04.08.1917
Neðri deild: 25. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 250 í C-deild Alþingistíðinda. (2601)

44. mál, stofnun stýrimannaskóla á Ísafirði

Matthías Ólafsson:

Jeg hefi gert mjer far um að setja mig inn í hugsanagang mentamálanefndarinnar, en mjer er ómögulegt að komast að þeirri niðurstöðu, að hún hafi komist að rjettri niðurstöðu. Það var ekki heldur við því að búast, þar sem nefndin er skipuð tómum landmönnum, sem sjaldan hafa á sjó komið. Menn geta ekki ætlast til þess, að mentamenn og bændur geti sett sig inn í þarfir og kröfur sjómannastjettarinnar. En málið er búið að ganga í gegnum hendur sjómannastjettarinnar. Það hefir verið rætt á fiskiþinginu og fjórðungsþing fiskifjelagsins hefir haft það til meðferðar, og það er eindreginn vilji þeirra allra, að skólinn verði stofnaður. Allar stofnanir sjómannanna eru þar á einu máli. Það má segja, að frv. sje þeirra verk. Við flm. höfum orðað það eftir margyfirlýstum vilja, og sjálfur skólastjóri eina stýrimannaskólans á landinu lítur sömu augum á málið.

Það er ekki rjett, að aðaltilgangur flm. hafi verið sá að fá próf handa skipstjórum á smáskipum. Ef svo hefði verið, þá hefði verið hægt að láta sjer nægja „pungaprófið“ — sem svo er alment nefnt fyrir vestan — við skólann. Vjelbátar eru nú alment að stækka. Eru margir þeirra 30—40 smál. og sumir jafnvel alt að 60 smál. Það er því orðin þörf á miklu meiri viðkomu af skipstjóraefnum en áður, og nauðsynlegt að hafa skóla sem næst þeim stöðum, sem útvegurinn er mestur á. Auk þess, hvað það kostar mikið að dvelja í Reykjavík við skólanámið, þá verða menn oft fyrir tilfinnanlegu atvinnutjóni við það, að þeir verða að sleppa vinnu sinni lengri eða skemri tíma áður en þeir komast hingað, til þess að sitja yfir ferðum, og svo verða þeir oft að bíða hjer, að loknu námi, áður en þeir geta farið að vinna. Það verður því miklu hentugra fyrir alþjóð, að skólinn sje settur á stofn.

Hvað viðvíkur því, að skólinn verði ekki eins fullkominn og tilsvarandi deild við skólann hjer í Reykjavík, þá er það eintómur misskilningur. Það er tekið fram í frv., að prófúrlausnir skuli samdar hjer, og sniðnar eftir kröfum þeim, sem gerðar eru til nemenda hjer. Það leiðir því af sjálfu sjer, að kenslan verður að vera svipuð. Það tíðkast í Danmörku, að úrlausnir við próf eru sendar frá Kaupmannahöfn, til þess að tryggja samræmi milli skólanna, og það ætti eins vel að geta tekist hjer.

Mjer hefir aldrei dottið annað í hug en að það yrði nokkru dýrara fyrir landssjóð beinlínis að setja nýjan stýrimannaskóla á stofn. En það er sparnaður fyrir heildina, og því ódýrara í raun og veru. Fyrir því er enginn vafi á því, frá mínu sjónarmiði, að þann kostinn eigi að taka.

Það var af hendingu, að stýrimannaskólinn lenti hjer. Maðurinn, sem eingöngu beitti sjer fyrir því, að skólinn yrði stofnaður, var Vestfirðingur. En til allrar óhamingju fluttist hann hingað, og það varð til þess, að skólinn ílentist hjer. Fyrsti stýrimannaskólinn átti að koma á Ísafirði. Þar var þá sjósókn mest og mörgum þilskipum haldið úti, og þaðan var maðurinn, sem stofnaði skólann. Það virðist nokkuð hart, að hjeraðið eigi alla tíð að gjalda þess, að maðurinn flutti hingað. — Sje þetta ekki sanngjörn krafa, þá veit jeg ekki, hvað er sanngjörn krafa. Ef það hjeraðið, sem lengst hefir stundað sjó og mest goldið til landssjóðs af sjávarafurðum, getur ekki gert aðra eins kröfu og þetta, þá er það bara af því, að menn vilja draga alt hingað.

Í nefndarálitinu stendur, að gera mætti ráð fyrir, að krafist yrði að stofna 4—5 slíka skóla. Því segja þeir ekki eins 10. Jeg sje enga ástæðu til að gera ráð fyrir fleirum en einum í hverjum landsfjórðungi, og þeir eru þó ekki nema 4. (B. J.: 5. í Reykjavík). Tilheyrir Reykjavík ekki neinum landsfjórðungi? (B. J.: Það sagði jeg ekki). Nei, en tilefni var til að taka orðin svo. (B. J.: Fyrir þá, sem ekki kunna að álykta). Jú, einmitt fyrir þá, sem kunna að álykta. —

Jeg fyrir mitt leyti er við því búinn, að fleiri landsfjórðungar sigli í kjölfar Vestfirðinga og geri kröfur til stýrimannaskóla. En nokkurt álitamál mundi þó vera, hvort ástæður eru jafnveigamiklar alstaðar. Akureyri kæmi að sjálfsögðu næst. Þar er útvegur orðinn svo mikill, að ástæða gæti virst til að stofna þar skóla innan skams. Aftur á móti mundi slík krafa ekki tímabær á Austfjörðum. Þar er svo sáralítið til af stærri vjelbátum, að ætla má, að langur tími líði, áður en þeir þurfi á sjómannaskóla að halda. Því miður, liggur mjer við að segja. Jeg vildi, að sá tími yrði sem stystur. Það benti á hraða framför í sjávarútveginum, þar eins og annarsstaðar.

Jeg held, að rökin fyrir því, að skólann eigi að stofna, sjeu meiri en þau, sem nefndin hefir á móti. Jeg vona því, að hv. deildarm. geti alveg eins eftir sem áður, hver einstakur, sjeð hvað gera á, því að nefndarálitið getur varla breytt skoðun manna. Vonandi sjá menn, að krafan er sanngjörn og málið vel undir búið, af hálfu þeirra manna, sem finna til þarfarinnar. Nefndarálitið er aftur á móti komið frá mönnum, sem ekki er ástæða til að halda, að hafi eins glögt auga fyrir þörfum sjómannastjettarinnar, sem borin er fram í frv. Fyrir því mælir meira með frv. en nál., og jeg þykist enn hafa jafnmikla von um framgang málsins.