04.08.1917
Neðri deild: 25. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 248 í C-deild Alþingistíðinda. (2600)

44. mál, stofnun stýrimannaskóla á Ísafirði

Frmsm. (Magnús Pjetursson):

Jeg þarf ekki að svo stöddu að bæta miklu við það, sem stendur í nefndarálitinu á þgskj. 221. Þar eru teknar fram höfuðástæðurnar fyrir því, að mentamálanefndin leggur til, að frv. nái ekki fram að ganga. Auk þess var nokkuð af þeim tekið fram hjer á dögunum, í umræðum um annað mál, sem nokkuð var skylt þessu. Það virðist einkum hafa vakað fyrir háttv. flm. þessa frv., að þörf væri á fleiri skólum, til þess fyrst og fremst að veita fræðslu þeim skipstjóraefnum, er skipstjórn eiga að taka á mótorbátum, frá 12—30 smál. að stærð. Nefndinni fanst ekki þurfa að setja upp svo mikið bákn, til þess að veita þá fræðslu, því að það er ekki svo mikill lærdómur, sem til þess þarf, að hægt ætti að vera að kenna hann án þess að setja upp fullkomna skóla. Enda ætlast flm. auðsjáanlega til, að meira verði kent við skólana en þetta, því að frv. tekur það beinlínis fram, að sömu námsgreinar skuli kendar þar og kendar eru við fiskiskipstjóradeild stýrimannaskólans í Reykjavík. Þar sem það mun þó hafa verið aðalatriðið að fá skóla handa skipstjóraefnum á smáskipum, þá fanst oss ekki nema sjálfsagt, að nægilegt fje væri veitt til þess að halda uppi námsskeiðum handa þessum mönnum, og gera þau svo úr garði, sem þörf krefur.

Annað var það, sem kom fram í nefndinni, en ekki er tekið fram í nefndarálitinu, að þótt ástæða virtist til að setja skólann á stofn, þá er samt ekki heppilegur tími til þess nú. Ef það yrði ofan á, við nánari athugun, að ráðlegt þætti að setja upp marga sjómannaskóla, dreifða um landið, í stað þess að hafa skólann einn, þá væri eðlilegra, að það mál væri tekið til rækilegrar yfirvegunar fyrst, og reynt að ráða fram úr því í heild sinni, áður en farið er að setja á stofn einstaka skóla. Jeg geri ráð fyrir, að þá yrði samið eitthvert kerfi yfir skólafyrirkomulagið, og væri þá sjálfsagt að sníða skólana eftir því. Jeg tek þetta fram, ef þetta fyrirkomulag skyldi verða ofan á. En jeg get um leið tekið það fram, fyrir nefndarinnar hönd, að hún er eindregið á móti því, að skólarnir sjeu dreifðir. Hún álítur betra að hafa að eins einn skóla og vanda sem best til hans. Jeg þarf ekki að taka það fram, að nefndin væri fús á að leggja sitt til, að stýrimannaskólinn hjer væri efldur og aukinn, eftir því sem þörf krefur. — Jeg geri ráð fyrir, að hv. flm. geri sig ekki ánægðan með þessa niðurstöðu nefndarinnar, og segi eitthvað, til að andmæla henni. Jeg vil því bíða eftir mótbárum hans, en segi ekki meira að sinni.