20.08.1917
Neðri deild: 38. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 127 í C-deild Alþingistíðinda. (2495)

31. mál, nauðsynjavörur undir verði

Frsm. minni hl. (Bjarni Jónsson):

Jeg ætla að minna þessa hv. þm. í deildinni á það, hve óðfúsir þeir voru fyrir fáum dögum til að hjálpa einni sjerstakri stjett í landinu. Þeir gáfu út lög um að styrkja embættismenn í landinu og verðlauna barnamenn. Þeir menn, er telja heimilt að veita fje til að hjálpa embættismannastjettinni í landinu, munu ekki fylgja till. meiri hlutans. Jeg er ekki í vafa um, að þeir fylgja annaðhvort till. minni hl.eða till. hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.). Þeir geta ekki farið eins að við fátæklingana og tófan við storkinn, er hún bauð honum þunna súpu á flötum diski. Hann gat ekki notið fæðunnar, þannig fram borinnar, með mjóa nefinu. Jeg endurtek það, að jeg er ekki í vafa um, hvar hjálparar embættismannanna verða í þessu máli. Hjer er ekki að ræða um verkamenn ríkisins, heldur fólk, sem þarf hjálpar; ekki menn, er skylda er til að borga, heldur þá, sem eru ofurliði bornir í hallæri. En þá kemur til athugunar fyrir þessa ágætu menn, sem svo eru fúsir að hjálpa embættismönnum, hverjar af þrem tillögum eru bestar.

Þá eru fyrst till. hv. meiri hluta bjargráðanefndar, þar sem mest eru auðvitað bjargráðin. Þeir vilja heimila landinu að veita bæjar- og sýslufjelögum lán til að lána mönnum aftur til matvörukaupa. Það verður ekki svo seint fyrir fátæklingana að kaupa mat og eldivið fyrir þessi lán, ef þeir eiga að bíða þess, að ráðherra sigli og fái lögin staðfest! Svo í nóvember—desember leita þeir til sveitarstjórna eða sýslunefnda. Sýslunefndir senda landsstjórn brjef með næsta pósti og lánið kemst í kring svona með vorinu! Svo að vonandi geta þessi lán hjálpað þeim til að lifa veturinn, sem eru olíulausir og matarlausir. Þetta er svo sem ekki illa hugsað! En ef nú er athugað, hversu að hefir verið farið hingað til, þá er það fyrst, að stjórnin kaupir vörur og flytur til landsins. Síðan sjer hún um, að þær sjeu fluttar út um land alt, úthlutað með nokkru móti til hjeraðsstjórna, og svo útbýtt til einstakra manna með seðlum, svo að ekki verði matarskortur. Það eiga hjeraðsstjórnir að sjá um. Landsstjórn hefir hlaupið undir bagga með þeim með lánum. Þetta er þá bjargráðið. Heimila stjórninni að gera það, sem er heimilt án heimildar! Stjórnin þarf enga heimild, ef hún þarf að lána. Þá væri verslunaraðferð stjórnarinnar óhyggileg, ef henni væri bannað að lána. Er jeg ekki í vafa um, að stjórnin geri það framvegis heimildarlaust. En ef það er aðalbjargráðið að heimila með lögum það, sem getur gengið án þess að þingið segi eitt orð, þá er meiri hlutinn ágætur. Þá er hann mikið hjálpráð landi þessu.

Annars skil jeg svo þessa 1. gr. í frv. meiri hlutans, sem hjer sje átt við peningalán, en ekki gjaldfrest á vörum landssjóðs. Eins og jeg hefi áður sagt getur stjórnin veitt það án heimildar. (Atvinnumálaráðh.: Varla í l0 ár!) Það gerir minna til. Hjer er verið að tala um bjargráð í svipinn, sjerstaklega í vetur, og aðalatriðið er, að með öllum þessum undirbúningi verður lánið ekki komið í kring fyr en maðurinnr sem á þarf að halda, er dauður úr sulti, nema því að eins, að stjórnin veiti það áður en lögin — heimildin — eru gengin í gildi.

Þá er og annað við þetta að athuga. Hreppsfjelög og sýslufjelög hafa lánstraust annarsstaðar og þurfa ekki að leita til okkar. Ímynda jeg mjer, að þau hafi flest svo mikið lánstraust, að þau geti fengið lán þar er þau vilja. Þetta er aðaltill. hv. meiri hluta bjargráðanefndar, því að hinar greinarnar, er á eftir fara, eru samhljóða áliti minni hlutans að öðru en því, að minni hlutinn hefir ákveðið, að lánið skuli fyrnast á 10 árum, en meiri hlutinn hefir tekið það ráð að láta það eftir sömu 10 ár verða sveitarskuld. Þeir fátæklingar, sem vilja, geta þakkað meiri hlutanum fyrir þetta; jeg geri það ekki, nje heldur þeir, er jeg þekki.

Þetta er alt, sem ber á milli vor og meiri hlutans. Þetta frá meiri hlutanum er engin hjálp, heldur svipaðar veitingar og jeg nefndi áður, er tófan bar storkinum mat á flötum diski.

Alt öðru máli er að gegna um frv. hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.). Það stefnir að sama takmarki og till. minni hlutans, sem sje að hjálpa, en ekki að þykjast vilja hjálpa. Oss ber að eins á milli um aðferðina, en aðferðin er sú sama, að hjálpa þar sem þörfin er. Um framkvæmdina erum vjer alveg ósammála. Jeg er sannfærður um, að hans frv. er ekki framkvæmanlegt; bæði tekur framkvæmdin oflangan tíma og er oftorsótt, en sjerstaklega mun þó hrúgast inn svo mikið af styrkbeiðnum, að engin stjórn gæti þekt, hvar nauðsynin væri mest. Það yrðu ekki 2000 manns, heldur 20000, og yrðu þeir allir styrktir, næmi sú upphæð ekki hundruðum þúsunda heldur miljónum, og það meira en 2 milj., sem er það hæsta, er þarf, ef okkar till. verður samþ. En það er ekki fjárhæðin, er mjer vex í augum. Þótt 20000 umsóknir kæmu, og allar yrðu afgreiddar, yrði þó margur fátæklingurinn út undan. Hitt kemur niður á alla og hlýtur að koma niður á fátæklingana. Að svo miklu leyti sem um almennar vörur er að ræða, svo sem brauðefni og olíu, kemur það niður á öllum, en kol sjerstaklega á kaupstaðarbúa, og í kaupstöðum búa einkum þurrabúðarmenn. Mætti jafnvel segja, að það væri misrjetti að hafa grundvöllinn svona. En svo stendur á, að kol eru svo afarmikill hluti af útgjöldum manna, að ekki er von til, að menn með meðaltekjum geti klofið þau. En hitt er ekkert voðalegt, þótt fáir menn sjeu með og njóti afsláttar, er ekki þurfa. Hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) hjelt, að hann gæti það. En jeg veit marga á hans eða okkar reki, er varla geta klofið þetta. Jeg veit, að það er mjög hátt að segja, að ? hluti þurfi ekki, og er viss um, að það er ekki meira en ? hluti, ef það er svo mikið. Svo að háskinn er ekki svo mikill, að þetta komi niður á marga óverðuga. Það verður mjög örðugt að vinsa þá úr, og kostar mikið, en annar vegur er ljettari, sjerstaklega fyrir hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.), af því að hann situr í þeirri nefnd, er fjallar um skattafrv., og frv. mitt, er vísað var til nefndarinnar, en hún hefir ekki tekið alt, heldur hluta af, í það frv., er hún flytur sjálf, leggur ráðin á. Það ráð er að hækka skatt á þeim landsmönnum, er hæstar hafa tekjur, með tilliti til þess, að þeir hafa ekki orðið út undan með þennan styrk, afsláttinn. Þessi leið er að vísu krókótt, en þessi sundurgreining í hafra og sauði fer eins og þegar hv. þingmenn eru að meta efnahag embættismanns, sem á engin börn og annars, sem á tvö börn. Þess háttar er ómögulegt að vega. Nei. Ráðið er að láta svona almenna linkind yfir alla ganga, og taka svo aftur af þeim, er efnaðri eru, með skatti. Jeg sje svo ekki, að jeg þurfi að tala frekar, því að ekkert kom það fram í umr., er svaravert sje. Jeg ætla, að hv. frsm. meiri hluta (Þorst. J.) svaraði aths. hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) um stórhýsabyggingar, er hann sagði, að til þess þyrfti að kaupa sjer í skaða byggingarefni frá útlöndum, er verst stæði á. Sú var ekki hugmynd bjargráðanefndar, heldur vinna að undirbúningi bygginga, draga að sand og grjót og gera vegi úr innlendu efni, til þess að ráða einhverja bót á atvinnuskortinum, sjerstaklega í bæjum, um það leyti árs, er ekki er unnið að framleiðslu.

Þarf jeg svo ekki að tala meira. Við erum sammála, hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) og jeg, um að veita þeim hjálp, er þurfa, en jeg tel hans frv. miklu erfiðara í framkvæmd en frv. minni hlutans, en það ber á milli, að hann telur, að afslátt fái og þeir, er þurfa ekki hjálpar, en jeg tel, að honum megi aftur ná með skatti. Er svo ekki þörf fleiri orða af hálfu minni hlutans, því að þar sem menn eru svo góðgjarnir að vilja hjálpa þeim, sem ekki eru hjálpar þurfar, veit jeg, að þeir muni samþykkja till. minni hlutans um almenna hjálp.