10.09.1917
Neðri deild: 56. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 102 í C-deild Alþingistíðinda. (2480)

143. mál, verðhækkunartollur

Pjetur Jónsson:

Það fer nú að verða þýðingarlítið að tala í þessu máli, því menn hlusta ekki á það. Jeg ætlaði ekki að mæla mikið með brtt. minni, heldur ætlaði jeg að eins að taka það fram, gagnvart orðum hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) og 1. þm. Árn. (S. S.), að jeg er ófáanlegur til að fara að þræta aftur og fram um jafnrjetti og misrjetti á milli atvinnuveganna út af þessu máli. — Jeg skil ekki í að þeir tali þar fyrir hönd bændastjettarinnar, þegar þeir eru sífelt að metast fyrir hönd hennar um öll gjöld og ýta af henni. Það getur ekki verið til sóma eða í þágu bændastjettarinnar. Jeg þykist hjer geta talað fyrir hönd bændastjettar með meira rjetti en þeir og meiri kunnugleik. Og jeg held fram sanngirni metingslaust. Þetta held jeg öllum betri bændum sje fult eins geðfelt. Um síldina er það að segja, að við vildum ekki fella hana úr lögunum nú, þótt gjaldið af henni dragi lítið, ef ekki er nema um breska verðið að ræða.

En ef síldarafli batnaði til muna á meðan lögin standa, og einkum ef verðið hækkaði, án þess tilkostnaður ykist, þá gæti síldin orðið góður tekjustofn. Hitt var sjálfsagt nú, að hafa tollfrjálst af síldarverðinu eigi minna en það, sem nemur beinum tilkostnaði við reksturinn, og má vera að það sje linlega talið hjá okkur.