14.07.1917
Neðri deild: 10. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 312 í C-deild Alþingistíðinda. (2637)

50. mál, stofnun landsbanka

Þorsteinn Jónsson:

Hv. þm. Dala. (B. J.) tók það fram, að þetta mál væri ekki flókið fyrir þingið, en undarlegt er, að það skuli vera flóknara fyrir landsstjórnina, sjerstaklega þar sem hún getur farið eftir tillögum bankastjórnar, sem best skilyrði hefir til þess að dæma um málið.

Viðvíkjandi ummælum hv. þm. S.-M., sjerstaklega hv. 2. þm. (B. St.), þá vona jeg, að það hafi skilist, að jeg vildi ekki, að vjer Austfirðingar deildum um, hvar bankinn yrði, heldur að vjer hlíttum óvilhöllum dómi.

Jeg tók það fram, að það væri margt, sem mælti með Reyðarfirði, en það væri meira, sem mælti með Seyðisfirði heldur en Eskifirði.

Sami hv. þm (B. St.) sagðist hafa borið málið undir mig fyrir þing og jeg hafi sagt, að jeg myndi ekkert skifta mjer af því. Sömuleiðis gaf hann það í skyn, að hann hefði látið mig vita, að hann myndi koma málinu inn í þingið. Í þessu er dálítill sannleikur hjá þingmanninum, en ekki alger. Þegar við töluðum um mál þetta, þá fórust mjer orð á þá leið, að jeg myndi hvorki reyna að hafa áhrif á bankastjórnina eða landsstjórnina, hvar útibúið væri sett; jeg treysti þeim til að velja heppilegasta staðinn. En að hann eða þingmenn Sunnmýlinga kæmu með frv. inn í þingið, þessu máli viðvíkjandi, var mjer ekki kunnugt fyr en jeg sá það á prenti. Ef frv. þetta hefði ekki komið fram, hefði jeg ekkert skift mjer af máli þessu, Jeg vil ekki gera aukaatriði að aðalatriði, og jeg treysti þinginu ekki eins vel að velja útibúinu stað sem landsstjórninni eftir tillögum bankastjórnarinnar.

Sami hv. þm. sagði enn fremur, að nokkrir menn úr Norður-Múlasýslu vilji hafa bankann á Reyðarfirði; það getur verið, en mjer er kunnugt um, að sýslunefnd Norður-Múlasýslu vildi heldur hafa hann á Seyðisfirði, en láta þó landsstjórnina ráða.

Viðvíkjandi því, að fyrir Úthjeraðsmenn væri bankinn best settur á Eskifirði, þá er því að svara, að jeg veit ekki um, að það sje nema einn maður, sem verslar í Reyðarfirði úr Hjaltastaðarþinghá; að minsta kosti eru þeir fáir, og engir þar, sem versla á Eskifirði. Úr hinum sveitum Úthjeraðsins versla menn að vísu nokkuð við Reyðarfjörð, og sömuleiðis við Seyðisfjörð, en enginn við Eskifjörð.

Sami hv. þm. (B. St.) taldi Seyðisfjörð útkjálka, en jeg verð að telja hann miðstöð Austfjarða, því að þótt meiri útgerð sje á suðurfjörðunum, þá hefir því ekki verið mótmælt, að meiri verslun er á Seyðisfirði en á nokkrum þeirra.

Hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) sagði, að það væri af umhyggju fyrir bankanum, að hann vildi hafa hann á suðurfjörðunum, en bankastjórnin mun engu minni umhyggju bera fyrir bankanum, og því engin hætta að fara eftir tillögum hennar með útibússtaðinn.

En þar sem sami hv. þm. (Sv. Ó.) drap á hótanir Sunnmýlinga við bankann, þá skoða jeg það gert í hugsunarleysi; svo mikil hreppapólitík sýnir, að hjer er um kappsmál milli sveitanna að ræða, sem þinginu er erfitt að gera upp á milli.

En ef á að samþykkja þetta frv., þá verð jeg að telja rjettara það, sem hv. þm. Dala. (B. J.) sagði, að binda staðinn við Reyðarfjörð, til þess að girða fyrir, að Sunnmýlingar færu að deila um þetta atriði sín á milli, og af því að þar er vafalaust heppilegasti staðurinn í Suður- Múlasýslu fyrir bankann; landverslun liggur þar best við, og landið hefir gert meira til þess að efla þann stað en aðra staði í þeirri sýslu, þar sem akbrautin til Hjeraðs liggur þaðan.