09.07.1917
Neðri deild: 6. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 158 í C-deild Alþingistíðinda. (2516)

36. mál, verðhækkunartollur

Matthías Ólafsson:

Hvað sem segja má um rjettmæti þessa frv., þá er það að segja um ræðu hv. flutnm. (G. Sv.), að hún var sjálfri sjer ósamkvæm. Hann taldi landbúnaðinn hafa orðið ver úti en sjávarútveginn; en það er með öllu rangt, í raun rjettri hefir landbúnaðurinn orðið betur úti.

Jeg get látið liggja milli hluta það, sem hann sagði um fulltrúana; því hefir verið svarað og er líka tvímælalaust, að Páll Stefánsson var ekki sendur fyrir sjávarútveginn; hann þekkir ekki sjerstaklega þá atvinnugrein; hefir víst hins vegar góða þekkingu á landbúnaði og hefir skrifað rit í þeirri grein, enda hafði hann meðmæli landsbúnaðarfjelagsins.

Að nauðsyn sje á að afnema ullartollinn, af því að bændum sje erfiðara um en áður, fæ jeg ekki sjeð að sje á rökum bygt. Bæði eru afurðir bænda í hærra verði en annara, og auk þess mundu þeir vafalaust geta fengið næga menn til vinnu með því að gjalda mönnum með gamla laginu, í landaurum. Bændur hafa svo mikið af matvöru, sem ekki er verslunarvara, að þeir standa miklu betur að vígi en sjávarútvegsmenn. Þessu tjóar ekki að neita. Það sjá allir, að kostir sjávarútvegsmanna voru þolanlegir, eins og þá stóð á, en síðan hafa lífsnauðsynjar hækkað svo, að sjávarútvegurinn stendur miklu hallari en landbúnaðurinn. Það gæti auðvitað komið til mála að færa upp tolltakmarkið á öllum afurðunum, og þá eins afurðum landbúnaðarins, og jeg mundi ef til vill ekki vera fjarri því, en að nema tollinn burt algerlega, get jeg ekki fallist á, nema bent verði á leið til þess að setja eitthvað í skarðið.