13.08.1917
Neðri deild: 32. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 74 í C-deild Alþingistíðinda. (2457)

143. mál, verðhækkunartollur

Sigurður Sigurðsson:

Það má nú að vísu segja, að það sje ekki búmannlega að verið að fella frumvörp, sem miða að því að auka tekjurnar, en auka í þess stað stöðugt útgjöldin, að þörfu og óþörfu. En jeg get ekki að því gert, að mjer finst hæstv. stjórn vera miður heppin í tilraunum sínum til þess að bæta tekjur landssjóðs. Hún hefir lítið borið fram af frumvörpum í þá átt, og þau fáu, sem komið hafa frá henni, hafa verið tvíbent, eins og þetta, — vafasamt hvort talist geti hyggileg. Einstakir þingmenn hafa aftur á móti verið að reyna að bæta úr tekjuskortinum. Fyrst var borið fram frv. til laga um stimpilgjald, sem hæstv. forsætisráðherra fræðir nú um, að sje í dauðateygjunum í Ed. Því næst flutti jeg frv. um útflutningsgjald af síld, en það hefir ekki komist á dagskrá enn þá, og má eins vel búast við, að það sofni. Loks flutti háttv. þm. Dala. (B. J.) frv. um misærisskatt. Er það ágætt mál í alla staði, og vonandi, að því vegni vel. Mjer þykir undarlegt, að hæstv. stjórn skuli nú koma með þetta mál. Eins og hv. þm. Stranda. (M. P.) tók fram, er tollur sá, sem hjer ræðir um, rjettnefndur útflutningstollur. Jeg hefi verið að vonast eftir frá stjórninni tekjuskattsfrumvarpi, þar sem lagður væri á skattur, sem færi hækkandi eftir hækkandi tekjum. Það munu nú flestir sammála um, að sú leiðin sje eðlilegust og að allir mættu una því vel, að skattar væru lagðir á eftir þeirri reglu. Það er nú, eins og kunnugt er, mál manna, að sumir hafi orðið stórauðugir síðan ófriðurinn hófst, einkum kaupmenn og útgerðarmenn. Á því er varla nokkur efi, að kaupmenn hafa grætt mikið á ófriðnum. Það má ráða meðal annars af því, að áður var það altítt, að kaupmenn færu á höfuðið, en síðan stríðið hófst hefir varla nokkur kaupmaður orðið gjaldþrota, heldur þvert á móti, allir stórgrætt. Þess vegna væri eðlilegt, að fram kæmi frv. um það, að þeir, sem miklar tekjur hafa, legðu til landssjóðs í hlutfalli við þær. En að leggja útflutningstoll á vörur, sem ósannað er að svari kostnaði að framleiða, finst mjer hæpin leið. Jeg get því ekki verið með frv., sjerstaklega ef kjötið ætti að vera með. Það tel jeg alveg óhæfu, þar sem borgaður hefir verið tollur af því einu sinni oftar en öðrum vörum, eins og hæstv. forsætisráðherra tók fram. Jeg er því ekki mótfallinn, að málinu sje vísað til nefndar. En mjer er sagt, að fjárhagsnefnd sje andvíg frv. og væri því ástæðulaust að vísa málinu til hennar.