14.07.1917
Neðri deild: 10. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 245 í C-deild Alþingistíðinda. (2594)

44. mál, stofnun stýrimannaskóla á Ísafirði

Pjetur Jónsson:

Jeg vil ekki banda hendi á móti því að auka kenslu í stýrimannafræði. Vitaskuld er það nokkuð djarft á þessum tíma að ráðgera skólastofnun fyrir næsta haust, þar sem líkur eru til þess, að skólum verði lokað. Það koma ef til vill fram óskir um fleiri skóla, nú á þessu þingi, en það er ekki hægt að gera neina ábyggilega áætlun um kostnað við slíkar stofnanir, á meðan styrjöldin stendur. Þess vegna virðist mjer, að menn verði að sætta sig við það, þótt ekki verði ráðist í fyrirtæki, sem svona háttar til um. Spurning gæti líka verið um, hvort ekki væri meira vit í því að stækka stýrimannaskólann hjer. Hjer mun vera hægara að fá góða kenslukrafta og meiri trygging fyrir áhrifamiklum skóla heldur en til dæmis á Ísafirði. Á mestu veltur ætíð um það, hvernig skóla er stjórnað og hverjir þar kenna, og á jeg ekki víst, að önnur skólastofnun geti sýnt eins góðan árangur og stýrimannaskólinn hjer í Rvík. En ef á að ráðast í að stofna nýjan skóla, þá er rjettara að byrja fjær, t. d. á Akureyri, þar sem þörfin er meiri, og erfiðleikar meiri til ferðalaga á Reykjavíkurskólann.

Jeg vil að eins gefa þetta sem bendingu, án þess að jeg vilji spilla fyrir kenslurýmkun. Auk þess það, að varla væri hægt að neita hinum fjórðungunum um skóla, eftir að þetta fordæmi er gefið, og „í upphafi skal endinn skoða“.