13.08.1917
Neðri deild: 32. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 86 í C-deild Alþingistíðinda. (2466)

143. mál, verðhækkunartollur

Forsætisráðherra (J. M.):

Það gleður mig að heyra, að einn af hv. þm. hjer í deildinni hefir skilið rjett, hvað fyrir mjer vakti, þegar jeg gaf samþ. mitt til, að þetta frv. kæmi fram. Það er alveg rjett athugað, að frv. þetta snertir aðallega sjávarafurðir, fiskinn, en þær munu verða því nær allar seldar áður en lögin ganga úr gildi, og skaði eða ágóði af því fellur því allur í vasa kaupmanna. Öðru máli mun vera að gegna um kjötið, því að það mun ekki verða selt fyrir þann tíma. Jeg hefi ekkert talað um það, hvort stjórnin hafi mælt með eða móti því, að stimpilgjaldslögin næðu fram að ganga, heldur sagði jeg einungis það, að þau mundu verða gagnslítil fyrst í stað, því að kostnaður yrði svo mikill, vegna dýrtíðar, við að koma þeim í framkvæmd, og tekjur af þeim því litlar. Jeg hefi áður tekið það fram, að jeg áliti það ekki skyldu stjórnarinnar að koma með ný skattafrv. á þessum tímum; mjer finst ekki ára til þess nú. Þó játa jeg, að frv. hv. þm. Dala. (B. J.) virðist vera heppilegt, og að með því móti mætti ná töluverðum tekjum, en sá hængur er á því nú, að það mun að öllum líkindum vera ofseint nú, því að jeg hygg, að það sjeu fáir, sem græði mikið hjeðan í frá meðan stríðið stendur yfir, og tekjuskatturinn því ekki koma að notum. Að endingu vil jeg taka það fram, að jeg sje enga ástæðu til að vera hræddur við það, þótt landssjóður hleypi sjer í dálitlar skuldir nú á þessum erfiðu tímum; það er ekki meira en aðrar þjóðir hafa orðið að gera, og er okkur ekki meiri vorkun en þeim.