25.07.1917
Neðri deild: 17. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 229 í C-deild Alþingistíðinda. (2587)

42. mál, einkasala á mjólk

Bjarni Jónsson:

Hv. 1. þm. Reykv. (J. B.) furðaði sig á, að nefndin skyldi leyfa sjer að bera fram slíka tillögu, sakir ókunnugleika hennar á þessu máli. Jeg tel óþarft að fjölyrða um þetta atriði, úr því að hv. 2. þm. Rang. (E. J.) hefir snúið svo á hv. 1. þm. Reykv. (J. B.) (E. J.: Jeg hef ekkert ráðist á hann). Jeg sagði „snúið á“, sem er tekið úr róðrarmáli. Hv. 1. þm. Reykv. (J. B.) mun ganga það eitt til, að bæjarstjórn verði innan handar að sjá um hreinlega úthlutun. En hvað skal þá svo „langur gaur í svo lítilli grýtu?“ Er það öll ástæðan til að koma á einkasölu? Ef jeg mætti trúa mönnum fyrir hugsunum mínum, skal það um mælt, að jeg tel ekki hreinlæti eina vitund tryggara, þótt bæjarstjórn ætti alla sölustaðina, en nú. Jeg vil halda, að bæjarstjórnin gæti valið mjólkurseljendur ver, en ekki betur en sjálfir eigendur mjólkurinnar. Hvaða saltari er það, sem hv. 1. þm. Reykv. (J. B.) vill keyra í höfuð mjer?

(J. B.: Mjólkursöluskýrslur). Jeg er mjög þakklátur þeim mönnum, er vilja fræða mig um það, sem jeg veit ekki, en jeg hefi verið hjer í Reykjavík lengur en hv. 1. þm. Reykv. (J. B.). Hann og aðrir geta sparað sjer og þeim, sem ókunnugir eru, upplýsingar sínar; jeg þarfnast þeirra ekki, en get gefið þeim upplýsingar, ef þeir vilja. Jeg hefi sagt við 2 eða 3 bæjarfulltrúa, að jeg mundi líta öðruvísi á þetta mál, ef það væri ætlað til að tryggja stórt kúabú, er bærinn ætti sjálfur. En jeg vil ekki, að þessir herrar sjeu að sletta sjer fram í mína samninga um mjólkurkaup til heimils míns. En svo að jeg hverfi aftur að því, sem umskiftingurinn sagði, um langan gaur í litilli grýtu, þá skal jeg líta á einstakar greinar frv.

Mjer kemur 2. gr. frv. svo fyrir, að á meðan bæjarstjórnin noti heimild þessa sje stöðvuð öll mjólkursala í landinu, og enginn fái mjólk, nema sá, sem er á heimili þar sem kýr eru mjólkaðar. (J. B.: Undanþágur!) Það yrðu margar undanþágur, ef veita ætti öllum, sem búa utan Reykjavíkur. Hjer er ekki slælega af stað farið. Nú skyldi einhver segja, að þetta eigi að takmarkast við lögsagnarumdæmi Reykjavíkur. Þá er þetta að vísu einfaldara, en þó ekki annað en vindhögg, því að mjólkursalar heyra fæstir undir lögsagnaramdæmi Reykjavíkur; eiga heima úti á Seltjarnarnesi eða uppi í Mosfellssveit. 6. gr. er dæmalaust handhæg fyrir einkaleyfishafa:

„Jafnskjótt og bæjarstjórnin notar heimildarlög þessi, eru samningar þeir, er kunna að hafa verið gerðir um mjólkursölu í lögsagnarumdæmi Reykjavíkur, úr gildi numdir“.

Jeg þakka kærlega fyrir. Jeg hefi gert samning við búanda upp í Mosfellssveit, og jeg þekki ekki, að þing eða bæjarstjórn hafi heimild til að gera þann samning ógildan. Ef þetta yrði samþykt, yrði jeg sjálfsagt að senda mjólkurbrúsa minn til þessarar hreinlætisstjórnar. Vildi jeg þá mælast til, að út væru gefin lög um, að eftirlitsmennirnir hefðu vasaklúta til að verka nasir sínar, áður en þeir skygndust í minn brúsa.

Í 5. gr. mun koma fram einn tilgangur frv. Það er ágætt, ef bæjarstjórnin vill taka að sjer að sjá um, að þeir fái mjólk, er helst þurfa. Nú veit jeg ekki, hvort hún hygst að bæta úr því, að þeir, sem helst þurfa, eru þeir, sem síst geta borgað. Eða hvort mun það tilgangur bæjarstjórnar að borga fyrir aumingjana? Jeg hygg helst, eftir annari reynslu um ráðstafanir

bæjarstjórnar, er hún skal ákveða, hver helst þurfi t. d. mó, að þeir þurfa helst mjólk, er geta borgað fyrirfram, t. d. fyrir heilt ár. Ef bæjarstjórnin fylgdi fram þessari grundvallarreglu, væri einkasala mjólkur einstaklega vel komin í hennar höndum.

Jeg sje, að frv. þetta er vel úr garði gert, og í því ýms skemtileg ákvæði, sjerstaklega 6. gr., er jeg áður nefndi. En í því er svo margt furðuefnið, að eigi er hægt að álasa nefndinni fyrir að gera betra frv.

Hv. 1. þm. Reykv. (J. B.) skildi ekki, að þessi einkasöluheimild gæti orðið til að minka mjólkurframleiðslu og flutning til bæjarins; til þess væri engin skynsamleg ástæða. Hefði hann leitað að ástæðum, hefði hann fundið eina í sínu eigin frv., í 6. gr.: „allir samningar.... úr gildi numdir“. Það gæti verið, að framleiðandi vildi ekki skipta við þann viðskiptamann, er byrjaði viðskiptin með því að fá lög um, að samningurinn skuli úr gildi numinn. Þetta er full ástæða, en hún er ekki skynsamleg, því að öll greinin er óskynsamleg. Jeg þykist geta sagt, að yrði frv. þetta samþykt, mundi að fullu taka fyrir flutning mjólkur frá bændum utan Reykjavíkur.

Jeg hygg því alveg rjett að samþykkja rökstuddu dagskrána, og láta þetta frv. deyja drotni sínum, en hvað málinu sjálfu við víkur, skal jeg þá fyrst líta á einkasöluheimild bæjarstjórninni til handa, er hún á mörg hundruð kúa og nóg fóður handa þeim. Skal jeg þá hjálpa henni, ef þá er ástæða til að treysta henni að öðru leyti.