær keyptar síðar á. 140 þús. kr. Árnar höfðu ekki breyst, en framfarir höfðu orðið, og menn höfðu nú betri skilning á gagni því, er af þeim má hafa.

Skildinganes fjekst einu sinni, að mig minnir, á 5 þús kr. En nú er sagt, að það kosti 50 þús. kr. Landakot var eitt sinn fáanlegt fyrir 14 þús. kr., en nú mun jafnvel óhætt að tífalda þá upphæð eða enn meira. Jarðir hjer í grend, bæði á Álftanesi, Seltjarnarnesi og í Mosfellssveit hafa hækkað mjög í verði. Er það auðvitað vegna þess, að svo nálægt bænum hafa ábúendur þeirra greiðari og betri markað fyrir framleiðslu sína. En eins og jeg drap á áður, bíður þetta vonandi margra staða hjer á Íslandi.

Enn fremur ber að líta á þann ókost, að jarðeignir þessar ganga kaupum og sölum með óeðlilega háu verði. Menn kaupa þær ofháu verði í þeirri von, að framleiðslan borgi. Af því leiðir, að þeir verða að selja framleiðsluna afardýru verði. Þetta vill oft einmitt tefja fyrir framförunum. Vafalaust geta menn hjer í grend við Reykjavík ekki lagt eins mikið í jarðabætur, ef þeir þurfa að leggja svo og svo mikið af arðinum í vexti og háar afborganir. Alstaðar þar sem miklar framfarir verða er hætta á, að eignirnar komist í fárra manna hendur. Þeir eiga þær nokkra stund og halda þeim í afarháu verði. Ef kaupendurnir hafa ekki nóg gjaldþol, verða þeir öreiga. Jarðarverðið helst óbreytt. Lánardrotnarnir, er hafa þær að veði, neyðast til að halda þeim í sama verði áfram.

Svo þegar menn koma og setjast að á þessum stöðum, er ómögulegt að fá jarðnæði, ef einstakir menn eiga jarðirnar. Verðið eða leigan er svo gífurleg, að ekki nær nokkurri átt. Hygg jeg, að hv. landbúnaðarnefnd hefði með nægilegri athugun komist að þeirri niðurstöðu, að þegar sje tími til kominn að hætta þjóðjarðasölu fyrir fult og alt. Hv. 1. þm. Húnv.

(Þór. J.) gat þess, að það væri ósanngjarnt vegna þeirra, er hefðu nú óskað að fá jarðir keyptar. Það er sama sem að segja að ekki megi snúa við, úr því að komið sje út á þessa braut, sem æskilegast hefði verið, að aldrei hefði verið lagt út á.

Jeg tel það besta ráðið í þessu máli að bæta að stórum mun kjör leiguliða, og gera þeim eins hægt fyrir með ábúð og mest má verða. Er jeg viss um, að niðjar vorir mundu kunna oss þökk fyrir að stíga slíkt heillaspor. Meðhaldsmenn sölunnar vitna til þess, að landssjóðsjarðir sjeu svo illa setnar. En það er má ske að kenna þeim kjörum, er ábúendur þeirra eiga við að búa, og svo er alls ekki sama hver ábúandinn er. Jeg hygg, og hefi reyndar vissu fyrir, að margar þjóðjarðir sjeu engu ver setnar en sumar sjálfseignarjarðir. Það mun vera upp og ofan.

Að lokum fá orð viðvíkjandi sjálfsábúð. Jeg þekki stórbændur, er náð hafa eignarhaldi á mörgum jörðum og hafa lagt þær undir aðaljörðina, er þeir hafa búið á, og hafa jarðirnar við það komist í mestu órækt. Svo að þessi tilraun til að auka ræktun í landinu með þjóðjarðasölu getur orðið til hins gagnstæða. Jeg get bent t. d. á jörðina Elliðavatn, sem ekki er bygð lengur, og svo er með margar jarðir.