14.07.1917
Neðri deild: 10. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 302 í C-deild Alþingistíðinda. (2631)

50. mál, stofnun landsbanka

Þorsteinn Jónsson:

Jeg verð að taka taka undir það með hv. 1. þm. N.-M. (J. J.), að mjer kom það kynlega fyrir, að þetta frv. skyldi koma hjer fram á þingi. Það hefir undanfarið verið deilumál milli Norður- og Suður-Múlasýslna, hvar bankaútibúið ætti að vera. En auk þess hefir það verið deilumál milli hinna ýmsu hreppa í Suður-Múlasýslu. Hver einstakur hreppur þar vill hafa útibúið hjá sjer, en Norðmýlingar vilja hafa það á Seyðisfirði. Það er því alleinkennilegt, að þingmenn austfirskir skuli vera að leiða inn á Alþingi „hreppapólitisk“ mál af Austfjörðum. Jeg býst við því, að það sje alment álitið í Suður-Múlasýslu, að það heyri undir bankastjórnina að velja útibúinu stað, auðvitað í samræmi við úrskurð landsstjórnarinnar. Líka myndu Norðmýlingar yfirleitt una illa úrskurði Alþingis, þar sem málið er sótt af þingmönnum Sunnmýlinga sem „hreppapólitiskt“ mál.

Jeg hygg, að báðir flutningsmenn frv. hafi Eskifjörð í huga, sem aðsetur útibúsins. En ef jeg ber saman Seyðisfjörð og Eskifjörð, getur mjer ekki blandast hugur um, að bankinn ætti fremur að vera á Seyðisfirði. Seyðisfjörður er miklu fjölmennari kaupstaður. Símasamband er stórum betra; sími lengur opinn en á Eskifirði. Samgöngur á sjó eru betri en annarsstaðar eystra. En þar er samgöngum víða svo háttað, að menn ferðast á sjó, því að erfiðir og torsóttir fjallvegir eru milli sveita.

Það er rjett, sem hv. flm. (Sv. Ó.) sagði, að eftir að Fagradalsbrautin komst á hefir verslun af Hjeraði flust mjög frá Seyðisfirði til Reyðarfjarðar. En þó er enn mikil verslun á Seyðisfirði af hálfu Hjeraðsbúa. T. d. mun árlega vera slátrað á Seyðisfirði um 20000 fjár af Hjeraði.

Mjer blandast ekki hugur um, að Eskfirðingar og Reyðfirðingar myndu hafa mestan hagnaðinn, ef útibúið væri sett hjá þeim, en mjer er ekki vel ljóst, hvort nokkrar aðrar sveitir hefðu meiri hagnað af því, að það væri á Eskifirði, en einhversstaðar annarsstaðar á Austfjörðum. Af Norðfirði t. d., eru oftar ferðir á Seyðisfjörð en Eskifjörð, og kemur það af því, að á Seyðisfirði er hin eina mótorverksmiðja Austurlands, en á Norðfirði er, sem kunnugt er, rekin mikil mótorbátaútgerð. Af Mjóafirði er miklu styttra að sækja á Seyðisfjörð en Eskifjörð. Mestöll Norður-Múlasýsla á hægra með að ná til Seyðisfjarðar en Eskifjarðar, en það er af sömu ástæðum og áður eru nefndar, að þangað eru fleiri ferðir og betri samgöngur. Enn fremur munu Fáskrúðsfirðingar eiga oftar leið til Seyðisfjarðar, eftir því sem jeg hygg.

Ef ákveða ætti stað í Suður-Múlasýslu, þá lægi þó Reyðarfjörður miklu nær. Hvort útibúið er á Eskifirði eða Seyðisfirði, hlýtur að gilda einu fyrir Hjeraðsbúa.

Jeg sje, að hv. 2. þm. S.-M. (B. St.) biður nú um orðið, og mun hann ætla að mótmæla þessu, vegna þess, að Upphjeraðsmenn hafi meiri verslun á Reyðarfirði en Seyðisfirði. En á milli Reyðarfjarðar og Eskifjarðar er svo löng vegalengd, að til Eskifjarðar verður lítið skemmra frá Reyðarfirði en af Hjeraðinu yfir Fjarðarheiði til Seyðisfjarðar.

Þótt einstöku staður á Suðurfjörðunum hafi meiri útgerð en Seyðisfjörður, hefir enginn staður þar eins mikla verslun og Seyðisfjörður. Mig minnir, að hv. 1. þm. S.-M.

(Sv. Ó.) segði, að Austur-Skaftfellingar væru betur settir, ef útibúið væri í Suður-Múlasýslu. Þar til má svara því, að Norður-Þingeyingar myndu allir heldur leita til Seyðisfjarðar.

Annars vil jeg ekki hefja deilu um þetta mál hjer í hv. deild, en vil hlíta úrskurði landsstjórnar í samráði við bankastjórn. Því að Austfirðingum er það aðalatriðið að fá útibúið, en ekki að deila um það hjer á þingi, hvar útibúið eigi að vera. Vil jeg því eindregið leggja á móti því, að þetta frv. verði samþykt.