20.08.1917
Neðri deild: 38. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 144 í C-deild Alþingistíðinda. (2500)

31. mál, nauðsynjavörur undir verði

Einar Arnórsson:

Jeg skal að eins snúa mjer að örfáum atriðum.

Því hefir verið haldið fram, að dýrtíðarhjálp minni hlutans, að greiða nokkurn hluta verðhækkunar, muni langt frá því nægja öllum. Ef menn lesa frv., munu þeir sjá, að hún mun þó nægja mörgum. Verðhækkun er greidd af þeim vörum, sem mesta þýðingu hafa í öllum búskap, og það gengur jafnt yfir alla. En minni hlutinn hefir líka hugsað til þeirra, sem ekki nægir þessi hjálp. Hann ætlast líka til, að mönnum verði hjálpað með því að veita þeim vinnu. Hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) virtist líta svo á, að þetta væri sjerstakt fyrir meiri hlutann, en svo er ekki.

Hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) var að tala um „að gefa fje úr landssjóði“ í sambandi við frv. hv. þm. Reykv. (J. B.). Það er öllum þessum frv. sameiginlegt, að þau fara fram á, að fje sje gefið úr landssjóði, og á það ekki síst heima um frv. hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.). (Sv. Ó.: En ekki um frv. meiri hlutans). Jú, að nokkru leyti. Það hefir komið fram í umræðunum, að meiri hlutinn býst við, að eitthvað verði gefið eftir af lánunum, sem veitt verða.

Eitt vildi jeg enn minnast á, sem borið hefir verið minni hlutanum á brýn, nefnilega það, að mörgum sje ætlaður styrkur ófyrirsynju eftir till. hans. Það er að vísu satt. En minni hlutinn taldi erfitt að skilja sauðina frá höfrunum, og tók því það ráð að láta jafnt ganga yfir alla. Það er hægur leikur að jafna þetta aftur, þegar lagt er á menn heima í hjeraði. Eins væri hægt að hækka tekjuskattinn. Með þessu móti mætti taka þann styrk af efnamönnunum aftur, sem þeir ófyrirsynju hafa notið.

Þá hefir kent nokkurs misskilnings á einu atriði í tillögum minni hlutans hjá þeim hv. atvinnumálaráðherra og hv. 2 þm. S.-M. (B. St.). Hann sagði, að erfitt mundi að færa nokkrar sönnur á það, hve mikið hver um sig hefði fengið af þessum vörum síðan stríðið hófst. Þessa þarf ekki með, því að minni hluti bjargráðanefndar leggur alls ekki til, að þetta ákvæði sje látið verka aftur fyrir sig. Það krefst þess enginn, að hv. 2. þm. S. M. (B. St.) fari að gera grein fyrir, hve mörg rúgbrauð hann hefir etið síðan stríðið hófst, eða hve mörgum kg. af kolum hann hefir brent o. s. frv. Ef gert hefði verið ráð fyrir, að lögin ættu að verka aftur fyrir sig, þá var athugasemdin rjett, en fyrst að svo er ekki, þá er hún fálm út í loftið. — (B. St.: Jeg gekk út frá, að lögin ættu að verka aftur fyrir sig). — Það er ekki venja, að lög sjeu látin verka aftur fyrir sig, og aldrei geta þau gert það nema það sje tekið fram í lögunum sjálfum. Að öðrum kosti er ekki hægt að gera ráð fyrir, að þau gildi nema fyrir ókominn tíma. Það eina, sem þarf að grafast fyrir í þessu efni, er það, hvaða verðlag hafi verið á þessum vörutegundum áður en stríðið byrjaði. Hitt skiftir engu, hve mikið hefir verið keypt af þessari vöru á tímabilinu frá því að stríðið byrjaði til þess er lög þessi ganga í gildi. Á þessum sama misskilningi virtist, eins og sagt var, einnig bóla hjá hæstv. atvinnumálaráðh. En honum er, að því er þetta snertir, einnig svarað með því, sem hjer er sagt, að lög gilda að eins fyrir ókominn tíma, nema sjerstaklega sje öðruvísi ákveðið í lögunum sjálfum. Jeg get ekki skilið, að nokkrir verulegir erfiðleikar þurfi að verða á því að komast að því, hvert verð var á vörum þessum um það bil sem stríðið hófst, sumarið 1914. Um það eru ábyggilegar skýrslur til.

Þá hefir því verið haldið fram, að tillögur minni hluta nefndarinnar mundu verða nokkuð erfiðar í vöfum fyrir stjórnina. Jeg get ekki sjeð neina verulega ástæðu til að óttast það. Landsstjórnin getur sjálf sett verðið á þá vöru, sem er í hennar vörslum, og það er nú einmitt mikill hluti af þessum vörutegundum. Svo borgar hún mismuninn á sínu eigin verði og því, sem þeir verða að borga, er kaupa vöru sína hjá öðrum. Þetta get jeg ekki skilið, að sje svo erfitt. En ef frv. það, sem hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) flytur, verður að lögum, þá get jeg vorkent stjórninni. Án þess að fara að öðru leyti út í þetta frv. get jeg sagt það, að ef verulega neyð bæri að dyrum, og reyndar hvort sem er, þá gætu þær orðið nokkuð margar styrkbeiðnirnar, sem landsstjórninni bærust, ef hún ætti að úthluta styrk hverjum einstökum eftir tillögum sveitar- og bæjarstjórna. Hjer úr Reykjavík veit jeg t. d., að beiðnirnar yrðu margar. Það mundi því ganga nokkuð seint að afgreiða þessar styrkbeiðnir, svo seint, að sumir gætu verið dánir úr hungri og harðrjetti áður en þeim bærist þessi styrkur. Þó að hugsunin í þessu frv. sje óneitanlega mjög falleg, þá býst jeg ekki við, að hægra yrði að framkvæma ákvarðanir þess heldur en tillögur minni hluta nefndarinnar. Jeg er viss um, að það yrði miklu erfiðara. Eftir minni reynslu um afgreiðslu mála, sem ganga verða gegnum 2 eða fleiri liði, veit jeg, að stundum getur þurft langan tíma til að afgreiða styrkbeiðnirnar, fyrst frá bæjar- eða sveitarstjórn og síðan frá stjórnarráðinu.

Mismunurinn á tillögum meiri hluta nefndarinnar og minni hlutans er ekki eins mikill og meiri hlutinn lætur af. Minni hlutinn ætlast til, að stjórninni sje veitt heimild til að greiða ákveðinn hluta af verðhækkun allra nauðsynlegustu vörutegundanna, en það vill meiri hlutinn ekki. Um það hefir verið talað, hve mikilli upphæð þessi uppbót mundi nema. Hægt er að sýna fram á það nokkuð ábyggilega, enda var búið að reikna það nákvæmlega út, og jeg skil ekki, hvernig á því stendur, að sá sundurliðaði útreikningur, sem minni hluti nefndarinnar hafði í höndum, hefir ekki verið tekinn með í greinargerðina. Það er alveg rjett, sem hv. frsm. (B. J.) hefir um það sagt, að það var alt saman sundurliðað og nákvæmlega reiknað út, og útreikningarnir bygðir á skýrslum um innflutning á þessum vörutegundum síðustu árin.

Jeg vil svo ekki teygja þessar umræður meir. Eftir undirtektunum að dæma býst jeg við, að tillögur meiri hlutans nái fram að ganga. Við minni hluta menn kippum okkur ekki upp við það. Við erum farnir að venjast því að bíða ósigur í þessum dýrtíðarmálum. En tillögur okkar eru ekki verri fyrir það, því að það vita allir menn, að það eru ekki altaf bestu tillögurnar, sem best ganga í fjöldann.