20.08.1917
Neðri deild: 38. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 148 í C-deild Alþingistíðinda. (2501)

31. mál, nauðsynjavörur undir verði

Jörundur Brynjólfsson:

Það er nú búið að ræða þetta mál svo mikið, að ekki er ástæða til að dvelja lengi við einstök atriði. Þegar jeg hreyfði þessu máli hjer í deildinni fyrst og bar fram frv. mitt, þá færði jeg það aðallega sem ástæðu, að útlit væri fyrir, að margir menn ættu svo bágt, að þeir mundu alls ekki geta bjargast af í nánustu framtíð, nema eitthvað væri gert til að ljetta á þeim ófriðarbyrðina. Síðan hefir útlitið mikið breyst til hins verra. Útlitið um atvinnu á komandi vetri er afar ískyggilegt fyrir þá, sem enga framleiðslu hafa, og enn fremur hefir atvinnan brugðist fjölda fólks í sumar, að minsta kosti öllum þeim, sem stunda síldarvinnu. Í vetur verður því að hjálpa, ef hjá vandræðum á að komast. Þeir, sem síldarvinnu stunda, koma heim með tvær hendur tómar, eða jafnvel skuldugir eftir sumarið, svo að geta má nærri, hver afkoman verður hjá þeim í vetur, einkum hjá þeim, sem hafa fjölskyldu fyrir að sjá. Áreiðanlega verður mjög lítið um atvinnu í vetur, nema hvað landssjóður kann að gera til að veita mönnum vinnu. Botnvörpungunum verður að öllum líkindum ekki haldið úti, svo að neinu nemi. Að minsta kosti er óvarlegt að treysta því. Margir hafa haft atvinnu við þá á undanförnum vetrum, bæði á skipunum sjálfum og eins við afla þeirra í landi. Í vetur má gera ráð fyrir, að vinna við fisk og sjávarútveg verði mjög lítil, því að vjelbátar og róðrarbátar geta aldrei bætt upp það tjón, sem stafar af því, að botnvörpungarnir hætta. Þá kem jeg að þeim leiðum, sem menn hafa hugsað sjer til þess að afstýra vandræðunum. Frumvörpin, sem fram eru komin, eru 3, og miða öll að sama marki, þótt þau greini á um leiðirnar. Auðvitað aðhyllist jeg helst tillögur okkar minni hluta bjargráðan. Þó tel jeg frv. hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) ganga í sömu átt og allnærri þeim hugsunum, sem fyrir mjer hafa vakað í þessu máli. Það er að eins fyrirkomulagsatriði, sem okkur ber á milli, og jeg er hræddur um, að erfitt verði að framfylgja frv. hans. En jeg er honum þakklátur fyrir að hafa komið með þetta frv., því að með því hefir hann sýnt, að hann hefir opin augu fyrir því, hve útlitið er ískyggilegt og að nauðsyn sje að gera eitthvað til bjargar. Um frv. hans ætla jeg svo ekki að fjölyrða frekar. — Meiri hluti bjargráðanefndar vill ráða bót á vandræðunum með tillögum sínum, en jeg er þess fullviss, að þeim tilgangi nær hann ekki með þessu frv. Í áliti meiri hlutans stendur, að þeir vilji ráða bót á vandræðunum með því að veita mönnum atvinnu. Það viljum við líka, eins og álit okkar ber með sjer. Meiri hlutinn telur þetta samt ekki nægilegt. Hann gerir ráð fyrir að veita lán til framfærslu þeim, sem ekki geti komist af án þess. Því sama gerum við ráð fyrir. En það skilur á milli meiri hlutans og minni hlutans, að meiri hlutinn vill láta skoða þessi lán sem sveitarlán, ef þau eru ekki greidd á 10 árum eftir að stríðinu lýkur, en minni hlutinn vill jafnvel láta þau falla niður, ef þörf gerist. Þetta ákvæði meiri hlutans gerir það að verkum, að lánin verða minna notuð. Þeir gera ekki ráð fyrir, að frelsisþrá þeirra manna, sem á styrk þurfa að halda, sje mikil. En jeg er þess fullviss, að margur, sem á láni þyrfti að halda, mundi stórkvelja sig áður en hann tæki lán með þessum skilyrðum. Þá þykir mjer meiri hlutinn gera fullmikið úr því, að menn geti bjargast á sinni eigin atvinnu. Þótt atvinna fáist, þá er kaupgjaldið ekki nógu hátt til að fleyta fram lífinu, eins og nú er ástatt. En að gera ráð fyrir hærra kaupi er fásinna. Einstakir atvinnuveitendur munu alls ekki hækka kaupgjald. Það er vitanlegt, að margir vinnuveitendur láta nú vinna sjer til skaða, og ef hækka ætti kaupið eins og þyrfti, þá mundu þeir alveg hætta að láta vinna, og ekki batnaði ástandið við það. Með tilliti til þessa sneið minni hlutinn tillögur sínar. Jeg játa það, að jeg hefði kosið, að lengra hefði verið haldið í þá átt, að landssjóður bæti mönnum upp verðhækkun á nauðsynjavörum, heldur en minni hluti bjargráðanefndar leggur til, en jeg sá, að jeg mætti til að gefa þetta eftir, ef jeg ætti að gera mjer vonir um að koma nokkru í gegn, því að jeg vissi nokkuð um hug sumra deildarmanna í þessu efni.

Jeg held, að hv. frsm. meiri hl. (Þorst. J.) hafi yfirleitt gert fullmikið úr því, að menn gætu bjargað sjer sjálfir. Það, sem hann tók fram um aukna framleiðslu, verður ekki til bjargar neinum á komandi vetri. Menn lifa ekki á þeim kartöflum í vetur, sem þeir ætla að setja niður næsta vor. Allar slíkar ráðstafanir eru náttúrlega góðar, en þær eru fyrir seinni tímann. Við tölum um tímann, sem er fyrir höndum og um bjargráð, sem ekki þola bið. Málinu er þannig varið, að ekki er gott að gera tillögur fyrirfram. Hægast væri að ráða bót á vandræðunum jafnóðum og að þrengir. En þingið á að eins stutta setu fyrir höndum, og það verður að gera einhverjar ráðstafanir til hjálpar, þar sem ástandið er eins og það er, og útlit fyrir, að það versni. Jeg vil að lokum minna meiri hlutann og þá, sem honum fylgja, sem vilja reiða sig á að alt farnist vel, á það, að þeir bera ábyrgðina á því, hvernig fólkinu reiðir af, ef lítið verður gert til hjálpar.