28.08.1917
Efri deild: 41. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 675 í B-deild Alþingistíðinda. (252)

3. mál, fjáraukalög 1916 og 1917

Magnús Kristjánsson:

Jeg hafði ekki ætlað mjer að taka til máls að þessu sinni, því að mjer fanst háttv. framsm. (E. P.) skýra svo vel till. nefndarinnar. En hins vegar kom mjer það dálítið undarlega fyrir, þegar hann fór heldur að leggja liðsyrði brtt. á þgskj. 662. Jeg áleit, að hv. flm. till. (K. E.) mundi ekki taka sjer það neitt sjerlega nærri, þótt hún yrði feld; jeg geri ráð fyrir, að hann hafi búist við því, að hún næði aldrei fram að ganga. Jeg vil taka það fram, að jeg er algerlega sammála háttv. 4. landsk. þm. (G. G.) um það, að ekki geti komið til mála að lækka þessa viðurkenningu fyrir sjerstakan dugnað í að bjarga einu hjeraði frá stórvandræðum, þar sem stjórnin sá sjer ekki fært að útvega þangað flutningatæki. Það er líka annað, sem gerir það, að jeg teldi það dálítið misráðið hjá þessari háttv. deild að fella þetta algerlega niður. Það er það, að miklar líkur hafa verið færðar fyrir því, að maðurinn hafi orðið að greiða úr eigin vasa 10,000 kr., og þar sem háttv. samgöngumálanefndir hafa fallist á hærri fjárupphæð, og fjárveitinganefnd háttv. Nd. hefir einnig fallist á þá skoðun, þá virðist mjer þessi hv. deild muni taka sjer fullmikið vald með því að fella alveg niður þennan styrk, ekki hærri en hann nú er orðinn. Jeg geri því ráð fyrir, að það verði ekki gert. Jeg skal svo ekki fjölyrða meir um þetta; jeg vildi að eins lýsa yfir skoðun minni af því, að jeg var dálítið við málið riðinn í nefndinni, og af því, að jeg áleit, að þetta væri líklegast til þess að ná fram að ganga.

Loks vildi jeg nefna þennan litla styrk til handavinnunámsskeiðs kvenna á Akureyri, en jeg þarf ekki að fjölyrða neitt um hann, vegna þess, að hv. framsm. (E. P.) hefir skýrt svo nákvæmlega frá, hvernig á því stendur, að nauðsynlegt er að taka hann hjer upp, og enn fremur hefir hæstv. atvinnumálaráðherra lagt honum liðsyrði. Að eins vil jeg benda á, að það gæti verið tilfinnanlegt fyrir forstöðukonuna, ef hún ætti að borga úr sínum vasa þessar 600 kr., svo að jeg treysti því, að þessi till. nefndarinnar, eins og reyndar allar till. hennar, nái fram að ganga.