01.08.1917
Neðri deild: 22. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 62 í C-deild Alþingistíðinda. (2448)

20. mál, sala þjóðgarða, sala kirkjujarða

Framsm. meiri hl. (Jón Jónsson):

Jeg vil finna að því, hve lengi hefir dregist að koma þessu máli aftur til umræðu. Jeg skil ekki, að nokkur ástæða hafi verið til þessa dráttar, nema það hafi verið gert vegna stjórnarinnar.

Nokkuð kynlegt finst mjer, að hv. þm. Dala. (B. J.) hefir nú aðra skoðun á þessu máli en hann hafði 1915. Hæstv. fjármálaráðh. (B. K.) varaði deildina við að snúast gegn þessu máli, áleit að þm. þyrftu að hugsa sig vel um, vegna þess, hve margar jarðir hefir verið sótt um til stjórnarráðsins; þær yrðu allar seldar ef frv. væri felt. Þessu er ekki öðru en því að svara, að meiri hluti nefndarinnar heldur því eindregið fram, að frv. eigi að fella og selja jarðirnar óhikað Vera má, að við sjeum nú orðnir í minni hluta hjer í deildinni, en þetta er okkar skoðun og meiri hluta allra bænda á landinu. Það er nokkuð djarft af mönnum, sem aldrei hafa við búskap fengist, að fullyrða nokkuð um þetta efni.

Vel mætti ganga svo frá, að jarðir, sem seldar eru, komist ekki úr sjálfsábúð eða safnist á hendur útlendra eða einstakra innlendra manna. En til þess þarf að gera forkaupsrjettinn víðtækari.

Það er alveg rjett, sem hæstv. forsætisráðherra sagði, að ekki er hægt að ámæla stjórninni fyrir að bera fram frv. Stjórnin hefir farið svo hógvært í sakirnar með frumvarpinu, að við framkomu hennar er ekkert að athuga.

Í umræðunum hefir komið fram sú skoðun, að ekki ætti að eins að hætta að selja þjóðjarðirnar, heldur ætti og að koma sem flestum jörðum í hendur landsstjórnarinnar. Þetta er einkennileg skoðun, hálfgerður „socialismus“, að því er mjer helst virðist.

Það er hinn mesti misskilningur hjá hv. þm. Dala. (B. J.), að það sje nauðsynleg sjálfstæðisstefna að koma öllum jörðum undir landssjóð og gera bændur að leiguliðum. Þótti mjer þetta sjerstaklega einkennilegt hjá þessum hv. þm„ sem lætur sjer svo ant um sjálfstæði landsins. Hann hlýtur þó að finna, að aðalskilyrðið fyrir sjálfstæði þjóðarinnar er, að einstaklingarnir sjeu sem sjálfstæðastir. Svona hefi jeg skilið hugsanagang hans áður, en nú virðist hann vera búinn að snúa við blaðinu.

Hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) leit einkennilega á veðhæfi landssjóðs. Jeg hefi aldrei heyrt áður, að það væri lífsspursmál fyrir landið að hafa jarðir, til að geta lagt að veði fyrir lánum erlendis. Þá gefur að skilja, að rekið getur að því, að landið verði alt ofurselt útlendu peningavaldi, ef sú leið er farin; lengra má ekki fara í því efni en að gefa veð í tekjum landsins, og er þó fulllangt gengið.

Lengi má þrátta um það, hverjar jarðir eru best setnar, hvort heldur þær, er leiguliðar búa á, eða sjálfseignarbændur. Um það höfum vjer ekki fullkomnar skýrslur. En þeir, sem búa úti um sveitir, álíta, að sjálfseignarbændur sitji betur jarðir sínar, láti sjer annara um þær og sjeu ánægðari með lífið en hinir. Og einmitt þessir erfiðu tímar geta leitt til þess, að menn flosni upp og flæmist burt úr sveitunum, einkum ef þeir eiga ekki jarðirnar. Og það eitt ætti að vera næg ástæða til að láta menn hafa jarðirnar til sjálfsábúðar, að þeir leggja þá meiri stund á ræktun landsins. Menn eru víst sammála um mikilvægi þess, að menn sjeu heldur kyrrir í landinu, og geri sitt til að rækta það, en flæmist ef til vill í aðra heimsálfu.

Jeg veit, að stjórninni má vera nokkurn veginn sama, þótt þetta frv. verði felt. Hún gefur að vísu í skyn í umr„ að hún vilji, að þjóðjarðasölu sje hætt, en tekur samt svo laust á málinu, að hún mun ekki taka sjer nærri, hvernig um það fer. Og hver svo sem afstaða hennar er til sölu landssjóðsjarða, mun jeg óhikað halda fram þeirri skoðun, að deildinni beri að leggjast móti því, að sölunni sje hætt.