09.07.1917
Neðri deild: 6. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 164 í C-deild Alþingistíðinda. (2522)

36. mál, verðhækkunartollur

Pjetur Jónsson:

Jeg gleymdi áðan að minnast á ákúrur hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) til stjórnarinnar, út af sendiför Páls Stefánssonar. Jeg vil bera af stjórninni sökina í þessu máli. Hæstv. fyrverandi stjórn bar það undir mig, sem formann Samvinnufjelags Norðurlands, og stjórn Sláturfjelags Suðurlands, hvaða mann ætti að senda fyrir landbúnaðarins hönd. Niðurstaðan af því varð sú, að Hallgrímur Kristinsson á Akureyri var tilnefndur af okkur, en svo atvikaðist það þannig, að Hallgrímur sá sitt óvænna með ferð þessa. sökum mjög áríðandi starfa (útvegun á leiguskipi, vörum o. fl.). Tilkynningin um það komst ekki til mín fyr en eftir nýár, og þá var orðið ofseint að ná í mann annarsstaðar en í Reykjavík. Í samráði við mig, stjórn Sláturfjelagsins og Búnaðarfjelagsins var svo Páll Stefánsson sendur. Mín persónul. skoðun er líka sú, að hjer hafi ekki verið um að velja álitlegri mann til þess starfa en Pál Stefánsson.

Viðvíkjandi málinu sjálfu vil jeg segja það, að ef líkur eru til, að verðhækkunartollslögin verði framlengd, verð jeg á móti þessu frv. Jeg vildi því að þessu máli yrði skotið í nefnd og þá athugað um framlenging laganna. Annars þarf að vinda bráðan bug að þessu máli, því að ef ullin verður undanþegin verðhækkunartolli, þarf það að vitnast úti um land, áður en ullarverðið alment er kveðið upp.