28.08.1917
Efri deild: 41. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 667 í B-deild Alþingistíðinda. (246)

3. mál, fjáraukalög 1916 og 1917

Halldór Steinsson:

Jeg á brtt. á þgskj. 633, sem fer í þá átt, að styrkurinn til Breiðafjarðarbátsins verði hækkaður um 1000 kr.

Tilefnið til þessarar fjárveitingar er, að stjórn Breiðafjarðarbátsins fór fram á það við þingið, að veittar yrðu 6000 kr. í aukafjárlögunum til bátsins, aðallega vegna þess, að fjelagið hafði tapað á ferðunum þetta ár. En þetta tap stafaði af því, að báturinn var látinn halda uppi ferðum yfir veturinn, til þess að bæta úr samgönguleysinu; en á vetrarferðunum skaðaðist fjelagið mest.

Jeg sá mjer ekki fært að fá styrkinn hækkaðan upp í 6000 kr., eins og farið var fram á í fyrstu, en vildi heldur fara meðalveginn, og fór því fram á 5000 kr. Jeg vonast því til að háttv. deild taki vel þessari beiðni, því að fylsta sanngirni virðist vera í því, að fjelaginu sje að einhverju leyti bættur sá halli, er það hafði af því að halda uppi vetrarferðum, sem það bar engin skylda til. Loks skal jeg þakka háttv. fjárveitinganefnd það, hversu vel hún hefir tekið beiðninni, og álít jeg, að jeg þurfi ekki að fjölyrða frekar um þetta mál.