25.07.1917
Neðri deild: 17. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 242 í C-deild Alþingistíðinda. (2590)

42. mál, einkasala á mjólk

Frsm. (Einar Arnórsson):

Jeg skal vera mjög stuttorður, enda er nú hv. 1. þm. Reykv. (J. B.) dauður.

Hv. 1. þm. Reykv. (J. B.) sagði, að framkvæmdir ákvæðanna færu eftir völdunum. Ef svo er, þá sannar það að eins, að þau stjórnarvöld, sem hlut eiga að máli, eiga svo óhæga aðstöðu, að þau geta ekkert gert.

Sami hv. þm. sagði, að gera mætti menn afturreka með mjólkurbrúsa, en fyrir kæmi þó, að þeir færu með þá brúsa á annan sölustað og seldu innihaldið þar. Það getur verið rjett, en ef svo er, þá sannar það meira en hv. þm. vill láta það sanna, sem sje, að einkasala kemur ekki heldur að haldi. Þegar heilbrigðisfulltrúinn bannar að selja mjólk, þá fara þeir með hana til Sigríðar, sem gerðir hafa verið afturreka frá Guðrúnu. Eða ef t. d. mjólkursölumaður kemur með óhreina mjólk á brúsa, en eftirlitsmaður einkasölunnar segist ekki taka hana gilda. Hinn segir ekkert við því, fer með brúsa sinn og selur úr honum mjólkina í einkahúsum, til þess að hafa þó eitthvað upp úr krafsinu. Svo að ef hugsuninni er fylgt út í æsar, sjest, að einkasalan dygði ekki heldur.

Sami hv. þm. sagði enn fremur, að ekki væri hægt að hafa hemil á kaupunum með miðasölu. Mundi nú ekki hávís bæjarstjórn geta vitað, hve mikið kæmi til bæjarins, t. d. með því að bjóða mjólkursölumönnunum að gefa skýrslur um það?

En þótt einkasöluheimildin yrði notuð, og ef óánægja kæmi fram, þá býst jeg við, að fara mætti í kringum lögin, líkt og gert er um hámarksákvæði verðlagsnefndar. Það má heita opinbert leyndarmál, að menn hafa komið með smjörpinkla sína hingað og selt smjörið hærra verði en heimilt er. Jeg býst við, að svipað yrði um einkasöluheimildina.

Jeg skal svo ekki orðlengja málið frekara. Umræður eru þegar orðnar oflangar og heppilegt að slá í botninn.