22.08.1917
Neðri deild: 40. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 274 í C-deild Alþingistíðinda. (2618)

46. mál, forðagæsla

Sveinn Ólafsson:

Það verður ekki tekið svo fyrir 10. málið á dagskránni, sem einnig varðar forðagæslulögin, að ekki sje líka talað um það 11. Jeg vil því leyfa mjer að lýsa afstöðu minni til þeirra beggja í einu.

Eins og þetta mál liggur nú fyrir, þá eru tvö aðalatriði þess. Það er kaup forðagæslumannanna og kosning þeirra. Breytingar, sem gerðar eru á núgildandi lögum, ættu helst að vera til einhverra sýnilegra bóta, en verði þessar breytingar samþyktar, þá mun það sannast, að þær verða til skemda, en ekki bóta. Það sannast, að það verður mun óvinsælla þó að láta sýslunefndirnar kjósa forðagæslumennina heldur en sveitirnar sjálfar, enda skortir sýslunefndirnar alla staðarlega þekkingu til að fara eftir. Jeg hygg, að reyndin yrði sú, að þeir yrðu kosnir forðagæslumenn, sem hlutaðeigandi sýslunefndarmaður benti á, en engin trygging er fyrir því, að hann hitti altaf á færasta manninn. Þessi breyting hygg jeg því að væri mjög óheppileg.

Sama máli gegnir um hina breytinguna, að hækka kaup forðagæslumannanna. Það yrði áreiðanlega óvinsælt af öllum þorra þjóðarinnar. Margir hafa áður kvartað um að þurfa að borga forðagæslumönnunum nokkur laun, hafa eigi þóst sjá það gagn af starfi þeirra, er launa væri vert. Hvað þá, ef launin verða hækkuð?

Jeg festi í minni eina setningu, sem hv. 1. þm. Skagf. (M. G.) sagði. Hann varpaði fram þessari spurningu: „Hvað á að gera, ef hrepparnir neita að kjósa forðagæslumenn“. Hann svaraði spurningunni ekki sjálfur. En jeg held, að svarið sje einungis eitt. Nema lögin úr gildi. Ef menn hlýða ekki lögunum af fúsum vilja, þá hefir ekkert að þýða að valdbjóða þau. Það, sem á að gera nú í þessu máli, er að afnema öll forðagæslulög og setja mönnum í sjálfsvald, hvernig þeir setja á. Það eru ákvæði í hegningarlögunum um hegningu fyrir að fella úr hor. Sje það ákvæði gagnslaust, þá hefir þetta því síður nokkuð að þýða. Ákvæði hegningarlaganna og fyrirmæli sveitarstjórnarlaganna um eftirlit hreppsnefnda eru hyrningarsteinar, sem standa verða; hitt má hverfa. Meiri hl. nefndarinnar vill láta forðagæslulögin vera áfram í gildi, en skerpa nokkuð ákvæði þeirra. Hann álítur það líka vera misskilning, að lögin sjeu óvinsæl. Jeg skal ekki deila um þetta og ekki fara fleirum orðum en jeg þegar hefi gert um það, hve ósamdóma jeg er þessum mönnum.

Hv. minni hl. landbúnaðarnefndar vill breyta frv. á þgskj. 47 dálítið, í þá átt, að auka umráð hreppanna, gera framkvæmdina frjálslegri. Jeg býst við því, að ekki þýði að fara fram á, að forðagæslulögin sjeu afnumin nú. Jeg mun því hallast að frv. á þgskj. 47 með breytingum minni hlutans.