12.07.1917
Neðri deild: 8. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 194 í C-deild Alþingistíðinda. (2550)

36. mál, verðhækkunartollur

Einar Jónsson:

Jeg skal ekki tefja umræðurnar lengi. Hæstv. fjármálaráðh. (B. K.) sagði, að grundvöllurinn fyrir verðhækkunartollslögunum væri horfinn, en það yrði samt að leggja á framleiðsluna og framleiðendur. Jeg hygg nú, að það mætti leggja á fleiri, t. d. bæði kaupmenn og ráðherra, því að jeg sje ekki, að það sje rjett að skattleggja að eins framleiðendur, en sleppa öllum öðrum Mjer er það ekkert kappsmál, hvort lögin verða afnumin eða ekki, en vil þó benda á, að öðru máli er að gegna um ull en fisk, því að hann er að mestu leyti þegar seldur. Hjer er ólíku saman að jafna. Fiskinn þurfa menn ekki endilega að selja út úr landinu, því að hann má þó altaf eta, en ullina verða bændur að selja. Fiskinn má líka altaf geyma, en ull miklu síður. Þegar talað er um, að verðhækkunartollurinn hafi numið rúmum 500000 kr. síðasta ár, þá er ekki við það að miða nú, því að nú seljast hross ekki, ull og fl. er í lægra verði og tollurinn hlýtur því að lækka. Hv. l. þm. Reykv. (J. B.) sagði, að bændur munaði ekki um ullartollinn, en aðra munar þá ekki heldur um hann. Það hefir þegar verið bent á, af hv. flm., að mikið af mismuninum hlýtur að lenda í vasa milliliða, og væri þó rjettara, að eigendurnir hefðu hann. Það hefir ekki verið tekið tillit til kaupfjelaganna; þar hlýtur þó mismunurinn að lenda hjá framleiðendum, hvort sem lögin verða afnumin eða ekki, en ef ullin er seld til kaupmanna, græða þeir hann. Jeg ætla ekki að fara út í það, hvort rjett sje að afnema verðhækkunartollinn eða ekki, en álít þó varlegra að athuga það vel, áður en það verður afráðið.

Af því að jeg á sjálfur ull og á því hjer hlut að máli, ætla jeg að biðja hæstv. forseta að fría mig frá að greiða atkvæði. (B. J.: Það dugir ekki; ullin er svo lítil).