12.07.1917
Neðri deild: 8. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 186 í C-deild Alþingistíðinda. (2544)

36. mál, verðhækkunartollur

Björn Stefánsson:

Jeg verð að segja það, að jeg kann því illa, hve frv. þessu er hraðað. Jeg vil taka undir það með hv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.), að það er ilt, að fjárhagsnefnd kemur með tillögu um að afnema tekjustofn, án þess að ráða úr, hvað landssjóður skuli fá í staðinn. Jeg, býst við, að menn segi, að málinu verði að flýta, því að nú sje verið að ákveða ullarverðið, en það muni verða dregið meðan mál þetta er á döfinni og þar til það er búið. Jeg fyrir mitt leyti held, að þessi litli tollur geti ekki haft nein veruleg áhrif á verðið. Jeg hygg, að það sje vandsjeð enn, hvað kaupm. fá fyrir ullina, og að verzlunaráhætta þeirra yfir höfuð velti, á þessum tímum, á öðru og meiru en því, hvort ullarpundið kostar þá 1—2 aurum meira eða minna. Jeg játa það satt vera hjá formælendum þessa máls, að grundvöllur verðhækkunartollsins sje fallinn, því að nú er alt annar og meiri kostnaður við framleiðslu en áður. En það er ekki nóg ástæða til að afnema þennan skatt, meðan aðrir miklu órjettlátari skattar haldast, t. d. eins og vörutollurinn, sem jeg þó ekki býst við að verði afnuminn. Hann er nefskattur bæði af fátækum og ríkum. Þótt útflutningstollur af íslenskum afurðum sje ranglátur, er þar þó ekki tekið af öðrum en þeim, sem hafa eitthvað að gjalda af, en vörutollinn þurfa allir að gjalda, hvort sem þeir hafa nokkuð eða ekkert handa á milli. Það gæti komið til mála að afnema hin núgildandi lög um verðhækkunartoll og búa til önnur á öðrum grundvelli.

En þótt málið væri tekið fyrir á rjettlátum grundvelli, get jeg þó ekki gengið inn á að hraða því svo mjög, að fella burt toll á einstökum vörutegundum, fyr en maður sjer úrslit fjármálanna á þessu þingi. Þess vegna má búast við, að verðhækkunartollslögin verði framlengd óbreytt eða með breytingum. En ef deildin ætlast til, að lögin falli að fullu úr gildi 17. sept. í haust, mun jeg greiða atkvæði með brtt. hv. þm. Dala. (B. J.) um að láta lögin fara öll í einu. Mun jeg því greiða atkv. með henni og síðan með frv. til 3. umr., í þeirri von, að fjárhagsnefnd horfi betur í kring um sig. En komi það aftur frá nefndinni á líku stigi og nú, mun jeg greiða atkv. móti frv. úr þessari hv. deild.