03.08.1917
Efri deild: 21. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 203 í C-deild Alþingistíðinda. (2565)

36. mál, verðhækkunartollur

Frsm. meiri hl. (Halldór Steinsson):

Meiri hluti nefndarinnar hefir ekki getað fallist á, að þetta frv. sje rjettmætt eða að það muni koma að tilætluðum notum. Hann hefir að vísu kannast við, að verðhækkunartollslögin sjeu ekki allskostar heilbrigð, eins og nú hagar til, en honum skilst svo, sem óheilbrigðara sje að undanskilja einstaka vörutegundir og koma þannig misrjetti á milli atvinnugreinanna.

Jeg geng að því vísu, að þeir menn, sem fluttu þetta frv. inn á þingið, hafi búist við, að þeir mundu með því ljetta einhverri stórbyrði af landbúnaðinum. En jeg hygg, að þeir hafi ekki gert sjer nægilega ljóst, um hve mikið smáræði var hjer að ræða, og hvað bændur munaði afarlítið um eftirgjöf á þessu gjaldi. Tollurinn mundi nema einum eyri af pundi, eftir því ullarverði, sem nú er. Bóndi, sem ætti 200 pund af ull, mundi því losna við 2 krónu gjald af þessum 300 krónum, sem hann fengi fyrir ullina. Og jeg verð líka að segja bændum hjer í þinginu það til hróss, að þeir hafa ekki flutt þetta frumvarp inn á þingið og hafa ekki lagt neitt sjerstakt kapp á, að það næði fram að ganga, þó að þeim hafi ekki þótt taka því að vera á móti því. En nú er annað aðalatriðið í þessu máli, sem jeg verð að minnast á. Frumvarpið mundi alls ekki ná tilgangi sínum, þó að það yrði samþykt, þeim tilgangi sem sje, að ljetta tollinum af bændum og sporna við því, að kaupmenn geti stungið honum í sinn vasa. Margir kaupmenn eru búnir að kaupa ull, og þeir þekkja verðhækkunartollslögin eins vel og við, sem sitjum í þessari hv. deild, og vita, að þau falla úr gildi 16. sept. í haust. Sumir kaupmenn hafa ef til vill tekið tillit til tollsins, þegar þeir ákváðu verð á ullinni. Jeg segi ef til vill, því að flestir kaupmenn munu ætla sjer svo ríflegan gróða, að litlu skiftir fyrir þá, hvort hann er ½% meiri eða minni. En hinir munu fleiri, sem alls ekki hafa búist við að koma ullinni frá sjer fyrir 16. september, og því hafa ekkert tillit tekið til tollsins.

Jeg var þegar sannfærður um, er þetta frv. kom fram, að það mundi ekki koma að tilætluðum notum, en þó að það sje gagnslaust, þá er naumast hægt að segja, að það sje meinlaust. Það er ekki meinlaust, sökum þess, hve mikið misrjetti kemur fram í því á milli atvinnugreinanna.

Jeg vona því, að hv. deild fallist á tillögu meiri hluta nefndarinnar um að fella þetta frumvarp.