20.08.1917
Neðri deild: 38. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 131 í C-deild Alþingistíðinda. (2496)

31. mál, nauðsynjavörur undir verði

Gísli Sveinsson:

Hv. frsm. minni hlutans (B. J.) hefir að vísu lýst yfir því, að við værum sammála um tilganginn, og mun það rjett vera, að takmarkið sje hið sama, en því einkennilegri þykir mjer sú leið, er minni hlutinn fer, að landssjóður borgi öllum verðhækkun. Það getur ekki leitt til hjálpar þeim, er sjer í lagi þurfa hennar. Það er ekki greiðara að fara margar leiðir að sama takmarki en að fara eina leið að því. (B. J.: Ekki ef hún er fær.!). Jeg vil spyrja hv. framsm. minni hlutans, ef hann vill á hlýða. Ef svo kann að koma fyrir, að þessi greiðsla landssjóðs á verðhækkun hrekkur ekki, og ýmsir menn í þjóðfjelaginu þess vegna komast í neyð, af þessum þrengingum, hvað vill minni hl. þá gera? Svo getur orðið, hvor leiðin sem farin er, af þeim, sem meiri og minni hluti nefndarinnar bera fram, að samt þurfi að hjálpa einstökum mönnum. Jeg vil fara einfaldari leið, hjálpa frá upphafi þeim er þurfa, og þeim einum, því að til annars eða meira hefir landssjóður ekki fje. Jeg býst við, að minni hlutinn svari, að ef fátæklingum dugar ekki, að goldin sje fyrir þá hálf verðhækkun, þá ætti landssjóður að gjalda meiri hluta hennar.

Annars þarf jeg ekki að tala mikið um tillögur minni hlutans, því að við erum sammála í meginatriðunum, sammála um, að hlaupa þurfi undir bagga með þeim, er dýrtíðin kreppir mest að, en við erum ósammála um, hvaða aðferð skuli hafa til að hjálpa þeim; en sú leið, sem þeir hafa valið til þess, mun reynast ófær. Þá sný jeg máli mínu að hinum ágæta meiri hluta, sem virðist vera allmikill á lofti og hafa valið sjer frsm. (Þorst.J.) þar eftir; hefir vegtylla sú stigið honum svo til höfuðs, að hann fer hamförum hátt uppi, og horfir smáum augum á okkur smælingjana fyrir neðan sig.

Hv. frsm. meiri hl. (Þorst. J.) heldur, að menn muni unnvörpum, eigi síður efnamenn en fátæklingar, leita styrks, ef frv. mitt fær framgang. Þetta segir hann auðsjáanlega af því, að hann hefir ekki lesið frv. mitt vandlega. Í því stendur í 2. gr., að sá, sem styrks þurfi að leita, skuli snúa sjer með umsókn sína þar að lútandi til bæjar- eða sveitarstjórnar, þar sem hann á heima, og sendi hún síðan þá umsókn til landsstjórnarinnar, eftir að hafa rannsakað hag styrkbeiðanda, og hún sendir vottorð um alt þetta til landsstjórnarinnar. Hjer er með berum orðum sagt, að sveitarstjórn eigi að rannsaka hag styrkbeiðanda og gefa vottorð sitt um þörf hans, ef hún telur hann styrkþurfa, og svo koma þau undur fyrir, að risið er upp með rosta hjer í þingsalnum og sagt fullum fetum, að sveitarstjórnum sje ekki trúandi fyrir að rannsaka málið, ekki trúandi fyrir að gefa drengskaparvottorð, sem nokkuð sje á byggjandi. Það er nær ótvírætt gefið í skyn, að sveitarstjórnir muni ekki víla fyrir sjer að gefa falsvottorð, til þess að ná fje inn í sveit sína. Það er ekki sæmilegt að bera sveitarstjórnum slíkan vitnisburð; að minsta kosti verð jeg að segja, að mjer eru ekki sveitarstjórnir kunnar að slíku. Jeg þekki að vísu ekki þær sveitarstjórnir, sem eru næstar hv. frsm. (Þorst. J.), en þó verð jeg stórum að efast um, að þær eigi þann áfellisdóm skilið, sem hann leyfir sjer að kveða upp um sveitarstjórnir, og má ætla, að þær kunni honum verðugar þakkir fyrir svo hraklegan dóm. Jeg var nú svo einfaldur og auðtrúa, að jeg hjelt, að óhætt mundi að trúa stofnunum þessum fyrir rannsókn þeirri, sem jeg ætlast til að fari fram, opinberum stofnunum, sem um tugi ára hefir verið trúað fyrir mikilsverðum málum og trúað fyrir að semja og gefa mikilsverðar skýrslur. Það vill nú svo til, að hv. meiri hl. kemst ekki hjá að láta sveitar- og bæjarstjórnir sjá um framkvæmdir bjargráða sinna. En mjer er spurn, óttast þeir ekki, að það fari þeim öfugt úr hendi? Því að varla geta þeir þó búist við, að þeim farist betur að framkvæma þeirra ráðstafanir en mínar. Hv. frsm. (Þorst J.) heldur, að um styrk þennan sæki mesti fjöldi verðugra og óverðugra. Látum svo vera; en við umsóknunum tekur sá málsaðili, sem jeg trúi vel, sveitar- og bæjarstjórnir. Jeg trúi þeim fyrir því að gefa vottorð þeim einum, sem verðugir eru styrksins, en sinna ekki hinum. Þá sagði hv. frsm. (Þorst. J.) að það tæki svo langan tíma að ná í styrkinn, ef fara ætti eftir mínum tillögum. En það tekur ekki síður langan tíma að ná í fje eftir tillögum hv. meiri hl. Ef einhversstaðar er í haust sú neyð, að sveitarstjórn telji nauðsynlegt að útvega sveitinni lánsstyrk, þá er nú fyrsta sporið að koma sjer niður á, hve mikils láns muni þurfa að leita. Svo er því næst að semja og senda styrkbeiðnina til landsstjórnarinnar, og þegar þangað er komið, þá þarf stjórnin að afgreiða málið, og getur nokkuð tafist fyrir því, ef fjöldi er af slíkum lánbeiðnum, sem að drífur, og enn getur liðið alllangur tími þangað til sveitar- eða bæjarstjórnin hefir fengið fjeð í sínar hendur og ráðstafað því. Það er því af hugsunarleysi, eða öðru verra, að vera að prjedika það, hve langur tími gangi til að ná í hjálp þá, sem jeg ætlast til að veitt sje, en draga dulur á það, að ekki verður fljótara að ná í hjálpina eftir tillögum hv. meiri hl.

Þá hneykslaðist hv. frsm. (Þorst J.) á því, að menn væru eftir frv. mínu látnir sjálfráðir um það, hvort þeir borguðu þessa skuld sína eða ekki. Jeg sje ekki betur en að hjálp sú, sem mönnum er veitt á þessum erfiðu tímum, nái best tilgangi sínum, ef svo er til hagað þegar í byrjun, að þeim sje gert að sjálfsögðu heimilt að borga síðar meir, ef þeir geta, en gefinn að fullu eftir styrkurinn, ef þeir verða þess eigi megnugir að greiða hann síðar. Það er mun skemtilegra fyrir styrkþegana að vita þegar í upphafi, að hverju þeir hafa að ganga, en að verða að eiga alt undir náð síðar meir.

Hv. frsm. (Þorst. J.) talaði um, að á bönkunum hvíldi engin skylda til að veita hreppsfjelögum lán, þótt þau leituðu þeirra hjá þeim. Jeg veit, að engin lagaskylda hvílir á þeim til þess. En mjer er líka kunnugt um, að sum sveitarfjelög hafa þegar haft undirbúning um lántöku í bönkunum, og mjer er einnig kunnugt um, að bankarnir hafa tekið til athugunar þessar lántökur, og að þeir eru fúsir á að hlaupa undir bagga. Það er nú ekki heldur nein sjerleg peningaþröng hjá bönkunum, því að nú sem stendur þurfa þeir lítið að brúka peninga sína til annars en í þarfir landsstjórnarinnar og annars þess, er dýrtíðinni við kemur. Atvinnuvegunum er nú svo háttað, að ekki er sýnilegt, að stórlán þurfi í bráð til þeirra, og ýmsir eru þeir, sem nú að haustinu og í vetur munu borga bankaskuldir sínar.

Það er sú leið, sem vjer eigum að fara, að veita þeim hjálp sem þurfa, skjóta geiri þangað, sem þörfin fyrir er. Meiri hlutinn segir nú, að hann ætlist til, að landssjóður gefi eftir, ef til vill, eitthvað af lánum sínum síðar meir. En því þá að gefa undir fótinn með svona loðnum loforðum; það er þó svo sem auðsjeð, hvað mennirnir meina; þeir vilja, hvað sem öðru líður, láta líta svo út, að landssjóður fái sitt aftur. En því þá ekki játa það hreinskilnislega?

Jeg tek það aftur fram, að jeg held að það sje ekki hætt við því, að sveitarfjelögin færu að róta fje inn til sín með fölskum vottorðum, þótt þau vissu það fyrirfram, að dýrtíðarstyrkurinn til einstakra manna í sveitinni væri ekki afturkræfur. Annars væri líka auðvelt að slá varnagla við því, með því ákvæði, að sveitarfjelögin ábyrgðust nokkurn hluta af styrk þessum. Jeg sagði það áðan, að jeg teldi það athugavert, að landssjóður færi nú að ráðast í stór atvinnufyrirtæki. Það gæti verið tvent við það að athuga, bæði að landssjóður yrði nú að kaupa alt dýrum dómum, sem frá útlöndum þyrfti að kaupa til að framkvæma vinnuna, og líka gæti það orðið til þess að draga menn frá framleiðslunni, frá heimilum sínum og heimaatvinnu, gæti orðið til að draga þá úr sveitum til kauptúna, þar sem helst má búast við, að ráðist yrði í stór fyrirtæki við stórhýsasmíð, hafnargerðir og þess háttar. Reyndar þótti hv. frsm. (Þorst. J.) jeg fara rangt með, er jeg var að tala um undirbúning undir byggingar.

Hann kvað nefndina ekki hafa átt við annan undirbúning en þann, sem ekki þyrfti útlent efni til. Sje þessi meiningin, þá er nál. hv. meiri hlutans heldur óljóst orðað; þar stendur, að landsstjórninni sje heimilt að verja fje úr landssjóði til atvinnubóta, svo sem til „undirbúnings bygginga stórhýsa, sömuleiðis við vegagerð, hafna-, brúa- og vitabyggingar“ o. s. frv. Hefir maður ekki leyfi til, þegar þannig er orðað, að álykta, eins og jeg gerði, að hjer geti naumast verið um þann undirbúning einan að ræða, er ekkert útlent efni heimti. Látum svo vera, að hugsunin sje svona óljós, og að skilja eigi orðin á annan veg en beinast liggur við að skilja þau. En það hefði þá átt að vera auðvelt fyrir jafnvolduga nefnd og hv. bjargráðanefnd og jafnmikinn garp og hv. frsm. hennar (Þorst. J.) þykist vera, að orða tillögur sínar svo ljóst, að allir skildu. En hvað sem þessu líður, þá er þó hitt varhugaverða atriðið eftir. Hjer er stefnt að því, ef ekki er allrar varúðar gætt, að draga menn frá heimilum sínum og sveitavinnu, og er hætt við, að það reynist alt annað en holt eða heppilegt.