09.07.1917
Neðri deild: 6. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 165 í C-deild Alþingistíðinda. (2523)

36. mál, verðhækkunartollur

Einar Arnórsson:

Jeg ætla ekki að blanda mjer inn í umræður um nýja verðlagssamninginn við Breta í vetur, er honum ekki nægilega kunnugur og býst líka við, að þinginu gefist kostur á að athuga hann betur. Ekki ætla jeg heldur að fara inn á það, hvort afnema beri verðhækkunartollslögin eða ekki, heldur minnast á þá athugasemd, er hv. þm.

V. Sk. (G. Sv.) gerði, er hann benti á, að ef lögin yrðu látin verða sjálfdauð, ef eg má komast svo að orði, þá myndi tollurinn lenda að mestu í vasa kaupmanna. Þetta er mjög áríðandi athugasemd, en hún leiðir lengra en að ullartollinum, því að hún snertir einnig ýmsar aðrar vörur. T. d. er mjög sennilegt, að ýmsir kaupmenn muni „spekulera“ í að kaupa síld af smáútgerðarmönnum fyrir 17. sept., og taka þá, þegar þeir kaupa, til greina tollinn og gefa því lægra fyrir síldina en ella. Þegar svo að útflutningnum kemur, eru lögin sáluð, og þá fer eins með síldina og ullina, að kaupmaðurinn græðir verðhækkunartollinn, en framleiðandinn og landssjóður fá ekkert af honum. Það er því nauðsynlegt að gera sjer grein fyrir, hvort eigi að framlengja lögin eða ekki. Það þarf að ákveða svo fljótt sem auðið er. Jeg skal leyfa mjer að endurtaka það, að ef lögin verða ekki framlengd, verður að taka tillit til fleiri vörutegunda en ullar.