09.07.1917
Neðri deild: 6. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 162 í C-deild Alþingistíðinda. (2520)

36. mál, verðhækkunartollur

Sveinn Ólafsson:

Jeg vil að eins gera örstutta athugasemd út af atkvæði mínu, og vil þá lýsa yfir því, að jeg mun greiða atkvæði gegn frv. Jeg hefi það á vitundinni, að verðhækkunartollslögin muni verða framlengd, og þá á ekki við að fella þetta úr gildi. Jeg sje mjer ekki fært að ráðast á tekjustofna landsins, þegar útgjöldin vaxa dag frá degi. Jeg hefi búist við, að stjórnin legði fram frumvarp um framlenging verðhækkunartollslaganna, og það er eigi ósennilegt, að hún geri það síðar, — eða þá eitthvað í þeirra stað.

Út af þeim orðum, sem fallið hafa um samningana við Breta, að landbúnaðurinn hefði orðið út undan, þá vil jeg benda hv. deild á það, að ullarverðið er engin sönnun þess. Menn verða að muna eftir því, að Bretar sækjast ekki eftir ull. Eins og sjá má af samningunum eru það að eins neysluvörur, sem Bretar þurfa sjálfir að nota, sem bærilegt verð hefir fengist fyrir. Ull og dúnn eru því eðlilega í litlum metum hjá þeim, og vonin þess vegna frá upphafi lítil um verðhækkun á þessum vörum. Þess vegna skifti víst litlu, hver samdi um sölu á þessum vörum.