03.08.1917
Efri deild: 21. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 210 í C-deild Alþingistíðinda. (2570)

36. mál, verðhækkunartollur

Magnús Kristjánsson:

Jeg finn ástæðu til að taka til máls, vegna þess, að nú er farið að ræða verðhækkunartollslögin í heild sinni.

Jeg er ekki sammála minni hluta, er hann gengur út frá því, að verðhækkunartollslögin muni verða numin úr gildi á þessu þingi. Jeg geri ráð fyrir, að það verði ekki. Það er því meiri ástæða að segja nokkur orð, þar sem hv. 2. landsk. (S. E.) hefir viðhaft bæði sterk og óviðeigandi orð, svo sem: „Þessi atvinnumáladraugur..... þessi óviturlegu lög, sem öllum er illa við...“ Jeg leyfi mjer að mótmæla því, að þessi ummæli sjeu á rökum bygð. Landinu hafa komið vel þær tekjur, sem því hafa hlotnast vegna þeirra laga. Mætti með sanni snúa orðum hv. þm. við og segja, að þessi lög hafi verið einhver viturlegustu. Því að þótt þau hafi ekki gefið af sjer nema eina miljón, þá hafði landið fyllilega þörf fyrir það fje. Þau hafa ekki komið þungt niður á einstökum framleiðendum, því að þegar um er að ræða að leggja á beinan framleiðsluhagnað, getur slíkt ekki skoðast sem neinn sjerlega ósanngjarn skattur, en það er svo að heyra, að hv. 2. landsk. þm. (S. E.) telji það mestu óhæfu að leggja skatt á hreinan arð, og þá fer hans skattamálastefna að verða mjer óskiljanleg.

Jeg vil sjerstaklega nefna tekjuskattslögin. Það er að eins örlítill hluti af gjaldendum, sem þau ná til. Þessi lög gera ofurlítið jafnvægi að því leyti og eru því beinlínis nauðsynleg.

Um einstök atriði frv. er það að segja, að því hefir verið haldið fram, að ekkert verði flutt út af ull fyrir 16. sept. næstk. Jeg efast um, að nokkur geti fullyrt það eða um það sagt með vissu. Mjer er nær að ætla, að eitthvað hafi þegar verið flutt út af ull.

Áhersla hefir verið lögð á það, að mikill hagnaður muni renna í vasa kaupmanna, ef lögin fá að standa. Jeg get ekki skilið þá rökfærslu. Mikill hluti ullarinnar er alls ekki seldur kaupmönnum, og ætti hv. atvinnumálaráðherra því ekki að vera að byggja alrangar ályktanir um milliliðahagnað á þessu atriði tolllaganna, sem hjer liggur fyrir. Það ætti að mega finna eitthvað annað, sem betur ætti við, til þess að koma mönnum í skilning um skaðsemi kaupmannastjettarinnar fyrir þjóðfjelagið. Kaupfjelögin flytja út mikinn hluta af ullinni, og rennur þá þetta gjald ekki úr vasa framleiðenda til kaupmanna. Það er því að eins um þann litla hluta að ræða, sem eftir væri, og er ósannað, að nokkurt verulegt tillit hafi verið tekið til tollsins við þá verðlagningu.

Hæstvirtur atvinnumálaráðherra skildi svo ummæli hv. þm. Snæf. (H. St.), að kaupmenn legðu vanalega mjög ríflegan hagnað á innlendu vöruna.

Jeg skildi orð hv. þm. öðruvísi. Reynslan hefir og sýnt það um margra ára skeið, að kaupmenn láta sjer nægja mjög lítinn hagnað af innlendri vöru, en leggja aftur meira á útlendu vöruna.

Því hefir verið haldið fram, að öðru máli væri að gegna um fiskinn. Hann sje þegar seldur stórkaupmönnum og verð hans ákveðið með tilliti til verðhækkunartollsins.

Jeg verð að mótmæla, að þetta sje rjett. Að vísu kann töluvert af fiski að vera selt hjer í Reykjavík, en slíkt á sjer alls ekki stað úti um land. Er þá sama máli að gegna um fiskinn sem um ullina, og ætti því eitt að ganga yfir báðar þessar vörutegundir. Það skiftir ekki máli, þó að gjaldið af ull sje hverfandi í sambandi við tollinn af fiski. Jeg er ekki að fárast um þessar fáu krónur, sem ullartollurinn gefur af sjer, þótt þær gengju undan, en samræmisins vegna verður sama að gilda um þetta gjald eins og annan verðhækkunartoll.

Verðhækkunartollslögin ætti að endurbæta þannig, að undirstöðuverðið væri miðað við framleiðslukostnaðinn, og vona jeg, að svo rætist úr með atvinnuvegina, að tollurinn samt sem áður gefi landinu talsverðar tekjur.