09.07.1917
Neðri deild: 6. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 159 í C-deild Alþingistíðinda. (2517)

36. mál, verðhækkunartollur

Magnús Guðmundsson:

Út af ræðu hv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) skal jeg taka það fram, að það, sem aðallega vakti fyrir mjer, er jeg gerðist meðflytjandi að þessu frv., var það, að nú er komið að þeim tíma, er kaupmenn eru vanir að ákveða verð á ullu, og mundu þeir að sjálfsögðu tiltaka það með tilliti til tollsins og þannig setja það lægra, jafnvel nokkru lægra en tollurinn nemur. Nú búast menn við, að verðhækkunartollslögin falli úr gildi 17. september í sumar, eins og til stendur, og ef svo verður, þá getur hæglega farið svo, að lítið verði þá enn flutt út af ullunni. En þá yrði afleiðingin sú, að enginn tollur af ullu kæmi í landssjóðinn, heldur lenti hann í höndum kaupendanna. Þetta er aðalástæðan, sem fyrir mjer vakti, sem sje, að ágóðinn lendi hjá framleiðendunum, en ekki hjá milliliðum, með því að telja má lítil líkindi til þess, eins og samgöngum nú er háttað, að hann komist nokkurn tíma í landssjóð.