12.07.1917
Neðri deild: 8. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 178 í C-deild Alþingistíðinda. (2539)

36. mál, verðhækkunartollur

Bjarni Jónsson:

Jeg vil byrja á að þakka þeim þm., sem vildu hindra, að brtt. mín kæmist á dagskrá.

Hv. flm. (G. Sv.) veit, að jeg hefi ekki gert brtt. mína til að fella frv. hans. Það er ekki rjett, að fiskurinn sje þegar mestallur seldur. Ekki er mikið þótt ein eða tvær veiðistöðvar á Suðurnesjum hafi þegar selt, því að svo er guði fyrir þakkandi, að fiskveiðar eru víðar við land. Jeg skal játa um ullina, að hún er eitt af því sjálfsagðasta að losna við tollinn, en það er athugandi, að öll vara er sjálfsögð að losna við hann. Illa var hann til kominn og aldrei miðaður við annað en gróða, og er sjálfsagður hlutur, að hann falli burt um leið og grundvöllurinn, sem hann var bygður á. Landssjóður verður að afla tekna á annan hátt. Jeg tel eigi samboðið þinginu að halda lögum, sem grundvöllurinn er fallinn undan. Háa verðið er enginn gróði lengur. Þetta er aðalástæðan, sem jeg hefi fram að færa, nú eins og í vetur. Síðan hefir ekkert breyst. Jeg hugsaði misseri fyr, en læt mjer lynda, ef menn fylgja nú þessu máli, er jeg hefi áður fram borið. Það munar nokkru, ef misrjettið hverfur þó þann stutta tíma, sem eftir er. Að öðru leyti vísa jeg til orða minna í vetur og nú við 1. umr.

Úr því að nafnakall var haft um, hvort brtt. mín mætti koma á dagskrá, vil jeg leggja til, að nafnakall verði um hana, er hún kemur til atkvæða.

Jeg get eigi orðið við bón hv. flm., um að taka brtt. mína aftur, en mælist aftur til, að hann greiði henni atkvæði.