03.08.1917
Efri deild: 21. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 212 í C-deild Alþingistíðinda. (2572)

36. mál, verðhækkunartollur

Frsm. minni hl. (Sigurður Eggerz):

Jeg vil enn taka fram ástæður mínar fyrir því, að jeg vil nema vörutollslögin úr gildi. Í fyrsta lagi er með þeim lagt á atvinnuvegina sjálfa, og álít jeg það rangt. Í öðru lagi er það, sem jeg tók ekki fram í fyrri ræðu minni, að það er mjög óheppilegt að hafa jafnóábyggileg skattalög. Verði engin verðhækkun, sem oftast á sjer stað í vondum árum, gefur hann landinu heldur engar tekjur. Verðhækkunartollurinn er því bæði „principielt“ ranglátur og óábyggilegur. Þegar hagur landsins stendur sem verst, er ógerningur að reiða sig á hann. Hins vegar er rjett að leggja á beinan tekjuskatt; sá skattur nær til alls stórgróða.

Jeg skal ekki þrátta um það, hvort allur fiskur sje þegar keyptur upp. En mjer hefir verið sagt, að margir hafi þegar selt allan sinn fisk eða lofað honum. Og allur sá fiskur er í höndum stórkaupmanna, er hafa grætt afskaplega mikið á honum, og þola því þennan toll mjög vel.

Það er sjálfsagt, að vaka yfir jafnvægi á milli atvinnuveganna. En hitt er líka ilt að vera ofafbrýðissamur yfir hverri krónu, sem veitt er til hvors atvinnuvegarins. Það er hvorttveggja, óholt og ógagnlegt. Því miður hefir brytt ofmikið á þessari afbrýðissemi. Hún hefir jafnvel gengið svo langt, að ef sumir menn heyra, að veittar sjeu nokkrar krónur öðrum atvinnuvegi en þeirra, þjóta þeir upp sem nöðrur. Það væri langaftarasælast, að hvor aðalatvinnuvegurinn um sig styddi hinn, og myndi þá hvortveggi blómgast.

Vil jeg svo enda 59. ræðuna, sem haldin er í þessu máli, í þeirri trú, að hún verði til þess, að málið nái fram að ganga.