25.07.1917
Neðri deild: 17. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 154 í C-deild Alþingistíðinda. (2511)

33. mál, Hólshérað

Frsm. (Pjetur Ottesen):

Jeg hefi eiginlega engu við það að bæta, sem í nefndarálitinu stendur. Nefndin hefir ekki sjeð sjer fært að mæla með frv., og þá sjerstaklega með tilliti til þess, að allvel virðist vera sjeð fyrir þörfum þessa læknishjeraðs, þar eð þar er skipaður fastur aðstoðarlæknir. Það, að stofnað var aðstoðarlæknisembætti í Ísafjarðarlæknishjeraði, hefir sennilega verið gert með sjerstöku tilliti til aðstöðunnar, að því er Hólshrepp ásamt Bolungavíkurverslunarstað snertir. Því virðist sjálfgefið, að aðstoðarlæknirinn sitji einmitt í Bolungavík. Nefndin telur því sjálfsagt, að við næstu mannaskifti í þessu embætti setjist aðstoðarlæknirinn að í Bolungavík. Hjer er því að eins um tímaspursmál að ræða. Viðvíkjandi tillögu nefndarinnar um það, að styrkurinn til Hólshrepps ásamt Bolungavíkurverslunarstað verði hækkaður úr 300 kr. á ári upp í 500 kr. á ári, er það að segja, að nefndin telur sanngjarnt, eftir atvikum, að ljetta þannig undir með

þeim, að halda hjá sjer lækni, eða að gera þeim aðstöðuna ljettari að leita sjer læknishjálpar á annan hátt, þar til það skipulag getur komist á, sem hjer er bent til.

Jeg skal geta þess, að nefndin hefir ekki leitað álits fjárveitinganefndar um þetta atriði, en það verður gert. Einnig skal þess getið, að þessar tillögur nefndarinnar eru í samræmi við skoðun landlæknis á málinu.