28.08.1917
Efri deild: 41. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 670 í B-deild Alþingistíðinda. (249)

3. mál, fjáraukalög 1916 og 1917

Guðjón Guðlaugsson:

Það er vegna brtt. á þgskj. 633, sem jeg stend upp, og líka vegna annarar, á þgskj. 662. Það stendur nokkuð ólíkt á með þessar brtt. Hvað snertir brtt. á þgskj. 633, um aukna borgun til Breiðafjarðarbátsins fyrir unnið starf, þá finst mjer gild ástæða til þess að samþykkja þessa breytingu. Það varð ofan á í sameiginlegri samgöngumálanefnd þingsins að greiða að eins 4000 krónur; kom það til af því, að í nefndinni voru nokkrir menn, er mæltu mjög í móti þessari greiðslu; sjerstaklega var einn, sem fór fram á að færa hana niður fyrir rjett takmörk, og þá vill maður reyna að miðla málum, eins og hægt er. En eftir að jeg hefi talað við menn frá Breiðafirði, t. d. einn mann úr stjórn bátsins, sem nú er staddur hjer, þá verð jeg að álíta, að 5000 kr. sje rjettara en 4000 kr., því að 6000 kr. hefði ekki verið ofmikið fyrir það, sem báturinn hefir leyst af hendi ótilknúður. En auðvitað er ekki nema rjett að spara fje landssjóðs, og því get jeg verið með því, að hjer sje farið dálítið niður. Menn verða að athuga það, að ástandið í vetur var alls ekki gott, og því mjög þakkarvert, að fjelagið tókst á hendur að bæta úr því, án nokkurrar vissu um að bera það úr býtum fyrir verkið, sem það átti skilið. Hvernig hefði farið, ef Breiðfirðingar hefðu ekki haft bát? Þeir hefðu liðið talsverðan skort, og ef ekki hefði verið bætt úr samgönguvandræðunum, þá hefðu þeir ef til vill beðið óbætanlegt tjón af því að hafa engar samgöngur, og því er eðlilegt, að stjórn og þing sjái það við menn, sem gera slíkt ótilkvaddir, eins þótt það verði eftir á.

Brtt. á þgskj. 662 fer alveg í gagnstæða átt. Hún fer fram á, að fjárupphæðin til Þórhalls Daníelssonar, kaupmanns á Hornafirði, sje numin burt. Jeg álít það algerðar öfgar og verð að segja það, að jeg get ekki greitt henni atkvæði, vildi helst, að það stæði alveg óhaggað, sem er í frv. sjálfu. Jeg get því ekki greitt atkvæði með brtt. nefndarinnar, fyr en jeg sje, að þess þarf endilega með, eða fyr en jeg sje, að þess þarf til þess að komast ekki í annað verra, nefnilega brtt. á þgskj. 662. Kaupmaður þessi hefir haldið uppi samgöngum við þennan stað, sem stjórnin sá sjer ekki fært að gera neitt fyrir. Háttv. þingm. Seyðf. (Jóh. Jóh.) tók fram, að þess hefði verið getið, að verðlag á vörum í Hornafirði hefði ekki verið hærra, heldur í mörgum greinum fult eins gott og á Djúpavogi, sem er þar nokkru austar, og eru strandferðir þangað styrktar af almannafje.

Um það, sem háttv. þm. Vestm. (K. E.) tók fram, að verðmunur hefði verið við það, sem hjer er sunnanlands, þá verður að gæta þess, að þar er alt annað verslunarlag en hjer; að minsta kosti verð jeg að segja það að því er snertir verslun hjer í Reykjavík; hjer þekkist varla annað en peningaverslun, nefnilega gegn peningum út í hönd, eða þá mánaðarborgun að minsta kosti. Ef á að fara að bera saman verðlag á vörum þar sem rótgróin lánsverslun á sjer stað, að eins borgað í sumar- og haustkauptíð, þá er það augljóst, að ekki er hægt að halda sama verðlagi og þar, sem alt er borgað út í hönd. Heima hjá mjer veit jeg til þess, að bændur, sem gætu borgað út í hönd ef þeir vildu, gera það ekki, af því að þetta verslunarlag er orðið svo rótgróið. Þeir eru farnir að hafa það þannig, að þegar þeir eiga inni í versluninni við nýár, þá taka þeir innieign sína og leggja hana í sparisjóðinn; vilja heldur ávaxta peninga sína þar heldur en að láta þá liggja heima hjá sjer og hafa þá til vara, þegar þeir næst þurfa að grípa til þeirra. Því verður það, að þegar eitt sinn er búið að lána, þá er láninu altaf haldið áfram — framlengt — á þessum stöðum, og þannig getur lánið varað svo að tugum ára skifti, jafnvel upp á lífstíð.