14.07.1917
Neðri deild: 10. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 301 í C-deild Alþingistíðinda. (2629)

50. mál, stofnun landsbanka

Pjetur Jónsson:

Talsverð rök eru til að fylgja því, að bankahúsið verði heldur sett í Suður-Múlasýslu en á Seyðisfirði. Yfirleitt er jeg þeirrar skoðunar, að útibú eigi að setja sem víðast um land alt, en síður fleiri á sama stað. Það er vanræksla af bankastjórnunum að dreifa ekki útibúum betur um landið. Þær bera fyrir sig kostnaðinn, segja, að útibúin beri sig ekki. En jeg þykist vita, að þótt þau beri sig ekki fyrst í stað, sje eins um þau og um nýja viðkomustaði strandferðaskipanna; fyrst ber það sig ekki, en lagast svo, þegar fólkið er búið að venjast því, að þarna sje viðkomustaður eða útibú.

En samt er jeg ekki með frumvarpinu. Jeg vil ekki, að settar sjeu neinar skorður við því, hvar landsbankastjórnin eða landsstjórnin setur útibú. Því á bankastjórnin að ráða mestu um sjálf. Það er ekki rjett, að ókunnugir þingmenn skeri úr því. Bankastjórnin á hægra með það og þekkir betur hvernig á að skipa niður útibúum á heppilegan hátt fyrir peningamál landsins. Þótt jeg nú greiði atkv. á móti frv., er það ekki af mótþróa gegn því, að útibúið verði sett í Suður-Múlasýslu, heldur af því, að jeg vil að banka- og landsstjórnin ráði í þessu efni.