18.07.1917
Efri deild: 10. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 198 í C-deild Alþingistíðinda. (2558)

36. mál, verðhækkunartollur

Magnús Kristjánsson. Jeg get raunar að mestu slept því að tala um þetta mál, með því að hv. þm. Ísaf. (M. T.) hefir að mestu tekið það fram, sem jeg vildi sagt hafa.

Jeg hafði ekkert tækifæri til að hlusta á umr. um mál þetta í hv. Nd., og get því ekki borið um, hverjar ástæður hafa verið færðar fyrir frv. og á hverju það byggist, að þessi sjerstaka vörutegund er tekin burt úr verðhækkunartollslögunum. Í greinargerð þeirri, er fylgdi frv., get jeg ekki sagt, að nein ástæða sje færð fyrir því.

Ár það, er verðhækkunartollslögin komu í gildi, var enginn tollur greiddur af þessari vöru, eða að minsta kosti er það víst, að framleiðendur sjálfir þurftu ekki að greiða hann. Það er með öðrum orðum, að þessi vörutegund hefir ekki verið tolluð nema í 1 ár, þar sem aðrar vörur hafa verið tollaðar í tvö ár. Og ekki getur það verið ástæða til að nema tollinn úr gildi.

Upphæð sú, er hjer ræðir um, er svo lítil, að hvorki dregur hún landssjóð nje greiðendur. Hvað það snertir er málið mjög lítilfjörlegt. En jeg lít svo á, að frv. sje ekki rjettmætt vegna þess, að það er ekki enn kominn tími til að dæma um það, hvort verðhækkunartollslögin eigi að standa eða falla.

Jeg lít svo á, að jafnvel þótt það lægi í augum uppi, að grundvöllur sá, sem þetta gjald er bygt á, væri gerbreyttur, þá sje ekki sjálfsagt, að lögin eigi að falla niður nú, heldur álít jeg rjettara að breyta grundvellinum þannig, að hann hækkaði að sama skapi og framleiðslukostnaðurinn hefir hækkað.

Það mætti má ske búast við því, að tekjurnar yrðu litlar á þessu ári, en það vakir fyrir mjer, að það sje ef til vill óhyggilegt að nema lögin alveg úr gildi, því að jeg álít, að þegar stríðið er úti, þá geti þessi lög átt vel við. Þá koma líklega 1—2 góðæri fyrir framleiðendur, og þeir verða þá líklega sjerstaklega vel færir til að inna þetta gjald af hendi, og þá væri rjett að breyta aftur grundvellinum.

Jeg sje enga ástæðu til þess að tefja tíma þingsins með þessu frv. En annað hvort verðum við að framlengja verðhækkunartollslögin eða að endurskoða tekjuskattslögin, því að það eru óumþráttanlega rjettir gjaldstofnar.