04.09.1917
Neðri deild: 51. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 291 í C-deild Alþingistíðinda. (2625)

46. mál, forðagæsla

Gísli Sveinsson:

Við leyfðum okkur, tveir þm., á öndverðu þingi, að koma fram með frv. til forðagæslulaga. Það má, eftir því sem reynslan hefir verið um þetta mál, búast við, að frv. endist út þingið, til að tala um það, og virðist þá ekki ósanngjarnt, að jeg taki einu sinni til máls í öllum þeim umræðum.

Fyrst skal þess geta, sem nefnt hefir verið fyr í umræðunum, að eftir frv. eiga sýslunefndir að kjósa forðagæslumenn. Þessi breyting er í samræmi við umkvartanir og óskir ýmsra manna, og það sjálfra forðagæslumanna. Menn hafa rekið sig á, að sumpart hefir ekki verið gerð gangskör að því að kjósa forðagæslumenn, og sumpart hafa verið kosnir menn til forðagæslu, sem ef til vill hafa gefið sig fram af tilviljun og ekkert skynbragð hafa borið á þá hluti. Það geta allir sagt sjer sjálfir, hvers virði slík forðagæsla muni vera. Vanalega hefir svo verið um slíka menn, að þeir hafa ekki einu sinni að forminu til reynt að uppfylla skyldur sínar. Meiri trygging er nú fyrir, að sýslunefndunum fari betur úr hendi skipun forðagæslumanna en hreppsnefndunum. Sýslunefndin stendur betur að vígi um að taka ekki tillit til vilja þeirra, sem vilja smeygja forðagæslustarfinu fram af sjer. Sýslunefndir myndu líka síður skipa ónytjunga. Það er algerlega röng mótbára, að sýslunefndir þekki ekki nógu vel til. Á flestum stöðum mun svo til háttað, að sýslunefndarmenn þekki meira og minna til hvers einasta heimilis í sýslunni. Auk þess er einn sýslunefndarmaður úr hverjum hreppi sýslunnar. (S. St.: Sýslunefndarmenn þekkja ekkert til í hreppunum). Jeg er ofókunnugur á Hornströndum, sem hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) þekkir best, til þess að jeg viti, hvernig það er þar. En jeg býst við, að þegar talað er um að setja almenn lög, þá muni þau ekki verða miðuð við Hornstrandir. Vitanlega eru forðagæslumenn eftir lögunum skyldir að taka við kosningu og geta því ekki komið sjer undan útnefningu, nema þeir hafi sömu lögmætu ástæður fyrir sig að bera, sem þarf til þess að komast undan kosningu í hreppsnefnd. Með breytingunni er ætlast til, að þessir menn verði óháðari og betur valdir.

Önnur breyting, sem um er að ræða, er sú, að þóknunin til forðagæslumannanna sje hækkuð. Nú fá þeir í kaup alt að 2 kr. á dag. Þetta er óhæfilega lágt kaupgjald, einkum þar sem skylda má þá til að taka að sjer verkið, og er ekki líklegt, að þeir sjeu fúsir að vinna jafnvandamikið starf fyrir svo litla þóknun. 5 krónur þær, sem frv. ætlar forðagæslumönnunum á dag, sýnast alls eigi ofhá borgun miðað við það, sem þetta þing hefir ákveðið fyrir önnur störf almenningsmanna.

Þriðja breytingin, sem frv. fer fram á, er að forðagæslumennirnir skuli ekki vera bundnir við neina fasta reglugerð frá landsstjórninni eða sýslunefnd. Reynslan hefir sýnt, að það er ekki hægt að fara eftir slíkri allsherjarreglugerð, hún er altof einstrengingsleg og hlýtur svo að vera. Ef það tekst að fá góða forðagæslumenn, sem hafa vit á að gefa bendingar, þá er langheppilegast, að þeir sjeu ekki rígbundnir við reglugerðir, heldur hafi frjálsar hendur um að haga starfi sínu eftir því, sem þeir telja hagkvæmast og vænlegast til að bera sem bestan árangur, Þessi form, sem sett hafa verið, eru svo flókin, að það er ekki fyrir alla að geta fylgt þeim, og það get jeg sagt hv. frsm. (J. J.), er eigi þykist lítill í þessu máli, að sumir, sem þykjast kunna það, mega vara sig að ruglast ekki í reikningunum. Meiningin hefir sjálfsagt verið góð með ákvæði forðagæslulaganna, og meiningin er sjálfsagt líka góð fyrir hv. frsm. (J. J.). En þessir góðu menn gæta þess ekki, að rjett er að gefa góðum mönnum frjálsar hendur, en binda þá ekki við ákveðin, óheppileg „form“, heldur lofa þeim að skapa sjer sjálfum það form og þá vinnuaðferð, sem reynslan kennir þeim að best eigi við.

Tilgangur forðagæslulaganna er eflaust sá að venja menn á að setja vel á, og tryggja sjer nægan heyforða, og til þess þarf enga reglugerð og engin form handa forðagæslumönnunum til að fylla út; mun það og reynast affarabest. Hitt er annað mál, að rjett er, að þeir semji skýrslur um starf sitt og sendi sýslumanni; má væntanlega fá úr þeim ýmsan fróðleik og leiðbeiningar um það, hvernig ásetningarmálinu megi sem best skipa; meiri líkur fyrir því, að margvíslegar upplýsingar fáist um það mál alt á þann veg heldur en með hinu, að forðagæslumenn sjeu bundnir við eitt allsherjarform. Og satt að segja eru margir góðir og gegnir menn hjer á landi þannig gerðir, eða eru ekki svo miklir skriffinnar, að þeir sjái nytsemd í að fylla út öll þau form, er fyrirskipuð eru eða fyrir kunna að verða skipuð. Þessir menn hugsa ekki mest um að uppfylla bókstafinn, heldur að vinna á sem hagfeldastan og notadrýgstan hátt.

Breytingar þær, sem jeg og hv. 1. þm. Skagf. (M. G.) bárum upp í máli þessu, hafa ekki fundið náð fyrir augum hv. landbúnaðarnefndar, enda mun þá ekki furða það, sem til hennar þekkja, því að hún er orðin kunn að því að aðhyllast ekki annað en það, sem hún kemur sjálf með eða finnur upp á, en það geta aftur aðrir ekki aðhafst. Þótt niðurstaðan í áliti hv. nefndar kunni að vera rjett að ýmsu leyti, þá er orðalagið á því og kurteisin í því ekki til fyrirmyndar; má glögglega sjá handaför hv. skrifara og framsm. nefndarinnar (J. J.) á ritsmíð þessari. Hv. nefnd byggir mikið á því, hvað hún heldur að vinsælt sje. Það getur nú verið blessað og gott að baka sjer ekki ófyrirsynju óvinsældir. En ef koma á einhverju góðu máli fram, má ekki jafnan hafa það fyrir mælikvarða, hvað vinsælast muni vera. Jeg er viss um það, að allra vinsælast mundi það vera að afnema forðagæslulögin með öllu. En jeg er samdóma hv. nefnd um, að það sje þó ekki gerlegt, þótt vinsælast mundi reynast.

Við flutningsmenn frv. höfum að eins viljað koma með þær breytingar, sem gerðu kleift að nota lögin og stuðluðu að því, að þau kæmu að haldi og næðu tilgangi sínum. Hv. frsm. (J. J.) taldi forðagæslulögin góð eins og þau eru, en þyrfti þó að breyta þeim í einstöku atriðum. Þessar breytingar ber hv. nefnd svo fram í öðru frv., og hljóðar hún um það, hvað ákveða skuli í reglugerð, er sett sje um forðagæsluna. Hv. nefnd hefir sjálfsagt borið fram þessa breytingu af því, að hún hefir ekki álitið form það og reglugerð, sem farið hefir verið eftir, aðgengilegt fyrir almenning. En það má hv. nefnd vera viss um, að hennar reglur munu verða það enn síður. Og ef almenningur getur ekki notað þær reglur, sem hingað til hefir verið farið eftir, þá mun hann ekki fremur geta notað þessar nýju reglur. Hv. frsm. (J. J.) sagði, að áætlun forðagæslumanna um heyforða bænda væri ágiskun ein, þegar farið væri eftir þeim reglum, sem hingað til hefði verið fylgt, en hann varð og að játa, að eftir tillögum hans og nefndarinnar yrði hún líka bygð á ágiskun, — forðagæslumaðurinn yrði meira eða minna að giska á, hve mörg forðamál væru í þessum eða hinum stabbanum. Enda mun svo jafnan verða, að forðagæslumennirnir hljóti meira eða minna að byggja álit sitt um heyforða manna á ágiskun. Verða þeir þar að fara eftir reynslu sinni og þekkingu á málinu.

Hann talaði og um, að bændur mundu skýra forðagæslumanni frá, hve mikið hey þeirra væri og hvernig það væri. Það er rjett, en þetta er ekki annað en það, sem nú er gert. Hv. frsm. (J. J.) sagði og, að forðagæslumennirnir gætu spurt aðra góða menn úti í frá um heyin, til þess að komast að hinu sannasta um þau. Þetta er einmitt það, sem þeir forðagæslumenn, er láta sjer ant um starf sitt, gera nú, svo að hjer er um enga framför að ræða frá því, sem nú er. Þá fór hv. frsm. (J. J ) hörðum orðum um þá, sem ekki gætu metið hey, og kallaði þá aula. Jeg get ekki tekið hjer undir með honum, því að þótt hann þykist mikill og telji sig hafa gott vit á heyskoðun, veður hann þó sjálfur sýnilega reyk um þetta, og hann ætti ekki að áfellast mjög góða menn, þótt þeir telji rjett heymat ekki jafnan vel kleift. Og ekki skyldi hann kalla þá alla aula, sem ekki hafa lært alt, sem tilheyrir því að nota reglurnar hans eða útfylla formin. Jeg býst við, að enn sje, sem verið hefir frá alda öðli, að meir sje að byggja á reynslu og þekkingu, sem menn hafa aflað sjer með ástundun og athugun, — en þótt gengið hafi verið í einhvern skóla og lærð þar tugabrot, og að reikna út hey í teningsmetrum og breyta því síðan í forðamál, eins og hv. frsm. (J. J.) vill. Jeg held, að meira beri að leggja upp úr reynslu góðra búmanna en hve menn eru fimir að skrifa tölur á blað.

Frv. það, er hv. nefnd hefir sett saman, vill svo sem bæta kjör forðagæslumannanna. Það leggur til, að breytt sje dagkaupi þeirra þannig, að í stað þess, sem í lögunum stendur, að þeir skuli fá alt að 2 kr. á dag fyrir starf sitt, vill nefndin að komi „minst 2 kr.“ Ó já, munurinn þarf nú ekki að verða svo ýkjamikil, en nefndin hefir sjálfsagt ekki sjeð sjer fært að hafa hann meiri. Nefndinni hefir og þótt óhætt að þyngja heldur starfið eftirleiðis, eftir að hún hefir rausnast til að hækka svona borgunina fyrir það.

— En hafi það áður verið hebreska fyrir forðagæslumennina sumt, sem þeir áttu eftir að fara, þá mun það ekki verða síður nú, því að svo segir fyrir í frv. nefndarinnar, að í reglugerð skuli fyrirskipað að mæla hlöður, heytóftir og hey í teningsmetrum, en hey og annað fóður skuli meta í forðamálum. Þessum fyrirmælum er bæði torfylgt, og auk þess eru þau óglögg og tvíræð. Þess hefir áður verið getið, hve torvelt er að mæla sundurgrafna heystabba í tóftum og erfitt að meta rjett missigið hey. En til þess að gera alt sem ruglingslegast, þá er orðið hey haft í mismunandi merkingu í greininni, bæði látið tákna upp borið hey eða heystabba og þurkað grasið. Annars legg jeg ekki mikið upp úr breytingum hv. nefndar, en tel þær þó óþarfar og fremur óheppilegar. Þetta ætti hún sjálf að játa og viðurkenna, að margt er flókið við þetta skýrsluform og reglur þær, sem ætlast er til að fylgt sje. Þá hv. þm., sem talað hafa, greinir mjög á. Sumir vilja fella forðagæslulögin úr gildi, aðrir breyta þeim, og enn aðrir eru á báðum áttum um, hvað gera skuli. Svona horfir nú málið við í deildinni. Fram er komið ágreiningsálit frá minni hluta landbúnaðarnefndarinnar. Felst minni hluta nefndarmaðurinn, hv. 2. þm. Eyf. (E. Árna.) í ýmsu á frv. okkar, en vill breyta sumu. Hann vill t. d., að hreppsbúar kjósi forðagæslumennina, en ekki sýslunefnd; en það er einmitt annað aðalatriðið hjá okkur flutningsmönnum frv., að sýslunefndir kjósi þá. Hingað til hafa þeir verið kosnir mjög af handahófi, eða kosningin alls ekki verið framkvæmd. En á þessu mundu bætur ráðnar, ef sýslunefndir kysu forðagæslumenn. Jeg tel því þessa breyting hv. þm. Eyf.

(E. Árna.) óaðgengilega, með því að hún mundi gera að engu höfuðtilgang okkar.

Aftur er það góðra gjalda vert, að hv. þm. (E. Árna.) hefir komist að þeirri niðurstöðu, að rjett sje, að þessi skýrsluform sjeu látin falla niður. Ekki felli jeg mig við það, að hv. þm. (E. Árna.) vill hafa að eins eina skoðunargerð á vetri, og þó allra síst, að hún skuli fram fara síðari hluta vetrar; eigi hún ekki að vera nema ein, þá ætti hún sjálfsagt að fara fram að haustinu eða snemma vetrar; enda hefi jeg engan heyrt kvarta yfir haustskoðuninni. Ef einhver meining á að vera í þessum skoðunum, þá verða þær að fara fram á haustin; þá er rjetti tíminn til að gefa góð ráð um ásetning. Þau geta komið að litlu haldi síðari hluta vetrar, og ólíkt að skera fje á haustum af fóðrum en á útmánuðum. Heyforðaskoðanirnar á haustin miða að því að byrgja brunninn í tíma.

Þeir, sem engin forðagæslulög vilja hafa, álíta allar skoðanir óþarfar og þýðingarlausar. Sumir hv. þdm. hafa tekið í líkan streng og hv. frsm. (J. J.). En þeim hefir verið svarað úr annari átt, og tel jeg því óþarft að rekja það mál meir sundur nú. Jeg vil taka það greinilega fram, að jeg vil ekki, að lagaleysi komi í stað forðagæslulaganna, heldur að þau verði endurbætt.

Jeg segi það ofdjúpt tekið í árinni að halda því fram, eins og víst tveir hv. þm hafa gert, að síðan forðagæslulögin voru samþykt hafi verið fjárfellir um land alt á hverju ári. Þetta er fjarstæða; enda hafa þeir einir tekið munninn svo fullan, sem vilja lögin feig. Það er sannanlegt, að engar skýrslur eru til um þennan almenna árlega fjárfelli, og geta ekki heldur verið til, því að hann hefir ekki átt sjer stað, og þótt svo væri, að skepnufellir hefði verið tíður síðan lögin komu í gildi, þá sannar það ekki, að þau geti ekki verið góð. Það sýndi ekki annað, en að menn væru enn eigi farnir að hlýða lögunum og notfæra sjer ráðleggingar forðagæslumanna. Það mun eiga langt í land, að hægt verði að segja, að hvergi hafi fallið skepna hjer á landi að vori. Búskapnum er nú einu sinni svo háttað og veðráttufarinu.

Jeg fer svo ekki fleirum orðum um málið, en læt hv. deild ráða, hvernig hún tekur því. En það mega menn vera vissir um, að breytingar okkar hv. 1. þm. Skagf. (M. G.) eru aðgengilegastar og munu síðar komast fram, og þótt þær verði svæfðar nú, munu menn ekki sitja lengi aðgerðalausir undir lögunum óbreyttum. Jeg býst og við, að þótt kákumbætur hv. landbúnaðarnefndar yrðu samþyktar, sem mjer reyndar þykir ólíklegt, þá muni menn ekki una lengi við þær, því að jeg er sannfærður um, að þær gera ilt verra.

Þegar hjer var komið umræðum, var komin fram ósk um að slíta þeim, frá Sv. Ó.,

P. O., Þór. J., E. A., H. K., Þorst. J.