28.08.1917
Efri deild: 41. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 673 í B-deild Alþingistíðinda. (250)

3. mál, fjáraukalög 1916 og 1917

Framsm. (Eggert Pálsson):

Jeg hefi ekki miklu að svara. Jeg held, að till. nefndarinnar hafi mætt fremur góðum undirtektum, nema ef vera kynni í ræðu háttv. 4. landsk. þm. (G. G.), þar sem hann gat þess, að hann vildi helst ekki lækka neitt styrkinn til Þórhalls kaupmanns Daníelssonar, en aðallega gekk sú ræða hans í móti ræðu háttv. þm. Vestm. (K. E.); myndi hann hafa svarað þeirri ræðu, ef hann væri ekki »dauður«, og því óheppilegt, að háttv. 4. landsk. þm. (G. G.) skyldi ekki hafa haldið þessa ræðu sína áður en háttv. þm. Vestm. (K. E.) »dó«. Þótt jeg hafi ekki fylgst með háttv. þm. Vestm. (K. E.) um brtt. hans, þá finst mjer jeg skilja ósköp vel skoðun hans, því að þess er að gæta, að krafa Þórhalls kaupmanns Daníelssonar kemur svo að segja ekki fyr en eftir dúk og disk. Það er 24. nóv., sem hann fer fram á að fá þóknun fyrir að hafa annast aðflutninga til Hornafjarðar. Ef hjer hefði verið farið að eins og venja er til, þá hefði hann átt að semja við stjórnina um þessa flutninga. Mjer finst jeg því skilja vel þá skoðun háttv. þm. Vestm. (K. E.), að ekki eigi að veita styrkinn eftir að menn á eigin ábyrgð hafa ráðist í slíkar framkvæmdir. Enn fremur má benda á eitt, sem háttv. þm. (K. E.) gerði ekki. Hann las upp verðlag á vörum á Höfn í Hornafirði í kauptíð 1916, en sumar vörutegundir hafa stigið afarmikið eftir þann tíma, og það eru vitanlega vörur, sem hafa verið keyptar inn áður en verð fór að stíga; t. d. er verð á rúgmjöli í kauptíð 1916 kr. 37,00, en er í janúar komið upp í kr. 43,00, og rúgur kominn úr kr. 36,00 upp í kr. 43,00 pr. 100 kíló, og ýmsar fleiri vörutegundir, sem dálítið hafa stigið. Þetta er því hreint og beint fundið fje fyrir kaupmanninn, því að hann hefir ekki getað flutt inn vörur seinni hluta sumars eða haustið 1916, eftir því sem hjer til hagar. En sem sagt skal jeg ekki vera neitt að berjast fyrir þessari brtt. hv. þm. Vestm. (K. E.); jeg vildi að eins geta þessa af því, að háttv. þm. (K. E.) er fallinn frá.

Jeg hefi ekkert sjerstakt að athuga frá nefndarinnar hálfu, af því að brtt. hennar hafa ekki mætt neinum andblæstri. Jeg vil að eins taka það fram, að jeg tel það nauðsynlegt, er til atkvæðagreiðslu kemur, að bera fyrst upp brtt. á þgsk. 662, því að tilgangur hennar er annar en 4. brtt. nefndarinnar. Tilgangur brtt. á þgskj. 662 er sá, að liðurinn falli alveg burt, en í hinni sá að flytja hann að eins til. Þess vegna er rjettast að bera fyrst upp brtt. á þgskj. 662.