01.08.1917
Neðri deild: 22. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 59 í C-deild Alþingistíðinda. (2446)

20. mál, sala þjóðgarða, sala kirkjujarða

Forsætisráðherra (J. M.):

Það er orðið langt síðan fyrri partur umræðunnar stóð yfir. Jeg stóð upp til að taka undir þau orð hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.), að þetta frv. sje ekki annað en fyrirspurn til þingsins um, hvort ekki skuli frestað þjóðjarðasölunni, svo að tími gefist til að íhuga, hvort henni skuli hætt eða haldið áfram. Um hitt, hvort rjett sje að halda áfram eða hætta að selja, er ekkert sagt í frv. Þess vegna er það óþarft að vera nú að fara út í þá sálma.

Það vakti fyrir stjórninni, að peningaverðið er svo óvíst nú, að rjett væri að bíða nokkra stund til að sjá, hvort það festist ekki. Ef hv. deild fellir frv., verður sölunni haldið áfram, og það verður á ábyrgð deildarinnar, ef landssjóður bíður skaða af sölunni. Annað en þetta vakti ekki fyrir stjórninni með þessu frv.

Hitt er annað mál, að ráðuneytið er á þeirri skoðun, að heppilegast sje að hætta sölu þjóðjarða. Jeg teldi heppilegast, að það kæmist á, að landið eða þjóðin ætti allar jarðeignir. En það mun eiga langt í land. Það er fyllilega rjett, að landssjóður þarf að eignast sem víðtækastan forkaupsrjett að öllum jarðeignum. Margt bendir og til, að hugur landsmanna sje að hverfa frá þjóðjarðasölunni. Á fundi sýslunefndar Árnessýslu kom það fram í vetur, að sýslunefndin teldi sjer að vísu ekki fært að neita um meðmæli með sölu á kirkjujörð, sem þá var föluð, en nefndin teldi sölu þjóðjarða þó yfirleitt óholla og óráðlega.

Jeg vildi bara leggja áherslu á, hvað hjer er eiginlega um að ræða, og taka undir með hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.). Jeg get ekki sjeð, að hægt sje að ámæla stjórninni fyrir, að hún vildi skjóta þessu máli til þingsins.