25.07.1917
Neðri deild: 17. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 223 í C-deild Alþingistíðinda. (2583)

42. mál, einkasala á mjólk

Frsm. (Einar Arnórsson):

Þungamiðjan í þessu frv er það, að bæjarstjórn Reykjavíkur fái heimild til að taka að sjer alla mjólkursölu í bænum. Um þetta atriði er ágreiningurinn, um hin atriðin ekki, enda ber nefndin fram frv., sem felur í sjer hin atriðin, sem þetta frv. hefir að geyma.

Það hafa verið skiftar skoðanir um það í bæjarstjórninni hjer, hvort ráðlegt væri, að bærinn tæki að sjer einkasölu á mjólk, en að því er jeg best veit var það felt þar í vetur eða vor með 6:6 atkv.

Það er satt, að það hefir bólað á almenningsvilja hjer í bæ með einkasöluheimildinni. Tillaga í þessa átt var samþ. hjer á þingmálafundi skömmu fyrir þing, og sömuleiðis á borgarafundi, sem hjer var haldinn nú um daginn, sem þó mun hafa verið mjög fámennur. En jeg verð að segja það, að samþyktir þessar hafa ekki haft áhrif á afstöðu mína til þessa máls, því að satt að segja hefi jeg ekki heyrt nein rök, sem hafa sannfært mig um, að rjett væri, að bærinn fengi þessa heimild.

Nefndin hefir leitað umsagnar borgarstjóra um málið og borið undir hann frv. á þgskj. 94, og hefir hann orðið nefndinni sammála um niðurstöðuna að öllu leyti.

Aðalástæðan fyrir því, að nefndin hefir ekki getað fallist á frv. það, er hjer liggur fyrir, er sú, að hún fær ekki sjeð, að með því verði náð því markmiði, er fylgjendur frv. hafa ætlast til. Fyrir þeim vakir aðallega tvent: 1) að þrifnaður og meðferð mjólkur batni, 2) að mjólkinni verði jafnara skift. Um síðara atriðið er það að segja, að til þess að koma því í framkvæmd þarf sjerstakar ráðstafanir, sem ekki eru í frv. Um fyrra hlýðir það svar, að bærinn hefir lík tök um meðferð mjólkur, þótt honum verði ekki veitt einkasala; til þess er heilbrigðisnefnd, heilbrigðissamþykt og heilbrigðisfulltrúi. Hjer við bætist og, ef frv. á þgskj. 94 nær fram að ganga, heimild bæjarstjórnarinnar til þess að svifta menn mjólkursöluleyfi. Hitt er satt, að þótt þessar reglur yrðu settar, þá eru þær ekki fullnægjandi. T. d. vantar ákvæði um að pasteurseyða mjólk, eins og er í Kaupmannahöfn t. d. Þar er gott lag á öllu, og þó engin einkasala.

Því var skotið fram við 1. umr. af hv. flm. (J. B. ), að ástæða væri til þess að veita einstökum mönnum undanþágu, svo að einstakir menn, sem nú framleiða mjólk, gætu haft söluna áfram sem áður. En við nánari umhugsun má öllum vera það ljóst, að margir mundu koma fram, sem teldu sig eiga rjett til undanþágunnar. Pjetur mundi segjast ekki verri en Páll, svo að ákvæði um undanþágu til handa einhverjum mundi tvíllaust valda óánægju.

Enn er ein ástæðan á móti frv., sú, að nefndin þykist þess fullkomlega vís, að framleiðendur mundu telja það vantraustsyfirlýsingu á sjálfa sig.

Auk þess er það upplýst, að mjólkurfjelag Reykjavíkur ætlar að taka málið upp, fækka útsölum og gera ráðstafanir um þrifnað.

Sje jeg þá ekki ástæðu til þess að fjölyrða um málið að sinni. Aðrar ákvarðanir verður tækifæri til að minnast á í sambandi við frv. á þgskj. 94. En þetta mál leggur nefndin til þess að afgreitt verði með hinni rökstuddu dagskrá, sem er á þgskj. 93 (sbr. þgskj. 172).