13.08.1917
Neðri deild: 32. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 87 í C-deild Alþingistíðinda. (2467)

143. mál, verðhækkunartollur

Þórarinn Jónsson:

Jeg nefndi víst áðan fyrsta jan. fyrir fyrsta júlí, og var því skotið að mjer út af því, að jeg hefði víst ekki lesið frv.

En jeg vil spyrja þá, sem þykjast hafa lesið það betur, er nokkur sönnun fengin fyrir því, að vörur þær, sem framleiddar hafa verið á þessu ári, verði fluttar út fyrir 1. júlí? Jeg hygg, að ekki sje hægt að benda á miklar líkur fyrir, að svo verði, eða hvernig er þetta nú? Vörur liggja hjer enn í stórum stíl frá í fyrra, og hver setur takmörkin um það, hvað af þessum vörum, sem óútfluttar verða í júlí næsta sumar, hefir verið framleitt fyrir 1. jan. og hvað ekki? Jeg tel alveg ómögulegt að fyrirbyggja, að ósamræmi eigi sjer stað, hve nær svo sem lögin falla úr gildi, og er því sú ástæða með frv. einkis virði. Hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) sagði í ræðu sinni áðan, að þörfin ætti að vera eini grundvöllurinn fyrir öllum skattaálögum. En það hefir ekki að þessu verið talið rjett, að skattar lentu á einstakri stjett manna, sem í þessu tilfelli eru framleiðendur, er nú geti ekki „þjenað“ á framleiðslunni, en aðrar stjettir, kaupm., embættism. og einhleypur verkalýður, eru alveg undanþegnar. En aðalundirstaða hvers skatts verður að vera sú, að hann komi sem jafnast niður.