12.07.1917
Neðri deild: 8. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 177 í C-deild Alþingistíðinda. (2538)

36. mál, verðhækkunartollur

Matthías Ólafsson:

Það sást glögt við 1. umr., að það hefir vakað fyrir flutningsmanni að ljetta tolli af bændum, og geta þó haldið tilsvarandi tolli á sjávarútveginum. Hið sama sjest ekki síður á nefndarálitinu. Nefndin segir ekki tíma til að athuga lögin í heild sinni nú, í sambandi við frv. það, sem nú er til umræðu, og er það þó harla einkennilegt að bera fyrir sig tímaleysi svona í þingbyrjun. En mönnum er brátt um að koma þessu frv. í gegn, og ástæðan er sú að bjarga ullinni undan verðhækkunartolli, án þess að aðrar vörutegundir komi með.

En það er alveg eins um fiskinn og um ullina; það er ósatt, að búið sje að selja hann; það er einmitt verið að því þessa dagana. Ef flm. hefði viljað vera eins rjettsýnn í garð sjávarútvegsins og landbúnaðarins, átti hann að taka fiskinn með. Framleiðslukostnaður bænda hefir ekki aukist svo, að meiri ástæða sje til að ljetta tolli af ull en af sjávarafurðum. Landbændur geta lagt heimilum sínum margt, sem menn við sjávarsíðuna hafa ekki. Dýrari verkfæri nota bændur svo lítið, að þar getur ekki verið um stóraukinn kostnað að ræða.

Ekki verður heldur sjeð, að dýrt sje að framleiða ull þar sem fjeð gengur sjálfala; svo er t. d. á mörgum jörðum á Reykjanesi; jeg þarf ekki að nefna aðrar en Setberg og Herdísarvík. Útigangsjarðirnar eru um land alt. Telja má kostnaðarlaust að framleiða ull á þeim jörðum. Það eitt veit jeg, að ef bændur legðu jafnmörg þúsund í framleiðslukostnað og útgerðarmenn gera, þá myndu þeir græða miklum mun meira að öllum jafnaði en sjávarútvegsmenn.

Flm. ljet sjer þau orð um munn fara, að útgerðarmenn myndu ekki gera út skip sín á síldveiðar, nema hagnaður yrði að. Hlægilegt er að heyra landmann segja annað eins og þetta. Menn gera út, þótt hagnaðarvonin sje mjög óviss; nú í sumar er t. d. alveg óvíst, hvort nokkur hagnaður verður að síldveiðum.

Jeg er feginn breytingartillögunni, sem fram er komin, og jeg mun greiða henni atkvæði, þótt varhugavert sje vegna landssjóðs. En úr því að fella á verðhækkunartollinn burt að nokkru, er skylt að fella hann burt að öllu.