09.07.1917
Neðri deild: 6. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 109 í C-deild Alþingistíðinda. (2486)

31. mál, nauðsynjavörur undir verði

Sveinn Ólafsson:

Mjer þykir fyrir að þurfa að lýsa yfir því strax, að jeg get ekki aðhyllst þetta frumvarp. Mjer þykir fyrir því vegna flutningsmannsins, sem flytur það í góðum tilgangi, og vegna þeirra, sem hafa bygt vonir sínar á fyrirheitum þess. Jeg sje enga von til þess, að landssjóður gæti staðist slík útgjöld, sem þau, er frumvarpið geri ráð fyrir; þau eru svo yfirgengilega há, að slíkt hefir ekki þekst áður í fjárlögum hjer. Framkvæmd laganna yrði afar erfið; sjerstaka eftirlitsmenn yrði að hafa til að sjá um, að misbrúkun ætti sjer ekki stað. Í annan stað er ekki sjeð vel fyrir þeim, er mestrar hjálpar væru þurfandi, t. d. þeim, sem eigi gætu greitt lágmarksverðið. Yfirleitt yrði mestur þorri allra landsmanna rjettnefndir landsómagar, ef frv. þetta yrði gert að lögum.

Til að sýna hve gífurlega fjárupphæð þyrfti til að fullnægja fyrirmælum slíkra laga vil jeg benda á lauslegan útreikning, er jeg hefi gert.

Jeg tel þar þó aðeins rúg og rúgmjöl hveiti, haframjöl og sykur, og er í útreikningnum miðað við innflutning árið 1913; enn fremur er gert ráð fyrir að ? landsmanna fjelli undan, þar eð tekjur þeirra færu fram úr hámarkinu, sem sett er.

35000 tn. (2/3 af 52000) rúgur og rúgmjöl, 25 kr. verðhækkun á tunnu = kr. 875,000

16000 tn. (? af 24000) hveiti,

20 kr. verðhækkun á tunnu = — 320,000

7660 tn. (? af 11500) haframjöl,

30 kr. verðhækkun á tn. = — 229,800

30 aura verðhækkun á ?

hlutum af 2,516,200 kg. af sykri = — 50,000

Samtals kr. 1474,800

Þetta eru aðeins fáar tegundir af þeim, sem gert er ráð fyrir uppbót á. Enn fremur hefi jeg gert lauslegt yfirlit yfir kolanotkunina, og skal jeg nú gera grein fyrir útreikningi mínum á notkun þeirrar vöru. Kol handa 8096 heimilum (ca. ? af heimilatölu á landinu, sem alls er ca. 12143) 2 tons á heimili hvert = 16192 tons með 300 kr, verðhækkun (frá 100 í 400. kr. nú). Uppbótin mundi þá nema 4,857600 kr. Með öðrum orðum; eftir þessari lauslegu áætlun er uppbótin á þessum fáu tegundum yfir 6 miljónir króna. Ef þetta er rjett, sem jeg fyrst um sinn verð að halda, að sje nær sanni, þá þyrfti að auka tekjur landssjóðs að miklum mun, jafnvel fjórfalda þær. Jeg held, að enginn hjer sje svo slunginn, að hann treysti sjer til að koma fyrir svo vel fari jafnmiklum tekjuauka fyrir landssjóð. Þessvegna er jeg kominn að þeirri niðurstöðu, að þessi leið sje ekki fær. Mjer virðist óumflýjanlegt, að áður en landssjóður verði fyrir slíkri blóðtöku, verði reynt á þolrif sveitasjóða og bæjarsjóða, og að þeir verði að leggja alt það af mörkum, er þeir geta. En af því að mjer þykir óviðurkvæmilegt að ráðast á frv., sem ætlað er til að afstýra yfirvofandi neyð, vil jeg reyna að draga úr vonbrigðum þeirra, er þessi bjargráð eru ætluð; með því að benda á leiðir, sem ef til vill eru ekki vel færar, en þó virðast greiðfærari en þessi, þótt hjer sje ekki um eins stórar upphæðir að ræða. Það er, að stjórninni sje heimiluð úr landssjóði sú fjárupphæð, sem hann getur af hendi látið, til útláta til þurfandi sveitar- eða bæjarfjelaga, án þess þó að talinn sje sveitarstyrkur, heldur sem dýrtíðarstyrkur eða dýrtíðaruppbót. Þá ráðstöfun mætti og hugsa sjer, sem hv. flm. (J. B.) benti á, að útvega mönnum atvinnu fyrir landssjóðsreikning.

Í þriðja lagi datt mjer í hug, að allra næst lægi ef til vill, að fylgja fordæmi manna vestan hafs, og ef til vill í nágrannalöndunum, að þeim mönnum sje greitt fje, er flytja úr bæjum í sveitirnar að yrkja jörðina, veitt uppbót á kaupi því, er bændur greiða, og þeim útvegað fæði, er vinna að framleiðslu í sveitunum. Þetta væri ef til vill allra snjallasta leiðin. Ef til vill er nú orðið nokkuð seint að taka til þessa ráðs, en hefði það verið upp tekið næstliðið vor, áður voryrkja byrjaði, þá hefði framleiðsla af garðyrkju getað stórum aukist og jafnframt orðið kleift að færa frá þeim 5—600000 dilkám, er nú munu ganga um fjöll og afrjetti þessa lands.

Af því að jeg sá mig knúðan til að ráðast á þetta frv., vildi jeg reyna að milda áhrifin, með því að benda á þessi ráð, þótt önnur sjeu ef til vill betri.

Jeg vil svo ekki þreyta hv. deild með lengra máli, en óska, að frv. verði vísað til bjargráðanefndar, í þeirri von, að hún kynni að sjá eitthvert ráð til þess að nálgast ósk hv. flm.